Færsluflokkur: Bloggar
13.8.2008 | 22:59
Titillinn náði mér...
- en hann hefði svo sem líka gert það þótt hann hefði verið nær raunveruleikanum, t.d. á þessa leið: "10 cm langt hvítabjarnarbein finnst í hákarlsmaga" eða einfaldlega "hvítabjarnarbein finnst í hákarlsmaga".
Það er nefnilega nákvæmlega það sem fannst skv. Reuters og umfjöllun Viðskiptablaðsins um sama efni byggir á! Svo finnst mér að mogginn mætti gjarna vera duglegri að setja tengla á þær fréttasíður sem hann vitnar til svo maður geti fundið heimildirnar án aðstoðar google...
Hins vegar eru þessar pælingar um fyrirsjáanleg vandræði ísbjarna vegna hlýnunar allrar athygli verðar. Það má leiða rök að því að birnirnir muni í náinni framtíð þurfa að eyða meiri tíma á sundi, sem aftur geri þá viðkvæmari fyrir hákarla/háhyrningaárásum.
Líklegast finnst mér þó að þeir hvítabirnir sem lenda í hákarlsmaga geri það eftir andlát sitt, enda virðast hræ af ýmsu tagi vera algeng í fæðu hákarla - sem tengist afburða lyktarskini þeirra, enda þótti kasúldið hrossakjöt afburða hákarlabeita meðan þeir voru veiddir á áraskipum fyrir norðan land á þarsíðustu öld.
Hvítabjörn í hákarlsmaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.7.2008 | 00:22
Af (anti)sportum og áhugamálum!
Eins og allir vita þá er ég - og hef alltaf verið - antisportisti! Ég hef aldrei haft nokkurn áhuga á að eltast við bolta, hlaupa að þarflausu eða reyna að kasta einhverju drasli lengra en næsti maður. Get einnig upplýst hér með að ég hef aldrei átt líkamsræktarkort og aldrei komið inn í slíkar búllur síðan hætt var að neyða mann í leikfimi!
Að sama skapi er ég afskaplega lítill keppnismaður þótt ég hafi slegist eitthvað í skák á yngri árum.
Þetta þýðir þó ekki að ég eigi engin áhugamál.
Bátastúss í einhverri mynd er mér nauðsynlegt svo ég haldi geðheilsu. Ég er nátturlega alinn upp við þetta, var flest sumur á sjó frá 13 - 30 ára. Roskinn maður fyrir vestan spurði mig fyrir nokkru hvort ég væri ekki feginn að vera nú kominn í þægilega vinnu og þurfa ekki lengur að standa í þessu sjóvolki. Það virtist koma honum á óvart þegar ég svaraði því til að mér hefði alltaf fundist frábært að komast burt frá skólum og sunnanómenningunni til að taka þriggja mánaða slag við grásleppuveiðar og skak.
Það þarf því ekki að koma á óvart að aðal áhugamálin tengist sjónum.
Köfunin hefur því miður setið á hakanum í nokkur ár, hef ekki gefið mér tíma til að sinna henni. Maður er samt alltaf á leiðinni úti aftur enda er þetta gríðarlega heillandi heimur sem maður fær að gægjast inn í með þessu móti.
Um síðustu helgi kepptum við svo á tveggja daga siglingamóti og unnum það (ég er samt enginn keppnismaður sko). Að vísu var logn fyrri daginn og endaði með því að keppni var frestað kl 10 um kvöldið. Þá höfðu menn setið fastir úti á Faxaflóa í rúma tvo tíma. Við höfum hins vegar notað tímann og kastað færi (veiddi eina lýsu) og hlustað á notalega tóna úr næsta bát en þar hafði einn áhafnarmeðlimurinn tekið með sér lita harmoniku - og tók við óskalögum s.s:
Við gefumst aldrei upp þó móti blási (eða þannig),
Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á... o.fl.
Já og svo finnst mér gaman að labba og á það til að skreppa í kvöldgöngutúra um næsta nágrenni eða Esjuna ef ég er í stuði...
Og allskyns útbúnaður - og græjur...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.6.2008 | 21:21
Litla ljónið og stórir hundar :-(
Eftir um það bil mánuð verður litla ljónið okkar fjögurra ára. Já tíminn líður svo sannarlega. Eins og flestir vita sem þekkja okkur er hún á köflum all mikil fyrir sér og bókstaflega að springa úr dugnaði. Mikill klifurköttur og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna - nema stóra hunda. "É hef onnæmi fiðið ðtóðum hundum" sagði hún við mig í vetur eftir nágvígi við fullvaxinn síberískan sleðahund.
Í dag var svo bætt ögn á áðurnefnt "onnæmi", þegar kærasti einnar fóstrunnar á leikskólanum mætti með gæludýrið að dyrum skólans. Í fjarlægð hefur hinn fullvaxni dobermann örugglega ekki litið út fyrir að vera neitt óárennilegur - að minnsta kosti kom hún hlaupandi til að klappa voffa og lét sig hafa það þótt hæðin á herðakamb hundsins væri svipuð hennar eigin hæð! En þegar hann teygði sig að henni og hnusaði af hárinu á henni, fannst litla ljóninu nóg komið, hörfaði undan með stóra skeifu og yfirlýsingunni "Méð finnðt baða gaman að hvolpum".
Ég er alvanur hundum og þeir voru fastur liður í mínu ungdæmi. Ég verð þó að viðurkenna að ef hundur sem væri 1,8 metrar á herðakamb snéri sér að mér og færi að hnusa af hausnum á mér - ég hugsa að mér stæði ekki á sama...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2008 | 23:05
Hin villtu blóm og lúpínan!!!
Suma daga er ég alveg sannfærður um að ég hljóti að vera í besta starfi í heimi. Í síðustu viku voru a.m.k. tveir slíkir - sem er yfir meðallagi.
Þannig bar við að ég ásamt fleirum var staddur með hóp 10-12 ára krakka í náttúruskoðunarferð. Plöntuskoðun var allstór þáttur ferðarinnar - sem hljómaði ekki sérlega spennandi fyrirfram. Þegar út var komið var hins vegar annað uppi á teningnum og krakkarnir hinir áhugasömustu. Meðal annars var skoðað einangarð en vel gróið svæði umlukið byggð og svo til samanburðar raunverulegt og vinsælt útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Alls fundu krakkarnir um 80 plöntutegundir/hópa og voru heldur roggin með sig.
Þetta er nefnilega það sem gerist þegar farið er með krakka út, þau stoppuð aðeins af og látin líta niður fyrir tærnar á sér...
Það sem truflaði mig þó aðeins í þessu öllu saman var að á báðum þessum svæðum er lúpína í mikilli framrás. Bæði eru þau vel gróin - enda segir það sína sögu að eitt 10 ára stelpuskott skuli finna hátt í 60 mismunandi tegundir á innan við tveimur tímum eins og raunin var.
Á öllum helstu útivistarsvæðum höfuðborgarsvæðisins (sem og miklu víðar) er lúpína í sókn. Það sem ég velti fyrir mér er hvort þetta sé þróun sem er íbúum og notendum þessara svæða þóknanleg. Það er nefnilega þannig að eftir að lúpína hefur lagt landsvæði undir sig er þessi tegundafjölbreytileiki sem krakkarnir hrifust svo af, úr sögunni og eftir stendur allt að mittishár grænn og blár lúpínuakur.
Er það ekki svo að þeir sem njóta útivistar á þessum svæðum, vilji áfram fjölbreytt gróðurlendi með því fugla- og pöddulífi sem því fylgir? Fái þessi óhefta útbreiðsla að halda áfram, rýrir það ekki gildi þessara svæða sem útivistarsvæða alveg gríðarlega og þar með þá upplifun og uppbót lífsgæða sem fólk sækir þangað?
Er þá ekki allt eins hægt að fara bara í ræktina með iPodinn og horfa á náttúruna í sjónvarpinu???
Dagur hinna villtu blóma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.6.2008 | 23:54
Athyglisverður listi...
Mogginn hefði nú alveg mátt spara manni ómakið og setja tengil á þessa blessuðu könnun en hér er hann kominn: http://www.jdpower.com/autos/ratings/quality-ratings-by-brand/additional_results.aspx
Samkvæmt þessu eru ýmis gömul stórveldi s.s. Volvo og Volkswagen bara svona í meðallagi meðan Hyundai og Kia skora grimmt. BMW er bara slappur! Maður spyr sig um mátt auglýsinga og staðalímynda...
Persónulega sakna ég nokkurra tegunda og þar ber Citroen hæst enda eru tveir slíkir í fjölskyldunni. Hvorugur þeirra bilaði neitt fyrstu þrjá mánuðina þannig að þeir hefðu samkvæmt forsemdum könnunarinnar fengið fullt hús!
Annars er orðið erfitt að henda reiður á bílategundum á þessum síðustu og verstu. Þannig er ásinn (Citroen C1) hannaður í samvinnu Citroen, Peugout og Toyota og seldur undir öllum þessum merkjum - að vísu með merkjanlegum mun í útliti og að nokkru leyti í búnaði. Fimman (Citroen C5) er hins vegar franskur stuðaranna á milli og eftir að hafa notið hans í þrjú ár er erfitt að hugsa sér eitthvað annað farartæki.
Hann er það góður
Porsche bilar minnst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.6.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.5.2008 | 22:00
Þetta er allt að koma...
Sem gamall Star Trek aðdáandi fór ég strax að velta fyrir mér hvort þessi nýi skilningur Vatikansins rúmaði vitsmunalíf. Í beinu framhaldi af því fór ég svo að hugsa um hvort það væri þá líka skapað í "Hans" mynd, en viti bornar geimverur í "humanoid" formi tröllriðu þáttunum lengst af. "Silicon based life forms" þekktust aðeins af afspurn. Síðan lagaðist tölvutæknin og ýmis konar aðrar og verulega framandlegar vitsmunaverur á borð við "Changelings", "Q" og "tegund 8472" sem notast við "bioships", blómstruðu - nokkurs konar tölvuþróunarfræðileg tegundasprenging!
Á hinn bóginn má einnig finna í þessum þáttum "The Borg". Upprunalega "humanoid" en hafa með líf- og nanotækni "endurbætt" sig svo mikið að lítið sem ekkert er eftir af upprunalegri "sköpun". Til viðbótar hafa þeir tapað flestu sem kalla má manneskjulegt, líkjast helst ofurtæknilegu maurabúi þar sem einstaklingurinn skiptir engu og er algerlega háður og bundinn þjónustu sinni við heildina sem stjórnað er af einni "drottningu".
Á umliðnum öldum hafa húsráðendur Vatikansins oft haft horn í síðu þeirra sem leita nýrrar þekkingar. Kenningar sem breyttu heimsmynd manna voru illa séðar og nýrri þekkingu hefur verið hafnað af þvermóðsku. Nú er hins vegar svo komið að góð menntun er algeng, upplýsingastreymi er greitt og þeir sem stunda rannsóknir eru komnir með gríðarlega öflug tæki í hendur. Áðurnefndir húsráðendur hafa því séð sitt óvænna og eru að draga í land með kreddurnar.
Í framtíðinni gæti maður kannski átt eftir að sjá að kristnir af öllum sortum, gyðingar af öllum sortum og múslimar af öllum sortum sameinuðust nú um að slíðra sverðin og hætta rifast um mismunandi aðferðir til að trúa á þennan meinta skapara sinn - því allt er þetta jú sami guðinn!
Ég vona að þekkingaröflun framtíðarinnar verði sem oftast notuð til að bæta líf okkar og afkomenda okkar. Það getur hins vegar brugðið til beggja vona með það eins og dæmin sanna, t.d. með kjarnorkuna, sem annars vegar er notuð til lækninga og orkuframleiðslu, en hins vegar til smíði fáránlegustu vopna sögunnar. Hvert erfða- og nanotæknin leiðir er ógerlegt að segja - vonandi tekst okkur þó að sneiða hjá þeirri freistingu sem "Borg" útfærslan er.
Þekkingarleitin mun halda áfram - Resistance is futile!
Vatíkanið segir ekki hægt að útiloka líf á öðrum hnöttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2008 | 23:08
Góð helgi - að mestu
Helgin byrjaði með fyrstu siglingakeppni sumarsins. Siglt var úr Reykjavíkurhöfn, út fyrir helstu baujur og inn í Hafnarfjarðarhöfn. Allt gekk stóráfalla- og stórklúðurlaust hjá okkur í þetta skiptið, með þeim árangri að sigurinn var okkar. Í gær var svona stórfjölskyldudagur og "heimilisdagur" í dag. Skrapp svo á Esjuna (fjallið) eftir kvöldmat í frábæru gönguveðri. Fór að vísu ekki alveg upp á topp sökum þoku, finnst hálf tilgangslaust að troðast upp á fjallstind án þess að hafa útsýni...
Bara fín helgi ef frá er talið að nú er ljóst að ég kemst ekki með í fyrirhugaða langsiglingu um næstu mánaðarmót. Það er nefnilega verið að sigla nýrri 46 feta skútu heim frá Bretlandi og planið hjá mér var að vera með í því. Hefði verið gaman að gera þetta aftur og á miklu stærri bát en í fyrra skiptið.
En alltaf má fá annað skip...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2008 | 21:57
Það er komið sumar
Súldin sem núna er þarna hinu megin við glerið styður ofangreinda fullyrðingu! En fleira má nota til að marka sumarkomu. Komu hettumáfsins, lóunnar, kríunnar, hnegg í hrossagauk, stelkur sem pípar sig hásan úti á staur (og heldur fyrir manni vöku í leiðinni) og svo mætti áfram telja.
Fyrir vestan var eitt óbrigðult merki sumarkomu. Það var þegar birkið sprakk út! Vestfirskt birki lætur nefnilega ekki plata sig. Þessi þolgóða svartskellótta, kræklótta planta sem nær manni rúmlega í klof er með þetta á hreinu.
Hér á suðurhorninu finnst mér vera komið sumar þegar grásleppubátarnir fara að róa og segl að sjást á sundunum. Hér er nefnilega ekkert vestfirskt birki...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2008 | 23:30
Atburðir dagsins - mín skoðun!
Í dag var slegist í beinni. Í alvöru! Margir eru voða hneykslaðir á þessu og þykja aðilar hafa farið út fyrir öll mörk. Athugasemdir eins og "komin tími til að stoppa þessa vörubílstjóra" og "þessar aðgerðir eru stórhættulegar og bitna bara á almenningi en ekki ráðamönnum" hljóma víða. Lögguni eru heldur ekki vandaðar kveðjurnar - enda var eins og hún hefði séð Kárahnjúkamótmælanda eða mann i gulri skirtu.
Í þessu ástandi kristallast hið algjöra vilja- og áhugaleysi stjórnvalda á að leysa vandamál og ágreining í þjóðfélaginu áður en þau verða að stórmálum. Þau hafa nefnilega yfirleitt komist upp með það! Fólk hefur bara tuðað á kaffistofum og þegar það hefur verið komið í glas. Menn hafa jafnvel farið í mótmælagöngur og haldið ræður á Austurvelli en það hefur aldrei skilað neinu. Undirskriftarlistar...!??
Kjara- og réttindabarátta getur verið snúin. Hin hefðbundna aðferð hefur gjarna verið að fara í verkfall. Það er nú hins vegar svo að hjá ýmsum mikilvægum hópum er verkfallsvopnið bitlaust. Dæmi um þannig hópa eru sjómenn og kennarar, en við þá hópa þarf ekki að semja um eitt né neitt því þegar aðgerðir þeirra eru virkilega farnar að bíta þá eru þau stöðvuð með lögum.
Nú hafa hjúkrunarfræðingar sagt upp í kjölfar skipulagsbreytinga sem leiða til beinnar kjaraskerðingar. Í aumingjaskap sínum býður viðsemjandi þeim 9000 kall í bílastyrk og skerðingu á fríi! Ráðherra (sem er í útlöndum) segir ekkert - nema að sjúklingar hljóti að skipta mestu máli og reynir þar með að spila á samviskubit hjúkkanna. Það er nebblega ekki til peningur til að reka batteríið - bara til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús... og ég á ekki von að haldin verði skrá yfir hve mörg mannslíf þessi sparnaður muni kosta gangi hjúkkur út!
Allar ofantaldar aðgerðir bitna illilega á almenningi. Engar þeirra bitna á ráðamönnum sjálfum eða stjórnvöldum. Mótmæli vörubílstjóra hafa þó í eitt skipti bitnað beint á þeim Geir og Sollu. Það var þegar þeir lögðu niðri í bæ þannig að ráðherrabílar (sem var ólöglega lagt og fengu sekt í kjölfarið) komust hvergi og þau þurftu að ganga niður í stjórnarráð.
Í rökræðunni grípa pólitíkusar þau rök að eldsneytisverð sé nú svipað - og jafnvel lægra - en í nágrannalöndum okkar. Jú, og svo er olíugjaldið föst krónutala sem var lækkuð einu sinni fyrir langa löngu (virðisaukaskattur gleymist hins vegar og hann er jú hlutfall).
Ég væri svo sannarlega til í að greiða sama olíuverð og í þessum nágrannalöndum okkar - ef verð á öðrum nauðsynja og neysluvörum væri líka sambærilegt. Ef fjármögnun húsnæðislána væri sambærileg. Ef launin fyrir vinnu mína væru sambærileg!
Áfam bílstjórar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2008 | 22:50
Ég bara get ekki skilið...
...hvers vegna mikill meirihluti fólks heldur tryggð við stýrikerfi frá Microsoft. Í gegn um tíðina hafa þessi kerfi verið þrælböggaðar vírussugur með endalaus vandræði varðandi samhæfni við íhluti, jaðarbúnað og hugbúnað. Windows samhæfðar tölvur hvað...!
En svo virðist sem tekist hafi að telja meiri hluta tölvunotenda trú um að þetta væri eðlilegt ástand - tölvur væru flóknar og þyrftu stöðugt viðhald. Þeir sem hafa farið aðrar leiðir hafa gjarna verið taldir til sérvitringa (Makkakölt, Linuxnördar).
Ég nenni ekki að standa í óþarfa veseni með græjur og þar með taldar eru tölvur. Þess vegna hef ég aldrei átt tölvur með windows stýrikerfi. Mínar persónulegu tölvur - heimilis og ferðatölvur - hafa allt verið makkar og stýrikerfin allt frá Mac OS 9.1 - 10.4. Hins vegar vinn ég í hreinræktuðu windows umhverfi og hef gert lengi. Ég tel mig því hafa góðan samanburð og hann er svo sannarlega ekki Windows í hag þótt xp beri af í þeirri fjölskyldu. Linux þekki ég því miður lítið sem ekkert.
Hvetja Microsoft til að taka Windows xp ekki af markaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Tenglar
Áhugamálin
Ýmsar slóðir
- Íslenskar GPS ferlar - gönguleiðir Íslenskar GPS ferlar - með áherslu á gönguleiðir
- Kortavefsjá Landmælinga Hér er það sem þú finnur ekki á Google Earth eða Ja.is - almennilegar hæðarlínur!
- Vatnajökulsþjóðgarður Hellingur af upplýsingum, gönguleiðir og kortavefsjá svo eitthvað sé nefnt...
- www.safetravel.is/ Upplýsingasíða Landsbjargar. Þar er m.a. að finna sprungukort af Lang- og Snæfellsjökli
- Ganga.is Snilldarvefur með gönguleiðum um allt land
- Heimasíða Toppfara Hér er hafsjór af upplýsingum um flest sem tengist fjallamennsku. Hér er einnig að finna BÚNAÐARPRÓFANIR.
- Fjöll erlendis Hellings upplýsingar ef hugurinn leitar út fyrir landsteinanna
- Siglingablogg Flækst frá Frakklandi til Íslands - sjóleiðina
- Sportkafarafélagið Er alltaf á leiðinni útí aftur...
GRÆJUR
- Spot gervihnattasendir Tja. sjón er sögu ríkari...
- "Gear reviews" Alls konar útvistarbúnaður tekinn á beinið...