Færsluflokkur: Bloggar
10.4.2008 | 19:52
Enn af græjum :-)
Ég man þá tíð að helstu staðsetningartæki byggðust á svokallaðri LORAN-C tækni. Þessar græjur voru þokkalega nákvæmar til sjós en oft gagnslitlar á landi sökum bjögunar merkjanna sem staðsetningin var reiknuð út frá. Einnig gat óhagstætt veðurfar sent nákvæmnina út í hafsauga - í bókstaflegri merkingu!
Síðan kom GPS tæknin. Bylting samanborið við LORAN, sem var lagt niður í kjölfarið. GPS staðsetningar voru all nákvæmar en þó var merkið sent út truflað til að "hinir" gætu ekki nýtt kerfið til fullnustu. Svo réðust BNA+ menn inn í Irak í fyrra skiptið og síðan þá hefur kerfið verið aðgengilegt öllum með fullri nákvæmni.
Nútíma GPS staðsetningartæki er flest hægt að tengja við tölvur og þannig flytja gögn inn og út úr tækinu. Einnig er stundum hægt að hlaða hjálparforritum inn í þessar græjur s.s. ýmsum sérkortum og upplýsingum. Á neðangreindri upplýsingasíðu GPS nörda má finna upplýsingar um eitt svona forrit sem verður að teljast all sérstætt - eða eins og segir á síðunni "Nudar Turns Your GPS into a Stripper-Finder".
http://www.gpsmagazine.com/2008/01/nudar_turns_your_gps_into_a_st.php
Það þarf ekki að taka fram að spjallið á síðunni er í léttari kantinum - fyrir utan þennan eina...
Góðar stundir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2008 | 19:44
SPOT...
Þegar maður er ég þá fylgir því eitt og annað. Eitt af því er væg græjudella. Þá er ekki verið að tala um hljómtæki eða þess háttar og allir vita að ég HATA farsíma. Nei, þetta eru græjur sem hjálpa til við að koma manni eitthvert - á landi eða á/í sjó.
Nú er komin ný græja sem fellur í þennan flokk. Hún heitir SPOT. Þetta virkar þannig að tækið nemur GPS merki og sendir upplýsingar um staðsetningu þess - ásamt stuttum fyrirfram ákveðnum textaskilaboðum (eða hjálparbeiðni ef svo ber undir) um gerfihnött á aðgengilega þjónustusíðu, í farsíma eða beint á Google maps.
http://www.findmespot.com/home.aspx
Kostar ekki nema 30.000 og eitthvert smotterí í áskriftargjald. Kannski maður ætti að fá sér einn fyrir vorið... kannski meira um það síðar
Svona að lokum þá skora ég á ykkur að gúggla "spot". Ég gerði það og upp komu fullt af síðum um - já þið getið ykkur rétt til G-spot, sem ég var aldrei þessu vant, ekki að leita að...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2008 | 00:08
Ég las bók...!
Einhvernvegin er það nú þannig að maður fær stundum nóg af ákveðnum hlutum. Þegar svo er komið hætti ég að brúka þá eða taka þátt (ef ég mögulega get), hef fengið mig fullsaddann. Þetta á við um hina margvíslegustu hluti. Þeirra á meðal má nefna:
Vodka, Romm, SMS, tölvur sem keyra Windows stýrikerfi, Landsvirkjun, pólitíska umræðu og síðast en ekki síst, lestur bóka.
Konan mín veit þetta vel. Þess vegna kom mér skemmtilega á óvart að hún skildi gefa mér bók í afmælisgjöf. Hún vissi líka að þetta var bók sem ég átti ekki og gæti ekki staðist að lesa. Dýrabær (Animal Farm) í ritröðinni "Lærdómsrit Bókmenntafélagsins". Grunar reyndar að hafa verið skildaður til að lesa hana á frummálinu einhverntíman í fyrndinni en verið snöggur að gleima henni.
Þessi bók hlýtur að vera ein af mest notuðu handbókum pólitíkusa og stórtækra framkvæmdaraðila. Þarna er eru kynnt öll trikkin sem best reynast og sýnt fram á hve áróðursmaskínur og stjórnun upplýsinga til almúgans eru mikilvægar til að halda völdum og/eða koma sínu fram.
Hvet alla til að lesa bókina og velta samtímis fyrir sér íslensku stjórnarfari. Þá er hverjum hollt að skoða hvort viðkomandi eigi ekki samsvörun í einhverri persónu bókarinnar... niðurstaðan gæti komið óþægilega á óvart...!
Góðar stundir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2008 | 22:56
Grafarvogssnepillinn kemur á óvart
Grafarvogur er sjálfstæðisbæli. Grafarvogsbúar eru líka með endemum frekir. Sem er gott! Það er síður hraunað yfir mann ef maður er frekur. Þetta hefur sérstaklega komið fram í skipulagsmálum. Alltaf tómt vesen ef eitthvað á að gera í Grafarvogi sem til framfara horfir (að mati framkvæmdaraðila). Endalaust tuð í þessu liði... enda líður mér vel í Grafarvogi!
Enn er Hallsvegur á dagskrá. Það stendur til að framlengja hann (fjórar akgreinar) upp á Vesturlandsveg, byggja þar risavaxin mislæg gatnamót yfir hann sem tengja nýja hverfið undir Úlfarsfellinu við - ja, Grafarvog. Eða kannski er þetta til að pakkið í Grafarvoginum komist greiðar í Bauhaus? Svo fylgir þessu aftur og enn brúargerð yfir Korpu, en brýr eru vissulega tákn framfara...
Ég keyri núverandi Hallsveg svona einu sinni í viku. Aldrei umferð á honum. Virðist vera alveg nógu greiður með sínar tvær akgreinar. Þær áttu að vera fjórar en var fækkað vegna frekjugangs þessara óþolandi íbúa.
Fletti Grafarvogssneplinum núna áðan. Allir vitlausir yfir þessu framfaramáli (að mati framkvæmdaraðila). Formaður og varaformaður íbúasamtaka Grafarvogs hundskamma borgarstjórn. NÚVERANDI BORGARSTJÓRN! Málið fær mikla umfjöllun og allir eru á móti.
Verður að teljast til tíðinda (held ég) þegar sjálfstæðisborgarstjórn verður fyrir jafn harkalegri gagnrýni - hreinlega árás - úr einu helsta vígi sínu.
Enda er þetta handónýt borgarstjórn...
Bloggar | Breytt 13.3.2008 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2008 | 14:44
Moggablogg/Blogspotblogg
Er að koma upp Blogspot síðu samhliða þessu moggadæmi. Ástæðan er þetta auglýsingavesen þeirra moggabloggsmanna. Fjölmargir eru ferlega pirraðir yfir þessu og finnst m.a. að verið sé að hafa þeirra persónulegu síður að féþúfu. Ég er að mörgu leyti sammála þessari gagnrýni en hjá mér er þetta líka praktískt atriði.
Tölvan sem ég nota mest í þráðlaust netvafur og snatt heima hjá mér er nefnilega sjö ára gömul iBook með fornaldarskjáupplausn upp á 800x600. Þegar þessi hliðarborði birtist þá leggst hann yfir hluta af texta síðunnar þar sem textinn fyllir yfirleitt upp í skjáinn þegar síða opnast. Þetta fer náttúrlega dálítið í taugarnar á mér því maður þarf að grípa til allskyns ráða til að losna við þetta (mismunsndi þó eftir hvaða vafra maður er að nota).
Af þessum sökum er ég henda upp Blogspotsíðu en ég komst á blogspotbragðið vorið 2006 þegar við skrifuðum um siglingu okkar félaganna frá Frakklandi til Íslands, þegar við sóttum skútuna hans Arnars http://larochellereykjavik.blogspot.com/.
Geri því ráð fyrir að það litla sem ég finn mig knúin til að tjá mig um, verði að mestu á http://haralduri.blogspot.com/ a.m.k. meðan þetta ástand varir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2008 | 20:03
Nokkur orð um notagildi óveðurs
Þessa stundina er varla stætt úti á plani sökum hálku og hvassviðris. Helsta ástæða þess að við litla dýrið komumst frá bílskúrsdyrunum að innganginum án þess að fjúka út í veður og vind á leiðinni, var sú að glænýjir Scarpa skór af groddalegustu gerð náðu merkilega góðu gripi í ökkladjúpu krapi og klaka. Samt þurfti maður að hafa sig allan við þar sem sú litla blakti nánast eins og þvottur á snúru utan á mér meðan á hlaupunum stóð. Þarna fékk maður því fyrstu tilfinningu fyrir því hverju er við að búast af þessum áðurnefndu skóm. Hlakka til að komast á þeim í vestfirskt grjót.
Þegar inn var komið heyrði maður hvernig regnið buldi á rúðunum. Þannig aðstæður eru kjörnar til að kanna hvort þéttilistar í opnanlegum fögum séu nokkuð farnir að gefa sig. Jú, þarna bókstaflega pípti inn... skyndiredding með því að troða plastpoka í þetta, sko bara - næstum þétt - svo bara að bíða þar til rokið snýst yfir í SV áttina. Þá hefur maður glerjaðar svalir til að taka við óveðrinu...
Þetta rok mun líka sannreyna hvort þakplöturnar sem losnuðu úti á ÓB stöðinni í síðasta roki hafi verið festar almennilega aftur - vona það svo þær komi ekki inn um gluggann hjá einhverjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2008 | 18:04
Ég mótmæli allur!!!
Skrapp um hádegisleitið niður í ráðhús til að líta á mótmæli. Bjóst við að sjá sigurreifan glænýjan verðandi borgarstjóra ganga inn um aðalinngang og eiga orðastað í föðurlegum tón við fólkið sem þarna hafði safnast saman. Það gerðist ekki. Raunar sá ég engan úr hinum glænýja og sigurreifa meirihluta koma inn um aðalinnganginn - gæti þó hafa misst af einhverjum...
Ástæðan var sú að þau komu inn bakdyramegin, gegn um bílakjallarann. Lítill áhugi fyrir að að heilsa upp á umbjóðendur sína, enda langt í kosningar. Dagur kom inn um aðalinnganginn og líka Margrét - og samt er langt í kostningar...
Miðað við íslensk mótmæli voru þessi í ágætu meðallagi. Frekur illa skipulögð og ekki svo ýkja fjölmenn. Samt náð aulahrollurinn sér ekki á strik og forystuliðið stóð sig vel í slagorðum. Einnig við að koma skoðunum sínum á framfæri. Engin ræðuhöld heldur örstuttar og hnitmiðaðar áliktanir. Bara nokkuð gott. Ungliðarnir fá prik.
Loks varð ljóst að fundurinn færi að hefjast án þess að hinir áðurnefndu glænýju og sigurreifu ætluðu sér að koma og veifa sigurreifir og landsföðurlegir til umbjóðenda sinna - eins og maður er eiginlega vanur að sjá þegar miklir sigrar eru unnir. En... nei - ekki í þetta skiptið.
Stefnan var tekin á áhorfendapalla fundarsalarins. Ég hafði samt séð nóg - eða öllu heldur ekki séð. Hugsaði með mér að best væri að koma sér í vinnuna og sjá hina sigurreifu og landsföðurlegu sigurvegara á þann hátt sem þeim sjálfum þætti þægilegastur - í sjónvarpinu.
Mér var því ekki hent út úr ráðhúsinu fyrir að nýta tjáningarfrelsið - afsakið, skrílslæti - eins og hinum umbjóðendum hinna glænýju og sigurreifu - ekki í þetta skiptið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2008 | 23:56
Hraðasti hringur til þessa
Nú á dögunum kom bátur til hafnar í Brest í Frakklandi. Það er nú alla jafna ekki í frásögur færandi, enda er þetta jú hafnarborg. Það sem gerir þennan bát frábrugðinn öðrum er að þessi hafði nýlokið við að setja hraðamet einstaklinga á seglskútu umhverfis jörðina. Áttatíu dagar þóttu eitt sinn all gott til þessara hluta en þessi franski gaur (já, einn um borð) stóð ekki i neinu drolli og kláraði hringinn á rúmum 57 dögum!
Meðalhraði á leiðinni var um 19 sjómílur á klukkustund, en það er svipað og hraðfiskibátar eru keyrðir á í góðu veðri!
Það er vel þess virði að skoða heimasíðu kappans:
http://www.trimaran-idec.com/index.asp
Raunar var þessi náungi að endurheimta metið, en í millitíðinni hafði eitthvert breskt stelpuskott hirt það af honum!!! Það gengur náttúrlega ekki að tapa fyrir stelpu - og nú er metið hans á ný.
Stelpan sem um ræðir heitir Ellen MacArthur. Hún var varla búin að ná saltinu úr hárinu þegar Elísabet Drottning gerði boð eftir henni og aðlaði fyrir afrekið. Dame Ellen skildi það vera og ekkert múður. Dama er að vísu ekki það sem manni dettur fyrst í hug þegar maður sér hana, samanrekin stelpustrákur sem minnir nokkuð á... hana þarna fótboltastelpu... æ, þið vitið!
Næsta stórafrek Dame Ellen var í þættinum Top Gear. Þar sló hún öllum við og setti hraðasta hring á "the reasonably priced car" sem var að mig minnir Suzuki Liana. Í viðtalinu fyrir hringinn kom fram að hún ætti ekki bíl og keyrði bara frekar lítið. Nú er bara spurningin hvort frakkalarfurinn mæti líka í Top Gear.
Í þessu ljósi rifjast upp fyrir manni önnur hringferð, öllu skemmri sem farin var fyrir fáeinum árum. Þá ákváðu nokkrir vitleysingar (þ.a.m. ég) að komast að því hvað það tæki langan tíma að sigla á seglskútu umhverfis Ísland án þess að stoppa. Okkur tókst það í annarrri tilraun, en það tók okkur rúma 10 daga og meðalhraði var eitthvað nærri 3,7 sjómílum!
Bloggar | Breytt 23.1.2008 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2008 | 22:39
Hugur á reiki: hrísgrjónagrautur og ...
Það er alltaf smá skrítið hvernig hugurinn reikar. Sit hér og þvælist um vefinn og allt í einu er ég að hugsa um hrísgrjónagraut! Sennilega verður hann bara í matinn á morgun. Litla dýrið vill hafa lifrarpylsu með honum.
Á þessum bæ sé ég um grautargerðina. Teingdó þótti það í hæsta máta undarlegt, en það er nú svo margt undarlegt við mig að hennar mati. Og aðferðin við að elda grautinn...! Þá varð hún kjaftstopp - sem gerist ekki oft, frekar en hjá dóttur hennar.
Þetta er í raun ósköp einfalt. 3-4 bollar af gamaldags River rice grjónum í pott, 2-3 bollar af vatni útá og látið sjóða duglega. Þegar vatnið er að mestu horfið er smá mjólk skellt útí og hrært þar til þykknar. Þá er meiri mjólk bætt í, látið þykkna og svo koll af kolli.Trikkið er bara að draslið brenni ekki við en það er ekkert mál. Maður verður bara að nenna að passa suðuna og hræra í þessu.
Alls fara í þetta 1,5 - 2 lítrar af mjólk og þetta tekur svona 30-45 mínútur. Í restina, eða þegar grjónin eru að verða soðin, er bætt við salti og stundum rúsínum eða vanillusykri. Gott er að láta hann standa aðeins og jafna sig áður en honum er mokað í skálar og mjólk og kanilsykri (og lifrarpylsu (og salti)) skellt útá.
Þetta gengur mjög vel í mannskapinn, svo vel að ég minnist þess ekki að afgangur af svona graut hafi nokkru sinni dagað uppi í ísskápnum.
Bíddu... uuu... hvað er eiginlega að gerast, hvað er þessi bjór að þvælast hérna...?
Best að senda þetta í hvelli áður en þetta fer út í tóma vitleysu................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2007 | 03:39
Svefnörðugleikar...
Já, það má eiginlega segja það. Trúlega spilar nú samt lúrinn frá kl. 19-23 eitthvað inn í dæmið. Skrölti fram undir hrotudrunum og náði mér í einn og yfirgefinn jólabjór og er nú að vinna í að binda enda á tilveru hans á bjórformi. .
Ástæða þessarar svefnóreglu er ekki hin venjulega tilhneiging til að snúa sólarhringnum við um leið og menn sjá fram á smá frí. Ástæðuna má rekja allt aftur til jóladagskvölds, en þá fór ég að finna fyrir einhverjum pirringi í hálsinum. Síðan hef ég verið að kljást við þá harkalegustu hálsbólgu sem ég hef komist í kynni við. Ég hef t.d. ekki lent í því áður að geta ekki sofið vegna þess að óþægindin við að kyngja halda fyrir manni vöku - þrjár nætur í röð!!!
Og nei, þetta eru ekki streptococcar
Nú er hálsinn orðinn þokkalegur en í staðin komin hitavella og nefrennsli sem er með algerum endemum. Sé ekki fram á að maður verði til stórræðanna þetta gamlárskveldið.
Og vitiði hvað?
Magnea fékk þetta líka - er bara sólahring á eftir mér!!!
Þannig að hér á bæ er ferskleikinn eins og vandlega sigin grásleppa með vestfirskum hnoðmör (vel fiðruðum).
En þegar af manni bráir hefur maður þó Rachet & Clank - Tools of Destruction, til að grípa í...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Áhugamálin
Ýmsar slóðir
- Íslenskar GPS ferlar - gönguleiðir Íslenskar GPS ferlar - með áherslu á gönguleiðir
- Kortavefsjá Landmælinga Hér er það sem þú finnur ekki á Google Earth eða Ja.is - almennilegar hæðarlínur!
- Vatnajökulsþjóðgarður Hellingur af upplýsingum, gönguleiðir og kortavefsjá svo eitthvað sé nefnt...
- www.safetravel.is/ Upplýsingasíða Landsbjargar. Þar er m.a. að finna sprungukort af Lang- og Snæfellsjökli
- Ganga.is Snilldarvefur með gönguleiðum um allt land
- Heimasíða Toppfara Hér er hafsjór af upplýsingum um flest sem tengist fjallamennsku. Hér er einnig að finna BÚNAÐARPRÓFANIR.
- Fjöll erlendis Hellings upplýsingar ef hugurinn leitar út fyrir landsteinanna
- Siglingablogg Flækst frá Frakklandi til Íslands - sjóleiðina
- Sportkafarafélagið Er alltaf á leiðinni útí aftur...
GRÆJUR
- Spot gervihnattasendir Tja. sjón er sögu ríkari...
- "Gear reviews" Alls konar útvistarbúnaður tekinn á beinið...