Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Um selveiðar o.fl...

Ég er svo ljónheppinn að vera alinn upp á stað þar sem m.a. voru stundaðar selveiðar. Um var að ræða netaveiðar og var lagt fyrir landselskópa. Á þessum tíma voru töluverð verðmæti í skinnunum og voru kóparnir fyrst og fremst veiddir þeirra vegna, en einnig var kjötið hirt - enda er selkjöt fínasti matur.

Það var aðallega afi sem stóð í þessu, en þetta var heilmikil vinna sem fólst í að flá selina og skafa og hreinsa skinnin. Það er ekki laust við að ég finni lyktina af þessu öllu saman nú þegar ég skrifa þetta nú 30-35 árum síðar og afi gamli er ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, sitjandi með skinnið á hnjáhlíf úr torfi og striga, skafandi það með heimasmíðuðum hníf úr deigu járni sem hægt vað að ná í hinu fullkomna biti.

Svo kom Briget Bardot í sjónvarpið með uppstoppaðan vöðuselskóp og skinnamarkaðir hrundu í boði Greenpeace og Sea shepard.

Á æskustöðvum mínum var einnig nokkurt æðarvarp og því var stunduð dúntekja. Verðið var yfirleitt gott, en eitt árið hrundi það. Það var árið sem gerður var sáttmáli um að ekki mætti nýta afurðir dýra sem nutu verndar (protected species). Engu skipti þó æðurinn væri verndaður VEGNA DÚNSINS, ekki vegna þess að hann væri í útrýmingarhættu!

Það náðist loks að leiðrétta þetta með nokkurri fyrirhöfn og dúnninn varð aftur söluvara. En ekki selskinnin!

Evrópusambandið hefur nú samþykkt að banna alfarið innflutning á selaafurðum. Rökin viðrast helst vera þau að veiðiaðferðin sé ómannúðleg. Í raun er það hins vegar þannig að veiðiaðferðin lítur illa út og kóparnir eru ógeðslega sætir. Myndrænni verður vonska og rányrkja mannana ekki!

Vandamálið er bara það að hvorki er um að ræða mannvonsku við veiðarnar né rányrkju.

Ég hef unnið við margt, m.a. í sláturhúsi. Ég hef hins vegar aldrei séð myndir í sjónvarpi af því sem þar fer fram. Viðbrögð skepnanna við blóðlyktinni, þetta brot úr % tilvika þegar skotið klikkar, spriklið og teygjurnar eftir skotið, blóðfossinn úr hálsinum og loks fláninguna og allt sem á eftir kemur. Þetta mundi ekki líta vel út á skjánum...

Briget Bardot hefur örugglega ekki heldur séð svona myndir - né allt það góða fólk sem liggur við öngviti vegna aðfaranna við seladrápið.

Og þá væntanlega ekki talsmaður Evrópuþingsins, sem af fullkomnum kveifarskap víkur sé undan umræðu  um selveiðar kanadamanna með því að segja að "fréttirnar af hjartaáti landstjóranns séu of fáranlegar til að hægt sé að tjá sig um þær".

En rollur eru heldur ekkert sætar - er það???

 

 


mbl.is Landsstjóri Kanada át hrátt selshjarta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilveran getur verið stormasöm...

þegar maður er fjögurra ára - og ljón í þokkabót! Þetta er svolítið eins og íslenska veðrið Whistling

Í gær sauð uppúr milli hennar og vinkonunnar á neðri hæðinni. Orsökin var sætaskipan... og rauðhærða vinkonan með prakkarasvipinn bókstaflega bólgnaði út af bræði og rauk með hurðaskellum niður til sín. Í kjölfarið fylgdi fimmtagírsgrátur með tilheyrandi skýfalli og gríðarlegu þrumuveðri réttlátrar reiði (að mati litla ljónsins), sem loks sefaðist yfir fullum disk af pasta. Um 5 mínútum og 2 pastadiskum síðar (já pasta er gott) var ósættið grafið og gleymt og litla ljónið spurði stóreygt "má ég fara niður og leika...???".W00t

Í dag var mikið leikið úti í leikskólanum og útgangurinn á ljóninu eftir því. BAÐ...!!! NNNEEEIIIIII-máéfaraíbaðámorgun-élofa-plísplísplísplís... og svo skall á með smá eldingum og hagléli. Það stytti þó snaggaralega upp þegar bent var á að hægt væri að taka DÚKKU með í baðið og sólin skein skyndilega sem skærast. Svo var baðið búið og hún kíkti fram í stofu. Í sjónvarpinu var einhver viðbjóður ætlaður unglingum og þar með var í snatri dregin sú ályktun að HÚN HEFÐI MISST AF SKRÍBÓINU --- þið getið rétt ímyndað ykkur...GetLost

Tíu mínútum síðar sat nýbaðað ljónið himinlifandi fyrir framan nýbyrjað skríbóið og beið eftir grjónagrautnum...

"Pabbi, get ég fengið nammi í eftirmat"...! Pinch

 


72 ára siglingaharðjaxl talinn af

Hinn margreyndi Jure Sterk lagði af stað í hnattiglingu frá Tauranga á Nýja Sjálandi á 30 feta skútu, Lunatic Piran í desember 2007. Þetta var sko engin "venjuleg" hnattsigling. Markmiðið var að verða elsti maðurinn til að sigla umhverfis jörðina án viðkomu og jafnframt að gera það á minnsta vélalausa bátnum til þessa. Já, vélin var rifin úr og plássið nýtt fyrir birgðir, eða eins og kallinn sagði víst glottandi "Won't be needing the motor, I'm sailing non-stop". Smile

Síðast heyrðst frá skútunni í janúarbyrjun 2009. Þá var skútan stödd um 1000 sjómílur vestur af Ástralíu og seinasti leggur siglingarinnar í raun að hefjast. Mánuði síðar tilkynnti flutningaskip um yfirgefna og laskaða skútu á reki um 600 mílur frá ströndinni. Þann 28. apríl sl. sigldi hafrannsóknaskip svo fram á skútuna mannlausa. Aðstæður voru góðar svo hægt var að fara um borð. Þar fundust persónulegir munir og siglingabækiur sem gáfu margvíslegar upplýsingar. Seinasta færsla í siglingabækur var skráð 2. janúar, um 500 sjómílur suðaustur af fundarstaðnum.

Lang líklegast er að gamli harðjaxlinn hafi af einhverjum orsökum fallið fyrir borð. Af seglabúnaði má ráða að nokkur vindur hefur verið (rifað stórsegl og stormfokka). Segir fátt af einum...

Ástand skútunnar verður að teljast merkilega gott miðað við að hafa verið mannlaus á reki á opnu úthafi frá janúarbyrjun til aprílloka. Ef frá eru talin hengilrifin segl og nokkrar skemmdir á reiða, virðist báturinn í all góðu lagi. Vindrafall og rafkerfi var í lagi, sem og lensidæla, sem skýrir að ekki var teljandi sjór í bátnum þrátt fyrir að opið hafi verið niður í hann!

Aftur og enn kemur þarna í ljós hve seglskútur eru þrautseig fley.

Mikið vona ég að þegar (og ef) ég næ þessum aldri, verði ég nógu hress til að treysta mér í hnattsiglingu... Cool

 


Þvoði bláa bílinn...

...og það hefur sko ekki gerist oft núna í vetur. Enda til hvers ætti maður að vera að hamast við að þvo og pússa þegar afrakstur erfiðisins er horfinn eftir 10 mínútna akstur á þessum bannsettu tjöruaustursgötum hér í ómenningunni fyrir sunnan.

Maður spyr sig...

En nú er komið sumar með fuglasöng og blómum (hóffíflum) í haga og allt að færast til betri vegar. Og þá fer maður út, vopnaður umhverfisvænum sápum og tjöruleysum og þvær og þvær og þvær og ... kemst að því að ef maður ætlar að ná þessu almennilegu, verður bara að halda áfram á morgun.

En meðan á þessu stóð, fór ég að velta fyrir mér hinu táknræna við þennan gjörning minn. Það er nefnilega ekki bara komið sumar heldur er líka kjördagur.

Og þarna stóð ég og reyndi með öllum ráðum að ná burtu drullu sem safnast hafði upp yfir langan tíma af stóru bláu apparati. En drullan vildi ekki fara...þegar eitt drullulagið var farið kom bara það næsta í ljós. Og loks þegar maður hélt að verkinu væri lokið og stóra bláa fyrirbærið fór að þorna sáust enn smá skellur og kleprar á víð og dreif.

Vona bara að þessi frábæri, stóri og mikli og blái Citroen C5 verði ekki orðin að Toyotu Yaris hræi þegar ég vakna á morgun - eins og stefnir nú í - verðskuldað - með annað blátt, haugdrullugt og auk þess handónýtt apparat...


Gekk ekki á Esju - eða þannig...

Varð að komast út úr húsi í dag... stundum bara verður maður!

Nokkrum flíkum, myndavél, GPS tæki og vatnsflösku troðið í hina frábæru Marmout mittistösku frá Fjallakofanum, skórnir hnýttir á lappirnar og brunað í átt að Esju... eins og allir hinir. Hef ekki lent í því áður að fá eiginlega ekki stæði þarna hjá gönguleiðinni á Þverfellshorn. GetLost

Veðrið var frábært, hægviðri og hlýtt - jafnvel fullhlýtt fyrir minn smekk og búnað. Göngufærið var allgott (lengri leiðin) þar til komið var upp fyrir Stein.  Snjórinn þarna uppi var mjög misjafn, en víðast var fremur þunnur og ögn blautur nýlegur snjór ofan á hörðu hjarni. Þrátt fyrir að vera ekki með vetrarbúnað (brodda, stafi eða ísexi) var látið reyna á hvort maður dröslaðist ekki upp, eða þyrfti frá að hverfa eins og síðast. 

img_3211.jpgUm mitt klettabelti var færið orðið erfitt. Mjúki snjórinn að mestu horfinn og hjarnið eftir auk þess sem víða var grunnt á grjót. Erfitt grip í brattanum og lítt fýsileg leið að eiga eftir að fara niður. Ég snéri við.  

 Þegar ég var kominn niður fyrir klettabeltið ákvað ég að kanna aðra leið - ögn vestar, sem ég sá einhverja fara. Þar var farið upp samfelldan skafl. Gekk vel í fyrstu en skammt fyrir neðan brún var færið aftur orðið frekar hart og tók að lágmarki 2-3 spörk að marka nógu djúpt spor til að geta stígið í það með öryggi. Svo átti maður eftir að fara niður eftir þessum sömu sporum.  Þarna var að vísu komin slóð, en hún var orðin nokkuð troðin og slitin og ekki alveg hægt að treysta á gripið í henni. img_3207.jpg

Stoppaði, tók nokkrar myndir og snéri við. Holurnar eftir stafi annarra göngumanna komu að óvæntum notum á niðurleiðinni, þar sem þær gáfu fínt fingragrip í harðasta snjónum.

Niðurleiðin frá Steini (sú lengri aftur) var létt og tíðindalaus. Ég fann það hins vegar þegar heim var komið að þessi ganga hafði tekið töluvert á - trúlega hefur færið fyrir ofan Stein og þessar tvær atlögur að tindinum, tekið meira úr manni en ég áttaði mig á.img_3209.jpg

Núna, sex tímum,  eftir að maður kom heim, (og pizzu, bjór og langri sturtu) finn ég sko alveg fyrir því að ég var að gera eitthvað í dag. 

Og mikið djöfull er það gott.


Bjarni Ben og kjósendafíflin!!!

Í fréttablaðinu í dag er viðtal við verðandi formann sjálfstæðisflokksins. Þar kemur fram að hann eins og flestir aðrir pólitíkusar treystir á að kjósendur séu fífl sem hægt sé að mata á innistæðulausum fagurgala. 

Þetta finnst mér það besta:

"Í pólitík axla menn ábyrgð með því að gefa frá sér völd. Með því að ganga úr ríkisstjórn og leggja til þjóðstjórn gekkst flokkurinn við því að forsendurnar fyrir því að hann stjórnaði landinu í samstarfi við samfylkinguna voru ekki lengur til staðar".

 Sjálfstæðisflokkurinn gaf ekki frá sé völd. Samfylking sleit stjórnarsamstarfinu eftir mestu mótmæli íslandssögunar. Sjálfstæðismenn voru brjálaðir og sögðu að samfylkingu hefði þrotið örendið.

Sjálfstæðisflokkurinn gekk ekki úr ríkisstjórn - honum var sparkað úr ríkisstjórn. Raunar felldi búsáhaldabyltingin ríkisstjórnina - studd af miklum meirihluta þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum.

Umræða um þjóðstjórn komst aldrei af koppnum því Geir Haarde neitaði þjóðstjórn nema hún væri undir sinni stjórn - með þeim rökum að hann stýrði stærsta flokknum. Æðislega dipló eitthvað!

Síðan má skilja af þessu að það sé alveg búið að bera fullnaðarábyrgð á klúðrinu sem er niðurstaða efnahagsstjórnar þessara manna til 18 ára, með því falla úr stjórn í nokkra mánuði. 

Þá kemur: 

"Eftir á að hyggja held ég að  það hafi verið pólitískt vanmat á einhvers konar uppgjöri strax.  Það hefði verið til þess fallið að auka tiltrú fólks á stjórnvöldum að gera breytingar á ríkisstjórninni strax eftir hrun".

Sko! Það var búið að gefa þessu fólki 15 vikur til að átta sig. Þá loks sauð uppúr þegar ljóst var orðið að engu átti að breyta, ekki gera neitt sem máli skipti í stjórnkerfi þessarar risaeðlu sem hafði skapað, framkvæmt og stjórnað því kerfi sem þarna hrundi. Það átti bara að halda völdum, sínum völdum.

Þarna eru svo talin upp öll þungaviktarmálin og hve nauðsynlegt sé að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur í stjórn til að allt fari vel  - BIÐLAÐ TIL KJÓSENDA - jújú, við duttum úr stjórn og höfum þar með axlað ábyrgð á að hafa skuldsett ykkur, börn ykkar og trúlega líka barnabörn fyrir sukkkerfinu sem við bjuggum til síðustu árin en nú þarf að horfa til framtíðar og þjóðin þarf að vinna sig út úr vandanum... og allt uppá borðið!

Þetta viðtal veldur mér gríðarlegum vonbrigðum, ég var að vona að þarna væri góður drengur á ferð. Það er hins vegar augljóst á þessum málflutningi að svo er ekki. Góðir drengir grípa ekki til stórkostlegrar sögufölsunar til að fegra eigin hrikalegu frammistöðu.Bandit

Sveiattan Angry 


"Menn byrja að drepast upp úr 32 ára aldri"...

...fullyrti minn frábæri kennari Arnþór Garðarsson eitt sinn. Ég er ekki í nokkrum vafa að hann hefur byggt þessa niðurstöðu sína á stóru úrtaki samferðafólks síns, þar með talið hinna fjölmörgu nemenda sinna.

Ég var nú hreint ekki sammála honum í þessu (frekar en ýmsu öðru) enda akkúrat á þessum aldri þegar þessi nærgæta athugasemd féll. Hins vegar verður nú að segjast að æði oft hafði hann nú rétt fyrir sér (og ég þar með rangt) um hin ýmsu mál - bæði líffræðitengd og almenn. 

En það er ekki bara aldur í árum sem fer með mann, kæruleysi gagnvart eigin skrokki er ekki síður varasamt en tikk tímanns. Þá er ég sérstaklega að meina það þegar maður fylgist ekki með ástandi sjálfs sín. 

Ég mun t.d. seint gleyma hve hugsi ég varð, u.þ.b. tveimur árum eftir að mér var svo blátt áfram bent á að toppnum væri náð, í kjölfar fyrirhugaðs stökks yfir skurð.

Ég var sem sé í göngutúr um mólendið í nágrenni Korpu og kom að skurði. Alvanur að fljúga fyrirhafnarlaust yfir skurði eins og þennan, tók ég undir mig stökk eins og hafði alltaf gert - og dreif út í nákvæmlega miðjan skurðinn!Pinch

Þar sem ég stóð þarna, blautur upp í hné og velti fyrir mér hvur fjandinn hefði gerst, Woundering rann upp fyrir mér að þrátt fyrir að sá kraftur sem gert hafði verið ráð fyrir í stökkið hefði skilað sér að mestu, hafði stökkferillinn verið mun krappari en búist var við.

Ég var einfaldlega mun þyngri en ráð var fyrir gert!Blush

Eftir þetta hef ég alltaf öðru hverju tekið skrokkinn í próf til að kanna getu hans. Þetta eru fjallgöngur, sjóferðir og ýmis önnur útivist sem reynir verulega á. Þannig reyni ég að hafa á hverjum tíma, sem besta hugmynd um líkamlegt ástand svo að maður lendi nú ekki aftur í þeirri fáránlegu lífsreynslu að drífa bara hálfa leið yfir skurð - eða einhverju þaðan af verra!


mbl.is Andlega hrörnunin byrjar við 27 ára aldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af bjórum (léttöl)...

Þrátt fyrir að hafa einhvern tíman séð "fréttatilkynningar" um nýjar tegundir áfengra eðalveiga má vel vera að þetta teljist óbein auglýsing eða ólögleg umfjöllun þannig að ekki er annað þorandi en að slá "léttölsvarnaglann". Bandit

Undanfarið hef ég nefnilega staðið í óformlega úttekt á íslenskri bjórframleiðslu - fór sem sagt í Heiðrúnu og keypti bland í poka. Það verður þó að taka fram að sökum persónulegs ónytjungsháttar við drykkju, sem virðist hafa mjög sterka fylgni við ört hækkandi lífaldur undirritaðs, er einungis búið að meta fjögur sýnishorn, og er beðist velvirðingar á því.

Ölvisholt Brugghús er framleiðandi að "Reyktum Imperial Stout sem er 9,4% að styrkleika en hann heitir Lava sem er tenging við eldfjallið Heklu sem blasir við í allri sinni dýrð útum dyrnar á brugghúsinu" svo maður steli nú beint af heimasíðu framleiðana. Whistling

Mér leið svona pínulítið eins og Ástríki eftir skot af kjarnadrykk þegar ég hafði skolað þessum niður. Þetta er drykkur sem allir munu hafa skoðun á. Ég mun sko kaupa hann aftur!InLoveW00t

Næstur var Móri, nefndur eftir draugnum. Svo að maður haldi nú áfram að stela þá er "Móri yfirgerjaður öl að breskri fyrirmynd, maltríkur og kröftuglega humlaður.  Ölið inniheldur sjö mismunandi malt afbrigði og blanda af fjórum breskum humla tegundum undirstrika hinn engilsaxneska uppruna Móra". Það vantar sko ekkert upp á bragðið á þessum, maður þarf næstum að tyggja humalinn. Örugglega ekki allra en ég mun kaupa hann aftur.Smile

Íslenskur Úrvals Stout frá Viking var næstur. Alveg ágætur ef mann langar í íslenskan drykk af þessu tagi sem ekki er rótáfengur. Halo

El Grillo. Léttur og ljómandi lager - aftur og enn. Svolítil íslensk hjarðhegðun hér á ferð, engir sénsar teknir. Ef mann langar í íslenskan lager á heitum sumardegi þá er þessi alveg í lagi.Cool

Já, það er greinilega vaxandi metnaður í íslenskri bjórframleiðslu (léttöl).

 


Vindmyllur...?

Á myndinni hér að neðan má sjá einn þeirra báta sem tekið hefur þátt Vendee globe keppninni. Þessi hefur nú verið um 110 daga samfellt á sjó og lent í ýmsum vandræðum eins og aðrir keppendur. Þegar myndin er skoðuð sést einhver blár og áberandi spaðastrúktúr aftan á bátnum. Þetta lítur svolítið út eins og geislavopn úr Star-trek en...

dinelli

Þetta er bara vindrafall - nútíma vindmylla. Sú staðreind að þetta fyrirferðarmikla stykki hangir enn á bátnum eftir meira en 100 daga hristing og læti vakti verulega athygli mína, því fram til þessa hefur maður litið á vindrafstöðvar af öllu tagi sem fremur viðkvæma hluti, a.m.k. ef þær eru farnir að ná einhverri stærð. Það er m.a. ástæða þess að ekki hefur verið farið í neinar alvöru tilraunir með vindmyllur til orkuframleiðslu hér á landi.

Þarna er hinu venjulega formi vindrafals snúið á haus. Öxullinn er lóðréttur sem og blöðin sem sparar feikilegt pláss og er trúlega miklu sterkara form miðað við framleidda orkueiningu. Auk þess er minni hvinur frá þeim en hefðbundna forminu og síðan hefur verið bent á að stórar vindmyllur séu varasamar fyrir fuglalíf. Svo er formið á þessu bara svo fjári fallegt Smile

vindmylla1

Myndin hér að ofan er fengin af heimasíðu bresks fyrirtækis sem er að þróa svipaða gerð. Þar er að finna allkyns fróðleik og myndefni. Kannski er þarna komið dót sem hentar fyrir íslenskar aðstæður.

 


ROXY komin í mark :-)

...skreið yfir línuna um miðnættið og er í þriðja sæti sem stendur. Tíminn er 95 dagar 4 stundir 39 mínútur og 01 sekúnda! Sigld vegalengd er 27.470 sjómílur og meðalhraði er 12.02 hnútar.

Ekki slæmt hjá 34 ára stelpu á níu ára gömlum bát! Cool

Það er gaman að velta fyrir sér þeirri staðreynd að 30 bátar hófu keppnina, þar af voru skipstjórar tveggja konur. Nú eru ellefu bátar eftir og konurnar verma þriðja og sjötta sætið sem stendur.

Ætli það sé eins með konur í skipstjórnarsætum og sagt er að eigi við um fjármálaheiminn, að þær séu varkárari, ekki eins áhættusæknar og því líklegri til að koma "bátnum heilum til hafnar"??? 

Mikið af margmiðlunar- og myndefni er aðgengilegt á heimasíðu keppninnar enda tæknin orðin með þeim hætti að vandalaust er að senda hljóð og mynd hvaðan sem er, hvert sem er. Mitt uppáhalds myndbrot er af því þegar Sam er að rifa stórseglið á ROXY í stífum vindi. Hreinrækruð gæsahúð...W00t

Myndbrotið er núna á síðu 17 tekið þann 18.12.08 og er 4,25 mín. að lengd. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haraldur Rafn Ingvason
Haraldur Rafn Ingvason

“I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.” (Evelyn B.Hall (nei ekki Voltaire))

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband