Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Íslenskar ó-vinsældir í jafnvægi???

Margt er skrítið í kýrhausnum. Nú er allt búið að vera vitlaust vegna viðtals við forsetann þar sem haft var eftir honum að íslendingar ætluðu ekki að borga (svona pínulítið eins og Davíð sagði). Þingmenn, bloggarar og hellingur af útlendingum risu upp á afturlappirnar og töldu þetta afleitt, þetta gerði okkur (íslendinga) svo óvinsæl í útlöndum.

Og væri nú ekki á bætandi...

Margir af hinum sömu þingmönnum, bloggurum og (sennilega ekki útlendingum), keyra nú með miklum krafti áfram kröfu um að hafnar verði verulegar hvalveiðar hér við land, vitandi að slík ákvörðun mun mælast afleitlega fyrir víða um heim. Gera okkur óvinsæl í útlöndum.

En það skiptir ekki máli...

Það skiptir heldur ekki máli að ekki er markaður fyrir afurðirnar. Hagsmunaárekstrar við aðra atvinnuvegi eru líka léttvægir - og ósannaðir að auki - nema þeir jákvæðu... eða þannig!

VIÐ þurfum nefnilega passa upp á jafnvægið í hafinu. Skítt með áhrif hlýnandi sjávar sem breytir göngumunstri loðnu, síldar, makríls, ýsu, skötulels og fleiri fiskitegunda. Sleppum að taka tillit til smáhvela og sjófugla sem og sela, beinhákarla og marglytta. Nei, veiðum hvali í tvo til þrjá mánuði á ári og jafnvæginu er reddað -  sem og 300 störfum og einhverjum milljörðum!

Og engu þarf að kosta til, er það nokkuð... 


mbl.is 36 þingmenn vilja hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útflutningsverðmæti heiðagæsa...?

Hve oft höfum við ekki heyrt talað um útflutningsverðmæti og hvernig þau skiptast milli helstu atvinnuvega s.s. sjávarútvegs, iðnaðar, tölvuleikja og áls. Já, álið hefur átt sinn fasta sess í útflutningsverðmæti þjóðarinnar. En hve réttmætt er að tala um ál frá álverum hérlendis í þessu samhengi?

Hugsum okkur að hingað komi útlendingar sem vilji byggja frystihús. Þeir eiga eigin útgerð og munu afla hráefnis án aðkomu íslendinga. Íslendingar munu hins vegar vinna í frystihúsinu og þjónusta það, auk þess að útvega því orku. Afurðir frystihússins verða síðan fluttar úr landi og seldar á vegum eigenda þess (virðisaukinn er fluttur út). 

Er réttmætt að útflutningsverðmæti þessara afurða sé jafngilt afurðum sem aflað er af íslendingum, á íslenskum skipum, unnið og selt af íslendingum (þar sem virðisaukinn verður sannarlega eftir í landinu)?

Ég efast um það. Ef ál á heima í tölum um íslenskt útflutningsverðmæti eiga íslenskir farfuglar það líka, enda fer afurðamyndun þeirra aðallega fram hér á landi en nytjar (veiðar) í útlöndum!

Þau álver sem starfa- og eru fyrirhuguð hér á landi, eru og verða í eigu útlendinga. Þeir flytja hráefnið inn og afurðina út. Það sem eftir verður í landinu eru tekjur starfsfólks og skattar, tekjur af þjónustu og ýmis aðstöðugjöld. Á móti kemur að byggja þarf virkjanir - eingöngu fyrir þessi álver - og það gera íslendingar sjálfir á sinn kostnað (með lánsfé?). Þessar virkjanir munu ekki skila hagnaði fyrr en eftir áratugi.

Það hlýtur að valda fleirum en mér ónotum að enn skuli menn vera að hugsa um áframhaldandi byggingu álvera. Það innifelur jafnframt að þá munum við binda alla bestu framtíðarvirkjunarkosti okkar við þennan einhæfa atvinnuveg. Svo er ekki einu sinni víst að allt þetta brölt skili í raun neinu sem heitir til fólksins í landinu...


mbl.is Vanmetur mikilvægið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakir dagar að baki - 75% árangur

Það er óhætt að segja að undanfarnir dagar hafa verið í meira lagi sérstakir. Fyrir viku var maður að velta fyrir sér hvernig fyrirhuguð mótmæli við þingsetninguna mundu fara fram og hvort unnt væri með einhverjum hættti að vekja þingheim af svefni sínum. Síðan þá er maður búinn að taka virkan þátt (þ.e. eins virkan og fjölskyldumaður í fullri vinnu getur) í mestu mótmælum sem farið hafa fram á Íslandi, og eldhúsáhaldabyltingin - studd af miklum meirihluta þjóðarinnar skv. skoðanakönnunum - hefur fellt þessa ónýtu ríkisstjórn.

Margt er eftirminnilegt s.s. reykjarlyktin og hinn ofboðslegi hávaði- takturinn sem skildi eftir sig þá tilfinningu að bómullarhnoðri væri fastur í eyrunum á manni (sama tilfinning og eftir Rammsteintónleikana hér um árið), ótrúlegt úthald mótmælenda, örþreyttar og útbýaðar löggur sem dottuðu fram á skyldina sína framan við alþingishúsið, og Geir Jón með sitt rólega en ákveðna fas, höfðinu hærri en allir aðrir.

En sérstaklega eru þó minnisstæðir hinir ólíku hópar sem sameinuðust þarna, börðu á allt sem tiltækt var og öskruðu sem mest þeir máttu "VANHÆF RÍKISSTJÓRN og ÁFRAM ÍSLAND". Þetta voru ömmurnar, grímuliðið, sjóaralegu típurnar, vörubílstjóri nr. 1, gömlu fúlu karlarnir, trommararnir, 101 pakkið, lúðraþeitararnir, listamennirnir, menn í jakkafötum, menn í iðnaðarmannafötum, útivistarliðið, mæður með barnavagna, venjulegi almenningurinn sem aldrei er tekið eftir og síðast en ekki síst unga fólkið, sem hinir eldri voru vissir um að aldrei yrði neitt úr sökum sjónvarpsgláps og tölvuleikjafíknar.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu en eitt er víst. Þingheimur og stjórnmálaflokkar landsins munu í nánustu framtíð hugsa sig tvisvar um áður en þeir hundsa kröfur umbjóðenda sinna, senda þeim puttann og kalla skríl!


Í 15 vikur...

...hafa farið fram reglulegir fundir þar sem reynt hefur verið að ná eyrum þeirra sem bera mesta ábyrgð á þessu efnahagskúðri og þeir beðnir að víkja.

Í 15 vikur hafa þessir sömu menn sent mótmælendum puttann, kallað þá skríl og "ekki þjóðina".

Í 15 vikur hafa þessir sömu menn haldið því fram að þeir beri ekki ábyrgð á þessu sköpunarverki sínu og fundist fráleytt að "þjóðkjörnir fulltrúar" ættu að segja af sér. Þeir hafi nefnilega ekki gert neitt ólöglegt!

Á 15 vikum hefur reikningurinn sem þessir menn hafa sent þjóðinni hækkað úr 300 milljörðum í 3000 milljarða.

Lauslega áætlað tekur það mig 10 ár að greiða minn skerf með skattagreiðslum af launum mínum. og ÖNNUR 10 ÁR fyrir litla ljónið mitt! Þetta er að því gefnu að öll upphæðin fari til greiðslu reikningsins og hann beri ekki vexti nér verðbætur! Það innifelur að ekkert af þessu fé færi til að greiða heilbrigðisþjónustu fyrir okkur feðginin, samgöngur eða annað það sem alla jafna er greitt af skattfé!

Mennirnir sem komu mér og dóttur minni í þessa stöðu eru svo sannarlega ekki mennirnir sem ég treysti til að reyna að koma okkur út úr þessari stöðu.

Þessu fólki hefur verið sýni mikið langlundargeð en nú er þolinmæðin er á þrotum.

Ekki meir Geir!


mbl.is Geir taldi sér ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur í lífi skríls

Kl. 07:05 Klukkan hringir (snúsað þrisvar).

Kl. 07:50 Litla ljóninu skutlað í leikskólann.

Kl 09:00 Mætt í vinnu (vinnutengt námskeið).

Kl. 17:00 Strákurinn sóttur á íþróttaæfingu.

Kl. 18:30 Kvöldmatur.

Kl. 20:00 Frágangur, sett í þvottavélar og þurrkara, litla ljóninu komið í rúmið.

Kl. 21:00 Klæðst útifötum og stefnan tekin niður í bæ til að taka þátt í skrílslátum. Staðið í skrílslátum til kl. 00:45.

Kl. 01:10 Komið heim, skellt í sig einum köldum og nokkrum bloggfærslum svarað.

Kl. 01:30 farið að sofa.

Hvernig var ykkar dagur? 


Fulltrúinn okkar ráðlagði frá því að taka myntkörfulán!!!

Bara svo það komi hér fram, þá var þrátt fyrir allt var til fólk í bönkunum sem vann vinnuna sína með hagsmuni viðskiptavinarins að leiðarljósi. Þegar við stóðum í  íbúðarskiptum fyrir rúmu ári síðan þá benti manneskjan sem sá um lánafyrirgreiðslu okkar á að krónan væri sennilega í toppi og vafasamt að hún styrktist frekar. Á þeirri forsendu gat hún ekki mælt með myntkörfuláni þegar hún var spurð hreint út.

Yfirstjórnir bankanna eiga ekkert skilið annað en tjöru, fiður og gapastokk en þeir sem störfuðu á neðri hæðunum gerðu flestir ekki annað af sér en að vinna vinnuna sína. Núna eru margir þeirra án vinnu og hafa því til viðbótar tapað verulegum fjárhæðum vegna hlutabréfakaupa í sínum "gamla trausta" banka.


mbl.is Veittu fólki lán en veðjuðu á veikingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ANDSKOTINN!!!

Þetta er nefnilega frábær staðsetning í miðjum þjónustukjarna og vöruúrvalið alveg í lagi. Eiginlega ætti Áman að  sjá sér leik á borði og  negla húsnæðið. Þeim yrði tekið fagnandi á þessum stað, nú á tímum vaxandi heimilisiðnaðar og sjálfsþurftarbúskaps í þessum efnum...

Maður sér eiginlega ekki fyrir sér hvar annað útibú ætti að vera - nema þeir séu að horfa til KORPUTORGSW00t


mbl.is Vínbúð í Spönginni lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur óhapp í Vendée Globe

Nú eru fyrstu skúturnar komnar fyrir Hornhöfða og er örugglega andað léttar þar um borð.  Þó  andar  trúega enginn  léttar í þessum flota en  Jean Le Cam, sem varð fyrir því að bát hans hvolfdi um 200 sjóm. SV af Hornhöfða. Jean var bjargað heilum á húfi af einum keppinauta sinna nokkrum klst. eftir óhappið.

Ástæða þessa óhapps var sú að megin kjölfesta bátsins, vindillaga lóð neðst á kilinum, datt af með þeim afleiðingum að bátnum hvolfdi umsvifalaust!

Ein af grunnhönnunarforsendum seglbáta er að stöðugleiki þeirra sé mikill, þ.e. að þeir rétti sig auðveldlega við þótt þeim sé hallað. Svokölluð stöðugleikakúrfa (GZ - afl sem þarf til að halla bát) er gjarna hæst við 60-80° halla. Hvolfi seglbát hinsvegar, t.d. við að fá á sig brotsjó, er hann samkvæmt þessum sömu hönnunarforsendu óstöðugur á hvolfi og á því að rétta sig við aftur. Þessir eiginleikar gera seglskútur að einhverjum öruggustu farkostum á sjó sem völ er á.

Þetta myndband segir allt sem segja þarf! 


Slys í Vendée Globe

Ég er með þeim ósköpum gerður að vera með ólæknandi bátadellu og líður hvergi betur en úti á sjó. Ég aldist náttúrlega upp við sjó og var lengi vel viðloðandi smábátaútgerðina. Það var algengt á skakaraflotanum að menn væru einir á bátunum og svo var oftar en ekki í mínu tilviki. Við þær aðstæður er mikilvægt að huga að öryggi, því fátt segir af einum. Í mínum huga voru meiðsli á borð við beinbrot eða slæma skurði það versta sem uppá gat komið.

Ég hef sjálfur aldrei lent í þess konar óhappi en horfði hins vegar eitt sinn á félaga minn fljúga þvert yfir káetu og lenda á kortaborði með þeim afleiðingum að hann rifbrotnaði (sem var algjör lágmarksskaði miðað við lendinguna). Raunar kenndi hann sér ekki meins fyrr en nokkru síðar, enda var adrenalínið á fullu á þessum tíma þar sem við vorum staddir á seglskútu í snarvitlausu veðri norður af Hornbjargi.

Þegar þetta er skrifað er hins vegar maður, sem staddur er hinumegin á hnettinum að upplifa nokkuð, sem að mínu mati kemst nálægt því að vera "worst case scenario".   

Þessi maður heitir Yann Eliés og er þátttakandi í einni erfiðustu siglingakeppni heims, Vendée Globe, þar sem menn sigla einir á 60 feta bátum, samfellt umhverfis jörðina án viðkomu eða utanaðkomandi aðstoðar. Á Wikipediu  má m.a. finna nokkra fróðleiksmola um þessa keppni.

Manngarmurinn varð nefnilega fyrir því í gær að lærbrotna í vonskuveðri suður af Ástralíu! Þar sem hann getur mest lítið hreift sig sökum brotsins hefur hann t.d. átt erfitt með að komist í þau verkjalyf sem þó eru um borð. Sama á við um mat og drykk.

Áströlsk freigáta er á leið til aðstoðar og er vonast til að hún nái til þess slasaða í fyrramálið. Þar til nýtur hann sálræns félagsskapar eins keppinautar sins sem sigldi rakleiðis til hanns þegar ljóst var hvernig málum var háttað og hefur haldið sig í sjónfæri við hann síðan. Ekki er hættandi á að reyna að leggja upp að öðrum bát við þær aðstæður sem þarna eru. 

Það kæmi mér ekki á óvart þó aðrir keppendur væru að endurraða matar og lyfjabyrgðum í bátum sínum í ljósi þessa óhapps. Það er nefnilega eftir leggur í keppninni sem liggur svo langt frá löndum að illgerlegt er að koma mönnum til hjálpar í tíma ef eitthvað sambærilegt ber útaf. Þar erum að ræða hluta leiðarinnar frá Nýja-sjálandi að Hornhöfða.


Ljón með hlaupabólu :-(

Já, litla ljónið er komið með hlaupabólu! Bóla á bak við eyrað, bóla á augnlokinu - já það er eins og þessar bannsettar bólur hreinlega leiti uppi alla óþægilegustu staðina og komi sér þar makindalega fyrir. 

En bólurnar eru kannski ekki það versta.

Ljónið er nefnilega ekkert sérlega lasið þrátt fyrir þennan ófögnuð. Og því er það að drepast úr leiðindum (ásamt kláðanum). Það er nefnilega þannig að þegar maður er fjögurra ára ljón þá þarf maður að hafa eitthvað fyrir stafni! Og að fara ekki í leikskólann í morgun var frekar fúlt. Að hanga heima (og inni) með pabba gamla í morgun var sko ekki gaman nema í tíu mínútur. Video og DVD tæknin björguðu því sem bjargað varð. Og að geta ekki farið og leikið við bestu vinkonu sína eftir leikskóla eins og venjulega var alveg hræðilegt!

Orsakaði LJÓNATÁRAFLÓÐ! 

Þó virðist sem hún ætli að fara léttar út úr þessu en bróðir hennar á sínum tíma. Hann fékk ca. þrefaldan bóluskammt og ekki bætti útlitið, að um það leyti sem hann steyptist út, var hann bitinn illilega í kinnina af megafrekju nokkurri. Ömmu hans lá við öngviti þegar hún sá útganginn á greyinu.

Sjálfur fékk ég þetta um 11 ára aldur og er ennþá með ör hér og þar um skrokkinn. Mér er sérlega minnisstætt hljóðið sem kom þegar bóla sem var inni í eyranu á mér sprakk þegar ég var eitthvað að pota í hana. SPPSTT... 

Þetta er nú ljóta pestin! 

Ps. 

Sökum framangreindrar vanheilsu umrædds ljóns, sé ég tæpast fram á að geta tekið þátt í hinum hefðbundnu laugardagsskrílslátum nú um helgina... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Haraldur Rafn Ingvason
Haraldur Rafn Ingvason

“I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.” (Evelyn B.Hall (nei ekki Voltaire))

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband