Færsluflokkur: Bloggar
24.10.2009 | 23:33
Að spila tölvuleiki...
...getur verið góð skemmtun. Á sínum tíma var tekin sú ákvörðun að tölvur heimilisins yrðu ekki notaðar sem leikjavélar sem neinu næmi, heldur var sammælst um að brúka skyldi Playstation 3 til þeirra nota. Einnig er til gömul Playstation 2 sem stendur enn fyrir sínu.
Hér á bæ er mest stemming fyrir svokölluðum 1. og 3. persónu ævintýra- og skotleikjum. Þetta gengur út á að leysa allskyns þrautir og verkefni og salla niður andstæðinga með hinum hugvitssamlegustu vopnum.
Nýjasta kynslóð þessara leikja býður upp á frábæra grafík og finnst manni með ólíkindum að allt það gagnamagn sem þarf til að mynda þá veröld sem þar opnast, rúmist á einum diski þó um Blue Ray disk sé að ræða. Síðan þarf jú alveg þokkalegan vélbúnað til að koma þessu til skila á skjáinn og þar stendur PS3 sig frábærlega.
Nú áðan var ég að klára endakallinn í UNCHARTED 2 og verður að segjast að sá leikur er ekki góð skemmtun, hann er FRÁBÆR SKEMMTUN. Þeim tíma (18,5 klst.) sem ég hef varið í spilun hanns undanfarna daga og vikur hefur verið vel varið - og þó að búið sé að fara einu sinni í gegn um leikinn er nóg eftir. Ég er t.d. ekki farinn að snerta á online spiluninni ennþá...
Svo er bara að taka aftur til við Red Faction... og vona að nýji Ratchet og Clank leikurinn nái út fyrir jól
Bloggar | Breytt 25.10.2009 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.10.2009 | 18:50
Metanbílar loksins að komast að...?
Nú eru metandagar í hjá Volkswagen á Íslandi ! Verið er að kynna nokkrar gerðir bíla sem brenna bæði bensíni og metani og er uppsetning bílanna þannig að metan er orkugjafi nr. 1.
Ef ég væri að hugleiða bílakaup í dag mundi ég skoða þetta virkilega vel. Hugsanlega væri þarna komin ástæða sem fengi mann til að skipta úr frönskum unaði yfir í þýska röð og reglu. Bara það að geta nýtt innlent eldsneyti vegur þungt í mínum huga - ekki síst núna á þessum síðustu og verstu. Svo spillir verðið á því ekki fyrir.
Það er náttúrlega alveg út í hött að aukaafurðinni metani, skuli vera brennt í stórum stíl á öskuhaugunum í Álfsnesi, en samt einhvern vegin svo dæmigert fyrir okkur íslendinga (hauggas... ojbara).
Þetta framtak þeirra VW manna á sannarlega hrós skilið og hlýtur að bera árangur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.10.2009 | 23:49
"Tær snilld" hýtur verðlaun við hæfi...
...sjálf Ig Nobelverðlaunin í hagfræði! Hafi einhver verið í vafa um að íslenskt orðspor í stjórn fjármála væri orðið alræmt að endemum, þá þarf sá hinn sami ekki að efast lengur. Algert Ingjaldsfífl í alþjóðlegu samhengi.
Að þessu sinni voru fjölmargar skemmtilegar rannsóknir sem hlutu verðlaun eins og fram kemur í ágætum útdrætti moggans. Þó hefði að ósekju mátt geta fleiri verðlaunaverkefna s.s. hins magnaða efnafræðiverkefnis sem gekk út á að umbreyta Tequila í demanta og friðarverðlauanna sem gengu út á að kanna með samanburðartilraunum mun þess að berja menn í hausinn með fullri bjórflösku og tómri.
Skil raunar ekkert í mogganum að flokka þetta ekki með vísindum og setja í þar til gerðan dálk á moggavefnum...
Flest verðlaunaverkefnin eiga það sammerkt að vera skemmtileg nördaverkefni eða verkefni sem svara spurningum sem hafa fram til þessa verið taldar of kjánalegar til að spyrja í alvöru - þó flestir hafi velt þeim fyrir sér - eins og hinn makalausa leyndardóm um myndun naflalóar, eða hvort slímsveppir geti leyst þrautir.
Heimasíða Ig Nobel er hin skemmtilegasta lesning. Hún fer sérlega vel með afurðum frá brugghúsinu að Ölvisholti.
Stjórnendur íslensku bankanna fá Ig Nóbelinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.9.2009 | 00:17
Ku vera orðinn með loðnara móti...
...eða það var a.m.k. skýringin sem glottandi foreldrar lítillar stúlku höfðu á háttarlagi þeirrar stuttu, sem rak upp garg í hvert skipti sem hún leit á mig. Hef ekki lent í þessu áður svo ég muni.
En það er ekki bara gargað af skelfingu yfir útliti mínu þessa daga. Þannig fannst litla ljóninu alveg gríðarlega fyndið að setja bleika teygju í skeggið á kallinum og vinir guttans glotta út í annað - og jafnvel bæði - þegar ég kem til dyra með tagl í hnakkanum.
Það er nefnilega svo að almennt eru menn óskaplega "snyrtilegir" þessi misserin. Hár niður á axlir er ekki inn...sérstaklega svona að ástæðulausu.
Og svo er það jesú. Ég er nefnilega sagður minna nokkuð á hann - í útliti þ.e.a.s.! Merkilegur fjandi að nokkurra mánaða hárvöxtur geri mig líkan manni sem enginn veit hvernig leit út... ef hann var þá yfir höfuð til.
Svo er maður farinn að lenda í ýmsum uppákomum með þennan lubba. Þannig varð drjúgur lokkur milli stafs og bílhurðar fyrir nokkrum dögum, hárin sem maður japlar á með matnum reynast vera föst í hausnum og rennilásar eru farnir að valda einstaka óþægindum.
- -
Sjáum hvað þetta endist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.9.2009 | 19:56
Verðlagseftirlit Haraldar gjörir kunnugt...
...að verðlag hefur hækkað nokkuð undanfarið ár. Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir en samt er dálítið sjokkerandi að sjá hvernig þróunin hefur orðið.
Síðastliðið haust keypti ég mér nokkuð öfluga gönguskó (Scarpa) sem kostuðu þá á bilinu 23 - 25.000 eftir verslunum. Í dag tékkaði ég á verðinu á þessum sömu skóm - og nú kosta þeir á bilinu 50 - 55.000.
Um svipað leiti og ég keypti þessa skó var verðið á nýjum bíl sömu gerðar og fjölskyldubíllinn (Citroen C5) um 2,8 milljónir. Listaverð þessa bíls í dag er 4,6 milljónir.
Í árslok 2007 keyptum við nýjan smábíl (Citroen C1), einhvern þann ódýrasta sem hægt var að fá á um 1,3 millj. Í dag er listaverð þessa sama bíls um 2,4 milljónir.
Best að fara og bera á skóna sína - þeir gætu þurft að endast leeenngi...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.8.2009 | 16:54
Nú er það ekki svo að mér sé illa við Bjarna Ben...
...þrátt fyrir að hafa af gefnu tilefni hraunað yfir hann í þessari færslu sl. vetur, enda þekki ég manninn ekki neitt. Það er bara eitthvað sem gerist þegar hann fer að tala...
Nú veit ég ekki hve nákvæma mynd þetta fréttakorn gefur af umræddum fundi, en við lestur þess virðist að þarna hafi pólitíkusinn verið í sínu uppáhalds umhverfi, umvafinn jábræðrum sem fögnuðu og klöppuðu á réttum stöðum og voru ekkert að koma með einhverjar óþægilegar spurningar eða vangaveltur. Já, svona vesenislaust umhverfi, þægilegt umhverfi.
Ekkert bannsett borgarafundarumhverfi!!!
En lítum nú á það sem hann sagði (skv. þessu fréttakorni). Það var strax ljóst að stjórnin gat ekki komið samningsóskapnaðinum í gegn um ríkisstjórn, sökum mótstöðu innan eigin raða (andspyrnunnar). Það er því ósmekklegt að hann þakki sér og sínum þá niðurstöðu eins og lesa má úr orðunum Ekki hafi komið til greina að veita ríkisábyrgð á Icesave-samning ríkisstjórnarinnar. Síðan gefur hann sér að andspyrnan hefði gefist upp og draslið farið voða vont í gegn.
Því telur hann að þeir hafi valið ábyrgu leiðina og starfa yfir flokkslínur að málinu, þrátt fyrir óánægju skrímsladeildarinnar í stað þess að vera á móti eins og venjan sé í stjórnarandstöðu.
Klappklappklapp...
Hér kemur svo ekki orð um hjásetu þeirra í atkvæðagreiðslu um afkvæmið (fyrirvarana), en hins vegar er því vandlega haldið til haga að ef skítamixið sem þeir af svo mikilli ábyrgð tóku svona mikinn þátt í að skapa þvert á flokkslínur virkar ekki, þá eigi stjórnin að segja af sér.
Og hvað þá, setja hann í embætti??? Kommon!
Flokkurinn gat ekki einu sinni stutt eigið mál (fyrirvarana) í atkvæðagreiðslu... þrátt fyrir að hann telji að íslendingar eigi að standa við skuldbindingar sinar - skuldbindingar sem nota bene, flokkur Bjarna er jú skrambi ábyrgur fyrir.
Það er þó eitt jákvætt í þessu og það er hið nánast gjörsamlega óhugsandi fordæmi sem þarna skapaðist, þ.e. að þingmenn geti tekið málefnalega afstöðu til mála að þingið geti unnið saman að stórum málum en sé ekki í endalausum pólitískum sandkassaleik úr sér vaxinna morfíswannabea sem halda að vera þeirra þarna á alþingi sé af sama meiði og stuðningsmanna fótboltaliða (Man. udt. sökkar, Liverpool er best...)!
Víki verði fyrirvörum hafnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.8.2009 | 02:28
Frábært sumarfrí á enda
Að þessu sinni náði öll fjölskyldan fjögurra vikna samfelldu fríi saman - og að sjálfsögðu var ferðast innanlands...
Að þessu sinni náði ég að klára tvennt af því sem er búið að vera á "to do" listanum í langan tíma. Annað þessara atriða var að fara slóðann fyrir Sléttanes milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem er löngu landsfrægur fyrir hrikalegt vegstæði. Ég get alveg vottað að þetta er hrikalegt á köflum og alveg svakalega flott leið. Mæli með þessu.
Hitt atriðið var að ganga á Kaldbak, sem er hæsta fjall Vestfjarða, 998 m hátt. Sennilega hefði ekki orðið af því ef ég hefði ekki hitt á auglýsingu um hópgöngu sem tengdist árlegri gönguhátíð - Svartfuglinum - svo ég dreif mig bara.
Siglt var frá Bíldudal yfir Arnarjörðinn og gengið frá sjó, en margir munu víst auðvelda sér lífið með því að aka upp í um 400 m hæð og ganga þaðan. En nei, ekki við.
Gönguleiðin er í sjálfu sér ekki flókin en nokkuð löng. Alls gengum við um 20 km, en 3 þeirra komu til af því að hentuglending fyrir bát var nokkuð frá uppgönguleiðinni. Allir komust upp (og niður aftur) í heilu lagi en ekki var laus
t við að ýmsir líkamshlutar væru farnir að láta vita af sér undir það síðasta (og daginn eftir).
Eitt og annað bar fyrir auga á leiðinn. Jöklarósin varð algengari eftir því sem ofar kom og undir neðsta hjallanum rak maður svo augun í gulleitt setlag sem við nánari skoðun virtist vera gróft og lagskipt vatnaset. Magnað að hugsa til þess að þarna skuli einhvern tíman í fyrndinni hafa verið straum- eða stöðuvatn.
Röðin á myndunum er á þá leið að efst er jöklarós, þá leiðin að tindinum (sem er framundan), síðan ofarlega í "brekkunni", svo haftið með setlaginu og loks útsýni af tindinum í austurátt.
Ps. Laga þessa myndaröð við tækifæri, sjónvarpið er búið, bjórglasið tómt og ekkert annað að gera en að koma sér í bólið... eitthvað gæti líka ratað á fésbókina eða Flickr í fyllingu tímans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2009 | 22:56
Kominn til baka - og gott betur :-)
Ferðin vestur stóð alveg undir væntingum. Um kvöldið þann 17. júní létum við úr höfn ásamt Aríu og sigldum í einum legg rakleitt undir Látrabjarg. Veður var gott og vindur hægur þar til um 10 mílur voru í bjargið, en þá tók á móti okkur stífur norðankaldi. Varð úr að keyra á vél beint upp undir bjargið og bíða og sjá hvort vind lægði eitthvað, auk þess sem skammt var að bíða fallaskipta í Látraröst. Undir bjarginu kraumaði allt af lífi. Flottari stað til að bíða á er varla hægt að hugsa sér.
Vindurinn hélst að mestu og því vorum við heila þrjá tíma að hjakka á vél fyrir víkurnar, en þaðan var stefnan tekin á Patreksfjörð. Þar kom í ljós að dæluhjól í sjókælikerfi vélarinnar var á síðasta snúning, en svo heppilega vildi til að um borð í Aríu var hjól sem passaði. Alltaf gott þegar bilar við bryggju... þetta hefði nefnilega getað valdið töluverðu veseni!
Á Patreksfirði bættust tveir í áhöfnina og var síðan siglt yfir til Bíldudals. Ketildalirnir eru ekkert smá flottir frá þessu sjónarhorni.
Frá Bíldudal var siglt inn í Geirþjófsfjörð þar sem bátnum var lagt við bólfæri. Síðan var farið í land og gengið um slóðir Gísla Súrssonar. Hafernir og alles...
Vegna veðurs og annarra ástæðna var ákveðið að halda ekki lengra í bili og daginn eftir var aftur siglt til Patreksfjarðar, í SV skælingi að þessu sinni. Sjólagið fyrir Kópinn var ekki það besta, en það var þó hátíð miðað við Látraröstina daginn eftir. Við vorum nefnilega klukkutíma of fljótir í hana og straumur enn á móti vindi og SV undiröldu. Eftir um 20 mínútna barsmíðar vorum við þó komnir í gegn og aftur á lygnan sjó.
Nú var stefnan tekin til Ólafsvíkur og siglt í léttum vindi alla leið og komið í höfn um kvöldið. Um morguninn var svo stefnan tekin fyrir nesið og yfir Faxaflóann. Vindur var léttur lengi vel, en þó náðum við að sigla á belgsegli í um fjóra tíma. Út af Akranesi kom svo vindur sem dugði til að koma okkur í höfn um miðnætti - nánast sléttri viku eftir að lagt var af stað.
En ekki var maður nú alveg búinn að fá nóg af siglingum, því á föstudeginum (1 1/2 sólarhring síðar) var lagt í tveggja daga siglingakeppni. Skemmst er frá því að segja að við unnum hana með stæl og var í kjölfarið grínast með það við hefðum í raun verið í leynilegum æfingabúðum fyrir vestan...
Ekki leiðinlegir dagar þetta
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.6.2009 | 20:53
Að leggja íann...
Á Íslandi eru skútusiglingar af mörgum taldar argasti nördaskapur. Að vera að þvælast úti á sjó "að ástæðulausu" vefst fyrir fólki - hvað þá á seglbát...! En ég hef gaman að þessu - raunar er alveg nauðsynlegt fyrir mig, til að halda sönsum, að komast út á sjó.
Nú í kvöld ætlum við að leggja af stað í smá skemmtiferð og er ferðinni heitið í Ísafjarðardjúp til að byrja með. Framhaldið fer eftir veðri og stemmingu, en Jökulfirðirnir eru ofarlega á dagskrá. Farkosturinn er 34 feta seglskúta, Lilja - sú hin sama og við sóttum til Frakklands fyrir þremur árum síðan. Þeirri ferð er lýst undir tenglinum "Siglingablogg" hér til hliðar.
Gert er ráð fyrir að við verðum fyrst um sinn í samfloti með annrri skútu af svipaðri stærð, Aríu að nafni, en hún mun svo væntanlega halda áfram norður eftir landi, enda hyggja menn þar um borð á mánaðarferð meðan við ætlum ekki að taka nema um viku í þetta að þessu sinni.
Set hér mynd af farkostinum sem tekin var í keppni í gærkvöldi. Nógur vindur og hvítnar vel í báru fyrir utan Engeyarrifið enda stórseglið tvírifað og eitt rif í fokku. Set kannski inn myndir úr ferðinni næst þegar maður kemst í tölvu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2009 | 00:22
Ég verð í djúpum skít þegar ég verð 22. ára...
...varð guttanum að orði þegar líða fór á fræðslumyndina HOME sem sýnd var í sjónvarpinu í kvöld. Ég benti honum á að þegar hann væri orðinn 22. ára þá væri hann orðinn það gamall að hann gæti bæði látið í sér heyra og til sín taka. "Já, en hvað get ég gert einn" spurði hann á móti. Ég svaraði því til að hann yrði svo sannarlega ekki einn í að reyna að vinna að lausnum á þeim bráðavanda sem steðjar að vegna loftlagshlýnunar og fólksfjölgunar á næstu tíu árum.
Í blá lok myndarinnar var farið yfir sviðið og kynntar til sögunnar nokkrar lausnir varðandi orkuöflun og fæðuframleiðslu, og síðan nefnd dæmi um þjóðir þar sem unnið væri að stefnumörkun til framtíðar. Strákurinn tók sérstaklega eftir ölduvirkjuninni - vildi raunar koma henni lengra út og í verra veður þar sem væru meiri öldur...! Hann var sem sagt strax farinn að leita lausna á vandanum. Og sólarorkuverið, og húsin með sólarrafhlöðunum á þakinu - kannski væri hann eftir sem áður ekki í svo slæmum málum þegar hann yrði 22.
Hvernig er hægt annað en að vera bjartsýnn á framtíðina þegar maður horfir á þennan frjóa koll með ríku réttlætiskenndina þroskast og spyrja sífellt gagnrýnni og erfirðri spurninga um bankahrun, hagfræði, umhverfismál og annað sem manni finnst að 11 ára gutti ætti ekki einu sinni að hugleiða.
Eitthvað segir mér að ég sé að horfa á hæglátan eldhuga vaxa úr grasi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Áhugamálin
Ýmsar slóðir
- Íslenskar GPS ferlar - gönguleiðir Íslenskar GPS ferlar - með áherslu á gönguleiðir
- Kortavefsjá Landmælinga Hér er það sem þú finnur ekki á Google Earth eða Ja.is - almennilegar hæðarlínur!
- Vatnajökulsþjóðgarður Hellingur af upplýsingum, gönguleiðir og kortavefsjá svo eitthvað sé nefnt...
- www.safetravel.is/ Upplýsingasíða Landsbjargar. Þar er m.a. að finna sprungukort af Lang- og Snæfellsjökli
- Ganga.is Snilldarvefur með gönguleiðum um allt land
- Heimasíða Toppfara Hér er hafsjór af upplýsingum um flest sem tengist fjallamennsku. Hér er einnig að finna BÚNAÐARPRÓFANIR.
- Fjöll erlendis Hellings upplýsingar ef hugurinn leitar út fyrir landsteinanna
- Siglingablogg Flækst frá Frakklandi til Íslands - sjóleiðina
- Sportkafarafélagið Er alltaf á leiðinni útí aftur...
GRÆJUR
- Spot gervihnattasendir Tja. sjón er sögu ríkari...
- "Gear reviews" Alls konar útvistarbúnaður tekinn á beinið...