Færsluflokkur: Bloggar
4.4.2010 | 01:17
1100 ára gamalt "flashback"
Eins og allir sem þekkja okkur hjúin vita, þá eigum við nánast ekkert sameiginlegt. Hvernig á því stendur að við höfum tollað saman öll þessi ár (og lengst af bara gengið nokkuð vel) er trúlega verðugt rannóknarefni fyrir þróunar-, félags-, atferlis-, kyn- og lífefnafræðinga (feromonfræðinga alveg sérstaklega).
Og af hverju segi ég að við eigum nánast ekkert sameiginlegt??? Jú, tökum nokkur dæmi:
Mér finnst gaman að slarki (köfun, siglingar, fjallgöngur...) hún föndrar, skrappar, fer í leikhús og á klassíska tónleika. Mér líður vel í kulda og vosbúð, henni er bara kalt í kulda og vosbúð - auk þess sem slíkt kallar á alls kyns krem og varasalva. Ég þoli líka sól og hita alveg prýðilega. Hún sólbrennur í sól en finnst súld og hlý rigning æðisleg... kommon! Ég er frekar ómannblendinn og væri slétt sama þó ég væri langtímum saman einn á eyðieyju - hún þarf alltaf að hafa fólk í kringum sig, því fleira því betra. Ég er þvermóðskufullur þverhaus með öllu sem því fylgir, hún er hvers manns hugljúfi sem ætíð finnur leið milli skers og báru. Ég borða af nauðsyn - hún borðar af nautn! Ég skipulegg yfirleytt aldrei nokkurn skapaðan hlut, því skipulagið fer hvort eð er til fjandans - hún skipuleggur skipulagið sitt!!!
Og svo mætti áfram telja...lengi... - hvernig í ósköpunum stendur á þessu??!
Og svo hittist þannig á að í dag stóð ég fyrir aftan hana, framan við spegil og virti fyrir mér spegilmynd okkar.
Þar var ólíku saman að jafna.
Hún með sitt fríða og freknótta andlit, umlukið rauða axlarsíða makkanum sínum, og svo ég - með mitt skakka nef, skeggjaður og grófgerður með dökkt liðað og grásprengt hár niður fyrir herðar!
Þarna í speglinum hreinlega blöstu þau við, norræni víkingurinn og írska blómarósin, sem hann rændi á leið sinni til hins ónumda lands!
Hvort víkingurinn hefur gert sér nokkra grein fyrir afleiðingum gerða sinna er alls óvíst, því að þessi írsku gen hafa öruggleg átt eftir að rugla hressilega í honum - eins og þau gera enn þann dag í dag hjá ofangreindum afkomanda hans, heilum 1100 árum síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.3.2010 | 23:59
Snilldin við yfirbyggðar svalir...
...er margþætt, svo ekki sé meira sagt. Svalir hafa nefnilega oft það eina hlutverk að vera geymsla fyrir útigrill - og kannski jólatré. En við það að glerja svalir getur þetta annars að mestu ónýtta rými gengt hinum fjölbreyttustu hlutverkum, s.s. gróðurskáli, setustofa, köld (kartöflu) geymsla, sólbaðsstofa, auka herbergi í partýum - og svo mætti lengi telja.
Að mörgu leiti er þetta rými uppáhalds "herbergið" mitt - sérstaklega á björtum kvöldum.
Á föstudagskvöldið breyttum við guttinn þessu plássi í stjörnuathugunarstöð. Fyrst leiðuðum við uppi Mars og Satunus og síðan hinar ýmsu fastastjörnur. Skelltum síðan upp sjónauka og skoðuðum tunglið í krók og kima - eða eins og hægt er með okkar takmarkaða búnaði í öllu þessu ljósaflóði.
Það ættu allir að eiga lokaðar svalir...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2010 | 23:03
PLAN B...
Í fyrsta skipti í hálfs annars árs hörmungarsögu Ísbjargarklúðursins, hefur stitjandi ríkisstjórn loks komið fram með plan b. Fram til þessa hafa ráðamenn ekki þurft á slíkum óþarfa að halda, ekki þegar hryðjuverkalögum var beitt, ekki þegar oslóartréð var brennt, ekki þegar gengið var til samninga í fyrsta skipti - í hvelli svo ekki færi allt til helvítis, ekki þegar gengið var til samninga í annað skipti - aftur í hvelli svo ekki færi allt til helvítis, ekki þegar stór hluti kosningabærra íslendinga skoraði á forsetann að hafna samningi tvö og alls ekki þegar hann svo hafnaði þeim og vísaði í atkvæðagreiðslu - sem átti að senda allt til helvítis á ljóshraða, eina ferðina enn.
Nei.
Nú hins vegar standa mál svo að ekki verður lengur umflúið að hafa plan b.
Og hvílíkt plan.
Plan b felst sem sagt í því að reyna að tala niður atkvæðagreiðsluna. Já, reyna að telja kjósendum trú um að hún sé marklaus, og því sé í raun tilgangslaust að ómaka sig á kjörstað - þetta sé bara bullogvitleysa.
Plan a var nefnilega að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna með öllum ráðum (það færi nefnilega allt til helvítis í kjölfarið) en það virðist nú vera að mistakast.
En af hverju þetta plan b?
Jú, ef það tekst að tala kjósendur til og koma þeim í skilning um að þetta sé bullogvitleya og tímaeyðsla, þá mæta fáir - kosningaþáttaka verður lítil. Þá verður reynt að halda því fram að þjóðin hafi í raun ekki aðra skoðun á málinu en stjórnvöld og þau hafi því verið á réttri leið allan tíman (skítt með úrslitin). Rúsínan verður svo sú að fyrst þjóðin nenni ekki að ómaka sig á kjörstað þegar um er að ræða svona stórmál, þá sé í raun óþarft að forseti hafi málsskotsrétt - þjóðin kæri sig greinilega ekki um svona kosningar, en vilji að hinir þjóðkjörnu fulltrúar á alþingi sjái um öll mál einir og án afskipta - svo það fari nú ekki allt til helvítis.
Snilldarplan...!
Furðar sig á ummælum ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2010 | 00:22
ÁTVR hjálpi oss...
Í fréttasneplinum í dag var stórfrétt sem sannarlega snerti land og þjóð. Þar kom fram að ÁTVR hefði neitað að taka í sölu bjór frá Ölvisholt Brugghúsi vegna þess að hætt væri við að atriði í nafni og myndmáli flöskumiðans særði velsæmiskennd kaupenda vegna kristilegra tilvísana sem þar var að finna.
Jafnframt kom fram að annar vinsæll bjór frá sama framleiðanda væri til athugunar á sömu forsendu.
Í áðurnefndri frétt kemur fram að "ákvörðum ÁTVR er byggð á reglum nr 631 frá 2009 um vöruval verslananna. Þar segir að ÁTVR taki ekki við vörum ef texti eða myndmál á umbúðum brýtur í bága við almennt velsæmi m.a. með skírskotun til ofbeldis, trúarbragða, kláms, ólögegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar, refsiverðrar háttsemi o.s.frv."
Og hvaða hrikalega nafn bar svo þessi bjór? Jú, Heilagur papi! Og myndmálið? Það má greina kross framan á papanum!
Mig sundlar barasta - Holy... úbbs, vona að ég hafi ekki sært velsæmiskennd neins óbætanlega...!
Og hvaða annar bjór er það sem er til athugunar og áður var getið? Það er að sjálfsögðu Móri, enda um draug að ræða sem - ja hvað??? Eða eru það hundheiðnir galdrastafirnir og rúnirnar... sem, nota bene má finna á fleiri tegundum ölvisholtsbjóra???
En nú verður tekið til hendinni, svo velsæmi okkar hreinlyndu þjóðar bíði nú ekki varanlegan og óbætanlegan skaða. Belgískur bjór er gjarna tengdur við klaustur. Út með hann og hinn breska St´Peters. Út með hundheiðna bjóra eins og Freyju og Thor. Vík burt Santa Rita, Santa Cristina, Casillero del Diablo og öll þið önnur dýrlinga- og djöflatengdu eðalvín. Út með Jagermeister. Tröll hafi þetta allt og líka Bad Angel - bara svo eitthvað sé nefnt af þeim ósóma sem fannst við örsnögga leit á vef ÁTVR og mundi aðeins flokkast undir "trúarbragða" skírskotunina.
Hvað skildi svo vera næst? Ætli ÁTVR snúi sér næst að þjóðernisáróðri. Það mætti til dæmis byrja á á úthýsa framleiðslu andfætlinga okkar sem oftar en ekki skartar pokadýri í einhverri mynd, ásamt Viking og Egils bjór eins og hann leggur sig...!
Ég bíð spenntur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2010 | 23:35
9000 metrar upp í loft...
...er það sem stefnt er að. Nú gætir þú lesandi góður (ef einhver er) ályktað sem svo (og eflaust með nokkrum sanni) að blogghöfundur væri staddur í eitthvað andlega framandlegu umhverfi. Hins vegar er um stílbragð að ræða - ætlað til þess að þú lesandi góður (já, ÞÚ) lesir áfram. Því hvað eru svona blogg annað en ein fjölmargra birtingarmynda um athyglissýki okkar höfundanna - nokkurs konar orðaflass...?!
En nóg um stílbrögð. Það er nefnilega þannig að ég er farinn að stunda reglulega hreifingu. Að sjálfsögðu er ekki um hefðbundna líkamsrækt að ræða, enda mun ég fyrr dauður liggja (kannski úr hreifingarleysi) en að láta sjá mig á hlaupabretti í HeimsKlassa eða einhverju þvílíku fyrirbrygði.
Um er að ræða fjallgöngur með fríðum hópi fólks og er markmiðið að ná heildarhækkun upp á 9000 metra. Prógramminu líkur um miðjan maí en þá er ráðgert að príla upp á Hvannadalshnúk. Mér finnst nefnilega göngur vera lang besta hreifingin og þá sérstaklega í ójöfnu landi. Kannski stafar það af því að hafa á yngri árum elt allar þessar rollur um vestfirsk fjöll og dali, kannski eru lappirnar á mér bara mislangar, hef aldrei gáð...
Svo er að sjá hvað maður gerir að þessu loknu. Hefur ÞÚ hugmyndir...?
Bloggar | Breytt 12.2.2010 kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2010 | 21:53
Sá á kvölina sem á völina...
...er gamalt orðatiltæki. Valkvíði lýsir svo hugarástandi því sem stundum fylgir, þegar um marga kosti að velja. Ég segi nú ekki að ég þjáist beinlínis af valkvíða, en vissulega þarf að taka ákvörðun - og tíminn er að renna út!!!
Ég fékk nefnilega þá flugu í höfuðið að fara að ganga á fjöll, reglulegar en verið hefur - og í félagsskap svona einu sinni. Og nú bregður svo við að þrír aðilar keppast um þennan markað sérvitringa sem fá eitthvað út úr því að príla kófsveittir um fjöll og firnindi.
Ferðafélag Íslands keyrir á hið metnaðarfulla verkefni 52 fjöll - sem gengur út á það að ganga á 52 fjöll á árinu - sem sé eitt á viku! 66°Norður og Íslenskir fjallaleiðsögumenn ætla svo að toppa á Hvannadalshnúk í vor - aftur og enn. Síðast en ekki síst er nafni minn Örn Ólafsson að fara af stað með Fjallafélagið og þar innanborðs er meðal annars 9000 metra áskorunin! Í öllum tilvikum er um að ræða reglulegar göngur á ýmis fjöll - flest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins - og Hvannadalshnúk.
Síðan freistar "Laugavegurinn" mín nokkuð og einnig leiðin milli Sigluness og Rauðasands (Flóttaleið Bjarna á Sjöundaá) en vera má að gönguhátíðin "Svartfuglinn" safni í hóp til að ganga hana næsta sumar.
Og þá er bara að fitta þetta við siglingarnar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2009 | 18:23
Nokkur orð um teiknimyndasögur...
Sú staðreynd að Tinni hefur verið dreginn fyrir rétt vegna meintra kynþáttafordóma - aftur og enn - sýnir hve miklar tilfinningar þessar bókmenntir kalla fram hjá fólki. Hvað er líka betra en að setjast niður með Ástrík, Viggó viðutan - eða Tinna og njóta þess yfirgengilega húmors sem þar er að finna og rýna í þann skarpa undirtón sem stundum má lesa milli línanna.
Greip eitthvert kvöldið bók og ætlaði að hafa undir lappann þar sem hann verður dálítið heitur og betra að láta lofta um hann. Þetta var bók um Lukku láka - Karlarígur í kveinabæli - og í stað þess að fara að stússa í tölvunni fór ég að fletta bókinni.
Fyrir þá sem ekki muna, þá fjallar sagan um ósætti tveggja höfuðætta í byggðarlaginu, Eyríkanna og Nefjólfanna. Fjandskapurinn er svo magnaður að þeir sprengja alla innviði samfélagsins í loft upp til að koma í veg fyrir að hinn aðilinn geti notfært sér það. Þeir eru sammála um það eitt að fjandskapurinn sé númer 1,2 og 3 þótt enginn muni hvernig hann byrjaði...
Að lokum nær Láki samkomulagi við eiginkonur ættarhöfðingjanna sem eru (eins og allir aðrir) orðnar langþreyttar á ástandinu og þær neyða loks karlskepnurnar til að standa saman gegn alvarlegri vá. Í kjölfarið dettur að sjálfsögðu allt í dúnalogn og enginn skilur neitt í því hve langt menn létu teyma sig í hugsunarlausum deilum um ekki neitt.
Ætli þetta gerist bara í ævintýrum og teiknimyndasögum...?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.11.2009 | 00:45
Mín skoðun og hananú!!!
Ömurleg samningatækni, sem aðallega hefur byggst á að styggja ekki ESB hefur í tvígang skilað óhæfum samningi. Enda ekki við öðru að búast! Það einfaldlega gengur ekki að við berum allan skaða af því að ofurábyrgir fjármálasnillingar fengu að ganga lausir í meingölluðu fjármálakerfi ESB/EES og það verða þeir sem sköpuðu þennan fjanda að skilja.
Fíflagangurinn í hringleikahúsinu við Austurvöll heldur svo áfram. Öllum til bölvunar. Allir flokkar og lang flestir þingmenn eru, af gefnu tilefni, komnir í flokk með fyrrverandi bankastjórum og útrásarvíkingum hvað traust varðar. Margumtalaðan ruslflokk.
Mér sýnist að eina leiðin til að eitthvað vitrænt fari mögulega að gerast hér, sé að moka út úr þinginu eins og það leggur sig og skipa utanþingsstjórn, skipaða fagfólki. Kosningar eru vitagagnslausar við þessar aðstæður!
Icssave og ESB geta vel beðið og eins og fréttirnar frá Dubai bera með sér þá er hreint ekki víst að ballið sé búið... Orkubloggarinn heldur það a.m.k. ekki.
Set svo inn tvo athyglisverða tengla...
Þá er það frá...
Frostavetur falli Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2009 | 23:28
Klifraði upp á Esju...
...aftur og enn. Ekki í frásögur færandi. Og þó!
Fékk sem sagt þessa gamalkunnu eirðarleysistilfinningu um hádegisleytið, pakkaði í mittistöskuna og dreif mig út. Var kominn af stað upp um 1330. Veður gott, hiti nálægt frostmarki en nokkur mótvindur - sem fór vaxandi. Þetta sóttist nú svo sem ágætlega en þegar komið var að brúnni yfir Mógilsá fór mig að gruna að ég hefði kannski gleymt að taka með mér annað lungað - formið virtist ekki betra en það! Ákvað að labba a.m.k. upp að vaði.
Jú, ég komst þangað, en á leiðinni stikaði fram úr mér maður sem var örugglega ekki mikið yngri en faðir minn. Fast á hæla honum (og fram úr mér) komu svo tvær stelpur sem voru voða mikið að flýta sér. Ojæja, það er nú allt í lagi að njóta útsýnisins, hugsaði ég með mér - og ná andanum á meðan...
Tók mér pásu við vaðið, en hélt svo áfram. Maður hlýtur fjandakornið að komast upp að steini fyrst maður er kominn hingað - svo eru stelpurnar snúnar við. Iss. Hélt áfram.
Á leiðinni upp að steini bætti nokkuð í vind og kólnaði þannig að mitt fyrsta verk þegar þangað var komið var að rífa upp vindbuxur og stakk og koma mér í utan yfir softshellið. Snilldarefni annars þetta softshell.
Jæja...
Það var smá snjór og stöku svellbunkar í klettabeltinu í Þverfellshorni. Samt var þetta ekki nóg til að tæki því að setja broddana undir, sem ég hafði þó haft með til öryggis. Bara passa sig.
Uppi á Esju var hávaðarok. Settist aðeins í skjól og gáði á klukku. 1500! Það hafði s.s. tekið mig 1 1/2 tíma að komast upp. Ojæja, kannski voru bæði lungun með þrátt fyrir allt. Stífur mótvindur og stokkfrosin auð jörð flýta náttúrlega ekki fyrir.
Þarna uppi hitti ég mann og fylgdumst við að til baka niður klettabeltið. Hann sagðist vera 71 árs og einn af fastagestunum á fjallinu.
Aldrei þessu vant tók leiðin niður jafn langan tíma og leiðin upp. Að ganga undan brekku með stífan vind í bakið er ekki mín sterka hlið. Frekar erfitt fyrir hnéin og maður alltaf að bremsa sig af. Þarna hefðu stafir komið að gagni. Stoppaði svo nokkuð fyrir ofan bílastæðið, seildist í vatnsflöskuna og tók stóran sopa af KRAPI! Var svo kominn í bílinn um 1630, teygði vel á og dreif mig svo heim í sjóðheita sturtu.
Svona eiga sunnudagar að vera. Hins vegar grunar mig að það þurfi að vinna eitthvað í forminu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2009 | 23:31
Issss, hvaða tittlingaskítur...
...er þetta eiginlega??? Vita menn ekki að það verður að fá ÁLVER??? Í gær! Kaninn fór nebblega og það er EKKERT ANNAÐ í stöðunni. Og hvers vegna ætti að þurfa að META UMHVERFISÁHRIF raflínunnar til hins fyrirheitna álvers - þó hún þurfi að flytja eitthvað meiri straum (190 MW) en fram kemur í gögnum málsins. Það er nú ekki eins og þarna sé eitthvað sérstakt umhverfi, aðeins VATNSVERNDARSVÆÐI HÖFUÐBORGARINNAR...! En það vatn er nú hvort eð er ekki virkjanlegt.
Og hvað með það þó það þurfi að virkja aðeins meira??? Sjö nýjar virkjanir og stækka tvær aðrar segir Fréttablaðið. Ekki lýgur það - er það? Hverahlíðarvirkjun á að gefa 90 MW og kostar 30.000.000.000 (SEM TEKNIR VERÐA AÐ LÁNI). Þá vantar 100 MW og hvað skildi nú kosta að virkja það??? 40.000.000.000?
Já, nú er einmitt tíminn til að fá lánaðar 70-80.000.000.000 enda LÁNSTRAUST okkar í hæstu hæðum, sérstaklega Í ÚTLÖNDUM, og kjörin eftir því! Verðum enga stund að borga til baka enda er ætlunin að OKRA á þessum vitlausu útlendingum sem hingað álpast með álverið sitt...
Og svo skapast við þetta 1000 STÖRF. Að vísu kostar hvert um sig a.m.k. 80.000.000 - fyrirfram - bara í virkjunarkostnaði, en það skiptir ekki máli því SKATTTEKJURNAR af þessum 1000 störfum vega það upp á mettíma. Svo er bara að koma í veg fyrir að fólki fjölgi þarna svo ekki þurfi að fara að finna EITTHVAÐ ANNAÐ handa því að gera.
Og svo er þetta svo gott GLOBALLY. Góðmálmurinn framleiddur með umhverfisvænni og ENDALAUSRI ORKU. Ekkert GRÓÐURHÚSAÁHRIFA kolaorkuveraullabjakk. Auðvitað notum við endalausu orkuna okkar í þetta og BJÖRGUM HEIMINUM því kolunum verður þar af leiðandi ALDREI brennt!!!.
Já við erum svo GÓÐ við heiminn. Tökum gæsku okkar bara skrefi lengra og fæðum hina svöngu. Nóg eigum við af fiski í sjónum. Og LANDRÝMI er líka nóg. Þetta er raunar eitt strjálbýlasta land heims. Gerum það að flóttamannanýlendu heimsins. Allir hingað því við erum svo góð.
HEIMURINN mun verða okkur ævinlega ÞAKKLÁTUR fyrir að gefa sér land okkar og auðlindir fyrir EKKERT!!!
Rangar upplýsingar um orkuþörf álvers | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.11.2009 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Áhugamálin
Ýmsar slóðir
- Íslenskar GPS ferlar - gönguleiðir Íslenskar GPS ferlar - með áherslu á gönguleiðir
- Kortavefsjá Landmælinga Hér er það sem þú finnur ekki á Google Earth eða Ja.is - almennilegar hæðarlínur!
- Vatnajökulsþjóðgarður Hellingur af upplýsingum, gönguleiðir og kortavefsjá svo eitthvað sé nefnt...
- www.safetravel.is/ Upplýsingasíða Landsbjargar. Þar er m.a. að finna sprungukort af Lang- og Snæfellsjökli
- Ganga.is Snilldarvefur með gönguleiðum um allt land
- Heimasíða Toppfara Hér er hafsjór af upplýsingum um flest sem tengist fjallamennsku. Hér er einnig að finna BÚNAÐARPRÓFANIR.
- Fjöll erlendis Hellings upplýsingar ef hugurinn leitar út fyrir landsteinanna
- Siglingablogg Flækst frá Frakklandi til Íslands - sjóleiðina
- Sportkafarafélagið Er alltaf á leiðinni útí aftur...
GRÆJUR
- Spot gervihnattasendir Tja. sjón er sögu ríkari...
- "Gear reviews" Alls konar útvistarbúnaður tekinn á beinið...