Færsluflokkur: Bloggar
9.7.2007 | 00:39
Kúluskítur á safnadegi
Í dag var safnadagur og í tilefni hans var kynning á þessu græna, hnöttótta undri sem kallast kúluskítur. Kynningin kom í hlut höfundar með skömmum fyrirvara en gekk vel og voru gestir hinir áhugasömustu - enda annað vart hægt.
Ég er ekki frá því að einhverjir þeirra hafi bæst við í hinn andlega kúluskítsfélagsskap...
Fyrir þá sem vilja vita meira um fyrirbærð dugar vel að gúggla marimo (japanska nafnið á kúluskít) ásamt náttúrlega íslensku nöfnunum kúluskít og vatnabolta.
Og svona að lokum, þá eru síðustu fregnir af henni Fredu - kúluskítnum sem við gáfum David Attenborough - þær að hún njóti lífsins í forláta kristalsvasa. Hún skreytir gjarna borðstofuborðið þegar kallinn býður í mat og vekur að sögn ætið furðu og aðdáun matargesta.
Kúluskítur rúlar (eða rúllar)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 23:41
Akraneskeppnin og írskir dagar
Um tvöleitið í dag lauk hinni árlegu Akraneskeppni. Um er að ræða siglingarkeppni þar sem siglt er upp á Skaga á föstudagskvöldi og til baka á laugardeginum. Skemmst er frá því að segja að eftir taktísk mistök urðum í fjórða sæti á leiðinni upp eftir.
Uppi á Skaga beið okkar útigrill og var þegar hafist handa við að velgja svínið og höggva skörð í hið gríðarlega magn af Guinness sem tekið hafði verið með í tilefni hinna írsku daga. Um það leyti sem við vorum að klára að matast, birtust tveir víkingar - all óárennilegir. Þarna voru komnir kunningjar okkar Arnars, sem hafa það að áhugamáli að lemja hver annan með bitlausum eftirlíkingum af vopnum frá víkingatímanum - í fullum víkingaskrúða að sjálfsögðu.
Upp úr miðnætti var svo kíkt upp í bæ, étin skútupulsa (pulsa með frönskum og osti) og mannlífið skoðað. Um þrjúleitið var svo skrölt aftur niður í bát og farið að sofa. Sökum einmuna veðurblíðu (og þrengsla) kom ég mér fyrir í svefnpokanum uppi á framdekkinu og svaf þar undir beru lofti.
Keppni hófst svo aftur kl. 10 og nú gekk okkur sýnu betur. Við náðum öðru sæti og vorum aðeins sex sekúndum á eftir sigurvegaranum! Einnig náðum við öðru sæti í heildarkeppninni.
Eftir að úrslit voru ljós beið okkar grill og gómsætt lambakjöt og svo dreif maður sig heim til að skola af sér og slappa af, enda farið að togna svolítið á manni eftir lítinn svefn o.fl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2007 | 11:34
Símamál
Fyrir tveimur árum var ég staddur á 50.000 manna tónleikum með U2. Eitt af því sem Bono bað fólk um að gera var að kveikja á símunum sínum og snúa skjánum að sviðinu. í myrkrinu glóðu 50.000 farsímar - ógleymanleg sjón!!!
"Dangeruos little tools those phones" varð Bono að orði.
Eins og allir á ég gsm síma, þrautreyndan Nokia 5110 frá því fyrir aldamót. Hann hefur reynst mér vel alveg eins og fyrri eigendum sínum en nú er hann farinn að sýna ellimerki. Ég hafði hugsað mér að láta hann endast fram eftir hausti og skipta honum þá út fyrir nýjan síma, iPhone sem Apple er að senda frá sér og mér sýnist að sé eins og sími í dag eigi að vera.
En viti menn. Markaðssetning þessa nýja síma er með þeim hætti að minnir einna helst á svæsnustu Microsoft vinnubrögð. Áherslan er á ameríkumarkað, þar sem hann er bundinn við eitt símafyrirtæki (AT&T) og þarf að virkja kvikindið með sérstökum hætti gegn um iTunes Store. Græjan kemur ekki í sölu í Evrópu fyrr en í árslok og þá er alls óvíst að hann komi til með að virka hér á landi fyrr en seint og um síðir.
Apple hafa gegn um tíðina verið brautryðjendur þegar um er að ræða þróun og hönnun í tölvuheiminum, sem og afþreyingu. Sama virðist eiga við um þetta símakvikindi. Hins vegar verð ég að viðurkenna að í þetta skiptið mun ég sennilega fjárfesta í einhverri eftiröpun þar sem óvíst er hve lengi sá gamli endist, auk þess sem þessi aðferð við markaðssetningu afskaplega ó-apple-leg og mér mjög á móti skapi. Mun þó ekki hugleiða að skipta úr makka yfir í pc.
Áfram Nokia
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2007 | 00:35
Törn...!
Búið að vera frekar mikið að gera upp á síðkastið. Seinni vika hinna árlegu sumarnámskeiða fyrir 10 - 12 ára krakka er að klárast og massíft felt fram undan. Þar er um að ræða þriggja daga ferð á Mýrar vegna framhaldsrannsókna í kjölfar sinueldanna fyrir rúmu ári. Svo þarf að fara ferð á Þingvallavatn vegna vöktunarverkefnis og loks framkvæma mælingar og sýnatöku úr Reykjavíkurtjörn - helst allt í næstu viku! Svo fer að styttast aftur í sýnatökur úr Hafravatni.
Eftir mánaðarmótin er ég hins vegar farinn í sumarfrí og þá fara kannski að detta inn blogg aðeins örar en verið hefur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2007 | 19:10
Kolviður???
Hafði mig loks í að skoða heimasíðu Kolviðar. Að lestrinum loknum sló inn gögn varðandi fjölskyldubílinn, skildi ég vilja friða samviskuna og kolefnisjafna eitt stykki Citroen C5. Þar kemur fram að bíllinn fretar út 5,1 tonni af CO2 á ári og til að kolefnisjafna það þarf að gróðursetja 48 tré. Það þarf sem sagt u.þ.b. 50 tré til að binda 5 tonn af CO2. Það þýðir að 10 tré binda 1 tonn. Hvert tré bindur því 100 kíló. - nýgróðursett!!!
Það sem ég sakna sárlega á þessari síðu er að ekki skuli vera gerð vandlega grein fyrir því hvernig og í hve miklum mæli kolefnisbinding skóga fer fram. Trúið mér, fullt af fólki mundi kynna sér það vel og vandlega. Ég fann ekkert um hve langur tími líði þar til raunveruleg kolefnisbinding fer að verða, né heldur hvernig hugmyndin er að binda það til frambúðar. Á síðunni má skilja að það kolefni sem einusinni hefur verið bundið í trjám sé það um aldur og eilífð sbr:
"Bindigeta skóga er breytileg eftir landgæðum og tegundasamsetningu skógarins. Samkvæmt rannsóknum Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins getur árleg binding numið um og yfir 20 tonn af CO2 á hektara. Val trjátegunda hefur einnig áhrif. Sumar trjátegundir lifa um mannsaldur en aðrar vaxa í mörg hundruð ár. Fái náttúran að hafa sinn gang fellur gamli skógurinn og kolefnið binst í sverðinum og ný kynslóð tekur við.
Á illa förnu landi verða ræktaðir fjölbreyttir skógar sem binda kolefni auk þess sem þeir gegna fjölþættu hlutverki fyrir menn og lífríki. Kolviðarskógar sem ræktaðir eru á Íslandi skulu verða opnir almenningi sem yndisskógar. Þá má grisja og hirða en ekki er gert ráð fyrir að viður sé numinn á brott úr skóginum. Gengið er þannig frá samningum við landeigendur að ef skógur þarf að víkja fyrir öðrum landnotum fái Kolviður tapaða bindingu að fullu bætta."
Hér að ofan eru feitletruð nokkur atriði sem þarfnast umhugsunar. Ég hnýt sérstaklega um það að gert skuli vera ráð fyrir því að kolefni fallins skógar bindist í sverðinum, en eins og framsetningin er þá má skilja þetta sem svo að allt bundið kolefni hinna föllnu trjáa bindist -er ekki gert ráð fyrir niðurbroti, eða á hin nýja kynslóð að binda það sem þannig losnar?
Ég efast ekki um að hugmyndin er einlæg markmiðið háleitt. En eins og framsetningin er þá virkar þetta á mig sem ódýr brella til að friða samviskuna og gefa fyrirtækjum og pólitíkusum ódýrt færi á að stimpla sig umhverfisvæna.
1 1/2 * af ***** mögulegum. Sorrý
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.5.2007 | 22:15
Síðustu fregnir af kvefi
Það var með mikilli gleði sem ég henti helvítis dollunni undan Amoxillininu sem ég hef verið að éta undanfarna tíu daga, eftir að hafa gleipt seinasta hylkið. Það verulega svekkjandi við þetta var að þessir tíu dagar innihéldu tvær helgar, þ.e. evrókosningahelgina og þessa (innflutningspartý Stefáns). Og ég í bjór og brennivínsstoppi og Stefán með fullan ísskáp og baðkar af bjór...
Já, þetta kvef hefur komið til umræðu hér áður og í kjölfar þess að kinn- og ennisholur fóru að láta óþyrmilega vita af sér var ég settur á umræddan breiðvirkan sýkladrepandi eiturkokteil. Bakteríupartýinu hefur nú verið snýtt í ómælt magn af þar til gerðu tissjúi og öll helstu holrými virðast vera orðin hrein og fín á ný.
Kvefið er þó enn til staðar, ofarlega í hálsi eftir sem áður en virðist þó heldur vera í rénun... ef frá er talið hádegishóstakastið...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 09:36
La Rochelle - Reykjavík. Ár síðan lagt var af stað
Tíminn líður hratt á gervihnattaöld. Nú er nákvæmlega ár síðan við lögðum af stað frá La Rrochelle á spánnýrri seglskútu, Lilju. Jæja, ár og 15 tímar NÁKVÆMEGA. Ferðalaginu er lýst í á bloggsíðunni http://larochellereykjavik.blogspot.com en það gekk á ýmsu eins og vanta mátti, bæði áður og eftir að við komumst af stað.
Í dag hefur áhöfnin stækkað og eru alls níu í hópnum þetta sumarið. Við erum alltaf að ná betri og betri tökum á bátnum í keppnum og ættum að vera orðnir sæmilega keppnisfærir eftir þetta sumar. Raunar hefur okkur gengið ágætlega í þeim tveimur keppnum sem við hófum tekið þátt í það sem af er sumri.
Svo er bara að vona menn hafi dug í sér til að koma á einni almennilega langri keppni þar sem eitthvað reynir á menn og búnað. Finnst það alltaf hálf asnalegt að nota þessa stóru og öflugu báta bara til að hringsóla kringum einhverjar baujur hér á sundunum. þetta er svona eins og að eiga upphækkaðan sterajeppa og nota hann aðeins í innanbæjarsnatt...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2007 | 17:46
Vakinn af FRAMSÓKNARFLOKKNUM...!
Þannig er mál með vexti að undanfarna daga hef ég verið með bölvaðan hósta og kvefleiðindi. Þetta hefur fært sig upp á skaftið og er nú farið að grassera í ennis- og kinnholum með tilheyrandi óþægindum. Því ákvað ég að vera heima í dag og slappa af, enda lítt vinnufær þótt hitalítill/laus sé.
Það hefur oft reynst mér vel að reyna að sofa svona leiðindi úr mér og þannig stóð á því að um miðjan dag var ég undir sæng í svefnbullmóki, eins og maður er oft þegar maður er hvorki vakandi né sofandi, þegar eftirfarandi gerðist:
Síminn hringir...
Ég fálma eftir tólinu (lá við hliðina á mér) og svara einhverju...
Góðan daginn Haraldur, þetta er FRAMSóKNARFLOKKURINN!!!
Ýmislegt flaug um í svefnkófinu,- hafði kvefið breyst í eitthvað alvarlegra, var maður með óráð eða dauður og var það kannski FRAMSÓKNARFLOKKURINN sem beið manns fyrir handan...?
Ég svaraði einhverju gáfulegu og reyndi að koma skikki á skil raunveruleika og bulls meðan afskaplega kurteis FRAMSÓKNARMAÐUR bar mér kveðju foringjans og tjáði mér að ég væri meira en velkominn niður í Skógarhlíð að fá mér VÖFFLUR MEÐ RJÓMA.
Nú komst ég loks til meðvitundar, VÖFFLUR MEÐ RJÓMA, já...
Afgangurinn af samtalinu var á léttu nótunum, -nei ég var ekki búinn að ákveða hvað ég ætlaði að kjósa og aftur var ég velkominn í VÖFFFLUR hvað sem öðru liði.
Samtalinu var lokið og ég leit á klukkuna. Það voru þrjár mínútur í að hún hringdi (þurfti að sækja leikskólaljónið).
Hvort er nú betra að vera vakinn af klukku með mjög fjandsamlegan PÍÍÍP - PÍÍÍP - hljóm eða FRAMSÓKNARFLOKKNUM???
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2007 | 19:55
Sumarið áþreifanlega komið
Var að koma úr fyrstu feltferð sumarsins og sú næsta fyrirhuguð á morgun. Líffræðisumarið er s.s. komið á fullt og hefst með rannsókn á lífríki og nokkrum umhverfisþáttum Hafravatns. Veðrið var alveg dæmigert íslenskt veður, sól og hiti, rok og rigning, hálfskýjað hægviðri, sól og strekkingur o.s.frv.
Maður verður einhvernveginn alltaf jafn tuskaður eftir fyrsta daginn í felti, kúldrast í bát, fullum af drasli, í veltingi, notandi vöðva sem maður var alveg búinn að gleyma að væru þarna, reynandi að finna hina einu réttu rútinu svo allt gangi sem snurðulausast. Raunar gekk þetta bara vel - vorum náttúrlega óratíma að finna það sem til þurfti og komast af stað, en það sem var kannski merkilegars var að ekkert gleymdist - já við vorum með allt sem við þurftum að nota.
Það er nú bara verulegt afrek út af fyrir sig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.5.2007 | 02:47
Nú tókst það :-)
Mæting kl 1800 hífing kl 1830, hljómuðu skilaboðin frá skippernum
Þegar ég mætti loks kl 1840 var búið að setja stroffur undir bátinn og verið að unirbúa hífingu. Álengdar stóðu tveir svartagallsrausarar og tuldruðu sín á milli um að þetta litist þeim nú ekkert á og hinn staðurinn hefði verið miklu betri fyrir stroffuna en þessi o.s.frv. En á flot fór báturinn - áfallalaust. Þá tók við að gera hann siglingarhæfan, setja bómu á, koma öllum spottum og stögum á sinn stað, hífa mann upp í masturstopp til að græja fleiri spotta og loks koma seglunum á.
Að þessu loknu var ákveðið að drífa sig með bátinn yfir í Reykjavíkurhöfn. Þangað komum við um kl 0100 eftir þægilega siglingu lengst af í hægum vindi. Eftir smá snúninga tókst að leggja bátnum við bryggju og ganga frá öllu. Reyndar urðum við samferða öðrum bát sem átti við vélarbilun að stríða, sennilega vegna olíustíflu, en þeir leystu snilldar vel úr vanda sínum og náðu að leggja að bryggju undir seglum. Aðeins þurfti að taka á móti þeim og stoppa bátinn af - enda engin bakkgírinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Áhugamálin
Ýmsar slóðir
- Íslenskar GPS ferlar - gönguleiðir Íslenskar GPS ferlar - með áherslu á gönguleiðir
- Kortavefsjá Landmælinga Hér er það sem þú finnur ekki á Google Earth eða Ja.is - almennilegar hæðarlínur!
- Vatnajökulsþjóðgarður Hellingur af upplýsingum, gönguleiðir og kortavefsjá svo eitthvað sé nefnt...
- www.safetravel.is/ Upplýsingasíða Landsbjargar. Þar er m.a. að finna sprungukort af Lang- og Snæfellsjökli
- Ganga.is Snilldarvefur með gönguleiðum um allt land
- Heimasíða Toppfara Hér er hafsjór af upplýsingum um flest sem tengist fjallamennsku. Hér er einnig að finna BÚNAÐARPRÓFANIR.
- Fjöll erlendis Hellings upplýsingar ef hugurinn leitar út fyrir landsteinanna
- Siglingablogg Flækst frá Frakklandi til Íslands - sjóleiðina
- Sportkafarafélagið Er alltaf á leiðinni útí aftur...
GRÆJUR
- Spot gervihnattasendir Tja. sjón er sögu ríkari...
- "Gear reviews" Alls konar útvistarbúnaður tekinn á beinið...