Færsluflokkur: Bloggar
23.11.2019 | 19:30
Afneitunarsinnar
Íslenskan er á tíðum afar myndrænt mál og gegnsætt. Þannig blasir merking orða gjarna við þótt þau séu fáséð eða ný. Orðið AFNEITUNARSINNI sem nú er töluvert í umræðunni er gott dæmi um þetta. Merkingin er nokkuð augljóslega sú að þar fari einstaklingur sem kjósi að afneita einhverju sem ella ríki þokkaleg slátt um.
Afneitun af þessu tagi beinst merkilega oft gegn málefnum sem síst skildi, málefnum þar sem niðurstöður vísindalegra rannsókna koma við sögu. Í þessum tilvikum er hinum vísindalegu niðurstöðum hafnað, gjarna á forsendum hugmyndafræði og samsæriskenninga, eða þá á þeim misskilningi að allar skoðanir séu jafngildar.
Afneitun af þessu tagi getur stundum verið ofulítið brosleg, eins og í dæmi þeirra sem standa í þeirri meiningu að jörðin sé flöt og afneita þar með öllum þeim upplýsingum sem benda til þess að hún sé hnattlaga.
Í öðrum tilvikum er afneitunin allt annað en brosleg og getur verið beinlínis hættuleg. Dæmi um slíkt er t.d. þegar foreldrar ákveða að láta ekki bólusetja börn sín gegn skæðum smitsjúkdómum á borð við mislinga, og byggja þá ákvörðun á rangtúlkunum og samsæriskenningum, þrátt fyrir að þær hafi verið marghraktar.
Þegar kemur að loftslagamálum blasir við svipuð mynd. Afar sundurleitur hópur afneitar því að losun gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif til hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar, þvert á niðurstöður vísindarannsókna, sem sumar hafa staðið hafa áratugum saman.
Afneitunin er studd afar mismunandi rökum sem flest þó eiga það sameiginlegt að hafa verið hrakin aftur og aftur á þeim 30 árum sem liðið hafa frá því að þessi umræða fór af stað fyrir alvöru. Því til viðbótar stangast afneitunarrökin oft á tíðum á innbyrðis, sem merkilegt nokk, hefur þó engin áhrif á afneitunarsinnana.
Allt í kringum okkur eru niðurstöður vísindalegra rannsókna að gera okkur lífið auðveldara. Þær gera okkur kleift að eiga samskipti í rauntíma heimsálfa á milli, auka öryggi þegar fólk á leið milli staða um skamman jafnt sem langan veg og þær bjóða upp á margvísleg úrræði gegn sjúkdómum og til að bæta heilsufar.
Afneitun niðurstaðna vísindalegra rannsókna er því eitthvað sem stingur mjög í stúf við þann heim sem við búum við í dag. Það að velja sér síðan ákveðinn málaflokk innan vísindanna og hafna niðurstöðum hans en vera fús að undirgangast niðursöður annarra málaflokka, s.s. þegar kemur að heilbrigðisvísindum, er beinlínis órökrétt.
Bloggar | Breytt 27.11.2019 kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
23.6.2016 | 18:45
Þvílík leiðindi...
Slysaðist inn á moggabloggið, sem eitt sinn var hinn ágætasti umræðuvettvangur, og Jóhannes hvað það er orðið niðurdrepandi. Ef maður vill einhverra hluta vegna ná sér niðri á sjálfum sér þá er fín leið að moka sig í gegn um "heitar umræður". Vilji maður svo virkilega koma sér niður í kjallara velur maður flipann Blog.is og þar undir Vinsæl blogg! Eru þetta virkilega VINSÆL BLOGG??? Vinsæl hjá hverjum? Hvað ætli þurfi fáa smelli til að verða vinsæll hérna á þessum síðustu og LANGVERSTU!
Ætli þessi leiðindi mín nái t.d. að verða "vinsæl"?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
22.11.2015 | 14:19
Ný náttúruverndarlög - um hvað er rifist...?
Á dögunum voru loksins samþykkt ný náttúruverndarlög. Þau byggja á lögum sem taka áttu gildi 2013 en voru stöðvuð á seinustu stundu og áttu að fara í tætarann. Það varð hinsvegar ekki sem betur fer og nú eru þau komin í gildi með nokkrum breytingum.
Sú breyting sem mest hefur farið fyrir brjóstið á fólki varðar 18. greinina þar sem fjallað er um umferð gangandi manna um óræktað land. En hvað er það sem fólk er að setja þarna fyrir sig?
Í áður gildandi lögum frá 1999 hljómaði greinin (þá nr. 14)svona:"14. gr. Umferð gangandi manna. Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi."
Í lögunum sem taka áttu gildi 2013 var þessi grein nr. 18 og hljómaði eftirfarandi: "18. gr. Umferð gangandi manna. Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Þó er í sérstökum tilvikum heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og stiga för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu eignarlandi í byggð ef það er nauðsynlegt vegna nýtingar þess eða verndunar."
Lokaniðurstaðan varð hins vegar á þessa leið: "6. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna: 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi."
Eitthvað hefur verið um að fólk hefur talið að í hinum nýju lögum fælist stórkstleg breyting á s.k. almannarétti og með þeim væri verið að gefa færi á að loka landinu með alveg nýjum hætti. Þegar málið er skoðað sést hins vegar að ekki er um breytingu að ræða frá áður gildandi lögum. Þetta hefur gengið svo langt að áberandi álitshafar hafa gengið fram og kallað fólk miður virðulegum nöfnum, heimtað afsökunarbeiðnir o.s.frv.
Það má hinsvegar velta fyrir sér af hverju 18. greinin var ekki látin halda sér eins og m.a. er fjallað um í fréttatilkynningu SAMÚT. Það virðist hins vegar ljóst að pólitíkin telji sig vanta meiri tíma til að forma þetta atriði eins og kemur fram í 37. gr. lokaniðurstöðunnar, en það segir í 7. málsgrein: "Ráðherra, í samráði við hlutaðeigandi ráðherra, skal láta vinna frumvarp um ný ákvæði er taki til stýringar á ferðaþjónustunni með hliðsjón af reglum um almannarétt og á grundvelli náttúruverndar og nauðsynlegrar auðlindastýringar sem nýting ferðaþjónustunnar á náttúrunni hefur óhjákvæmilega í för með sér. Stefnt skal að því að ráðherra leggi fram frumvarp þess efnis í síðasta lagi á haustþingi 2017.
Um leið og ég vil óska þingheimi til hamingju með að hafa tekist að koma sér saman um lög um náttúruvernd langar mig að hvetja álitshafa til að eiga inni fyrir stóryrðum áður en stokkið er fram á ritvöllinn.
Bloggar | Breytt 23.11.2015 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.3.2015 | 18:57
Orsök / afleiðing...?
Ásgeir Jónsson telur brotaforðakerfið mæta þörf landsmanna fyrir þann sveigjanleika sem þeir vilja búa við í fjármálum. Aðalrökstuðninginn er að finna í þessari klausu:
"Hann segir ljóst að fáir vilji binda peningana sína til lengri tíma, heldur vilji fólk almennt hafa þá lausa. Þá vilji flestir jafnframt eiga kost á láni til lengri tíma, fyrirtæki vilji eiga kost á lánstíma til jafns við endingartíma framleiðslutækja og einstaklingar vilji miða húsnæðislánin við vinnuævina. Það er ákveðin þversögn til staðar. Fólk vill spara en það vill ekki binda peningana sína. Á sama tíma vilja fáir taka lán nema til langs tíma, segir hann og bætir við að brotaforðakerfið svokallaða, sem er kerfið sem Íslendingar og aðrar þjóðir búa við, mæti þessari þörf."
Hver vill hafa fjármuni bundna tl langs tíma í íslenskri krónu, hafandi horft á feril hennar undanfarin ár og áratugi? Enginn, og þess vegan er fjárfest í steypu!
Hvernig dettur honum í hug að fólk vilji miða húsnæðislán við vinnuævina? Enginn, en annað er ekki í boði fyrir flesta, sérstaklega eftir bólu!
Ég sé ekki betur en að hann hafi þarna tekið hrikalegar afleiðingar þess að búa við þennan handónýta gjaldmiðil sem ekki gengur upp nema að hafa verðtryggingu og túlki þær sem vilja fólks. Eins og það hafi eitthvert val þessa dagana...
Eins og að nota fallbyssu á rjúpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2014 | 02:39
Hugleiðingar um svik...
Þróun þessa vandræðamáls sem ESB umsóknn er, hefur verið athyglisverð síðustu daga, svo ekki sé meira sagt og síðustu útspil hafa verið farsakend. Í mínum huga snýst málið þó fyrst og fremst um tvennt. Annarsvegar um það að menn standi við orð sín og hinsvegar um beint lýðræði.
Tökum fyrra atriðið fyrst: Það þarf ekkert að deila um að fyrir liggur loforð um leggja framhald viðræðna um aðild að ESB í dóm almennings. Um er að ræða stórmál sem snertir flesta þætti íslensks samfélags til lengri tíma. Ásamt flestum samtökum á vinnumarkaði, er meirihluti landsmanna á þeirri skoðun að halda eigi viðræðum áfram þrátt fyrir að minnihluti sé fyrir inngöngu. Þetta má túlka á ýmsan hátt en e.t.v. er skýringin sú að fólk vilji taka upplýsta afstöðu til málsins þegar niðurstaða liggur fyrir.
Nú er verið að svíkja þetta loforð með einhverjum grímulausasta þvættingi sem sést hefur. Því verður sú spurning áleitin að ef pólitíkusar skirrast ekki við að svíkja jafn skýr loforð gefin í jafn viðamiklu máli, er þá hægt að taka mark á nokkrum sköpuðum hlut sem þeir segja? Hvernig á það að vera hægt??? Pólitíkin hafði nú ekki úr háum söðli að detta, en hefur með þessu tekist að gera sig að algerri markleysu.
Þá er það seinna atriðið: Allt frá hruni hefur verið sterk undiralda í þjóðfélaginu fyrir beinna lýðræði en fæst með þingkosningum á fjögurra ára fresti. Svona kosningar hafa þó farið fram s.s um stjórnarskrá og ícesave. Pólitíkinni er meinilla við þetta fyrirbæri enda geta slíkar kosningar haft mikil áhrif á rammpólitísk mál. Þó láta pólitíkusar stundum sem svo að þetta sé góð hugmynd, en að því er virðist aðeins þegar lítur út fyrir að niðurstaðan verði þeim hagfelld.
Nú sér maður marga einstaklinga sem hart hafa áður beitt sér fyrir slíkum atkvæðagreiðslum, beita sér af mikilli hörku gegn því að kosið verði um áframhald þessa máls. Þar með falla þeir í sama pitt og pólitíkusarnir, þeim líkar ekki sú stefna sem málið er að taka og því sjá þeir enga ástæðu til að skorði sé úr um það á lýðræðislegan hátt. Hér ætti náttúrlega frekar við að yfirfæra hugmyndafræði sem (sennilega ranglega) hefur verið eignuð Voltaire , I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.
Pólitíkinni hefur nú sem sagt tekist með dyggri aðstoð þessa fólks að drepa tvö hvimleið mál í einu höggi. Annað voru áframhaldandi aðildarviðræður og hitt var hugmyndin um beint lýðræði. En það skiptir kannski litlu máli þar sem augljóst er orðið að fæstir kæra sig neitt um beint lýðræði nema það henti þeirra þröngu, ímynduðu eða raunverulegu hagsmunum.
Til hamingju með árangurinn.
Ps... smá gullkorn í lokin
"Utanríkisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að gengið sé gegn vilja almennings með því að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka, þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar vilji klára viðræður við sambandið."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
30.10.2013 | 22:57
Óhefðbundin gæludýr og "viðeigandi ráðstafanir".
Nokkrum sinnum á ári dúkka upp fréttir eins og sú sem tengd er þessari færslu. Þær eru yfirleitt á sama veg, þ.e. að fundist hafi skriðdýr eða padda af einhverri sort sem hafi í framhaldinu verið klófest af mikilli hetjudáð og í kjölfarið komið fyrir kattarnef.
Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að íslendingar séu pödduhræddasta þjóð í heimi (og þó víðar væri leitað), a.m.k. miðað við höfðatölu! Hvergi á byggðu bóli sjást önnur eins viðbrögð ef geitungur sveimar nærri ölglasi, hvergi vekja smávöxnar og með öllu skaðlausar köngulær jafnmikla skelfingu og óskiljanlegt er að í jafn vel upplýstu samfélagi skuli vera jafn útbreyddur viðbjóður gagnvart öllum þeim dýrum sem ekki eru skreytt feldi (eða fiðri) í hinum hefðbundnu íslensku sauðalitum.
Þessi óskiljanlegi, landlægi ótti við dýr hefur haft ýmsar afleiðingar. Þar á meðal má nefna að vilji menn eiga gæludýr skulu þau vera þóknanleg hinum óttaslegnu skv. málsgreininni hér að ofan. Það þýðir að það er alveg svakalega mikið bannað að vera með gæludýr sem eru "öðruvísi". Vilji menn því eiga tarantúlur eða förustafi, hvað þá kornsnáka eða kambeðlur, skulu þeir hinir sömu reknir niður í "undirheima" gæludýraverslunarinnar og dúsa þar, réttlausir og hundeltir af hinum pödduhræddu.
Þetta er náttúrlega ekki í lagi!
Helsta röksemdafærsla sauðalitaliðsins er sú að dýr með kalt (misheitt) blóð geti borið með sér sjúkdóma á borð við salmonellu. Það á einnig við um önnur dýr - sem þó er ekki nein stjórn á s.s. máfa. Þegar þessu fólki er bent á að lausnin á þessum mögulegu sjúkdómum sé að lögleiða dýrin, ala í sóttkví og gera e.t.v. eftirlitsskyld, er seinasta hálmstráið gripið eins og venjulega, aumingja blessuð börnin sem alltaf eru að fara sér að voða.
Auðvitað á að vera hægt að fara út í "betri gæludýraverslun" og fá sér litla og sæta eðlu eða snák, nú eða þá almennilega könguló. Þar sem íslendingar komu sér út úr torfkofunum fyrir nokkru, er þá ekki líka kominn tími til að hafa sig úr sauðalitunum?
Fundu græneðlu við húsleit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.10.2013 | 02:17
Hvers vegna tengjast hægrimenn kristni?
Í dag er staðan sú að víða hafa veruleg skörð verið höggvin í þessi gömlu stjórntæki, en samt er grunnt á gömlum tilhneigingum eins og dæmin um teboðshreifinu í vestri og talibana í austri sýna glöggt. Þá má nefna ýmsar hugmyndir um ritskoðun á netinu ásamt þeirri furðulegu staðreynd að páfinn er ennþá til!
En stundum virðast rúarbrögð og stjórnmál eiga misgóða samleið. Það fer m.a. eftir hugmyndafræði. Svokallaðir vinstir flokkar sem byggja á einhvers konar félagshyggju gefa oftar en ekki lítið fyrir trúarbrögð, meðan fyrirbæri sem kalla sig hægri flokka og byggja á einstaklingshyggju, taka þau upp á sína arma - og sérstaklega þá grein framangreindra trúarbragða sem kallast kristni.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig standi á þessu. Ætti þetta ekki að vera öfugt? Af hverju í dauðanum ættu einstaklingshyggjumenn að trúa á æðri máttarvöld? Þeir telja jú að einstaklingurinn eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér, hirða gróðann þegar vel gengur og skítt með hina, en jafnframt að bera tapið einir þegar illa árar. Hvað hefur þessi einstaklingur að gera með einhvern guð?
Frekar væri að þessi hugsun passaði í heimsmynd þeirra sem vilja vera í félagi hverjir við aðra, deila ágóðanum þegar vel gengur og þá einnig tapinu þegar brestur á með hallæri. En svo virðist ekki vera.
Er ekki einhver þversögn í áhuga hægrimanna á kristini? Ætti þetta ekki að vera á könnu mið- og vinstrimanna???
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
11.4.2013 | 09:54
Snillingar óskast...
Lítill fugl hvíslaði að mér þeim möguleika að halda eftir dágóðri summu handa tafaverjendum ef á þyrfti að halda. Tafaverjendur eru víst menn sem segjast vera lögfræðingar, en sérhæfa sig í að tefja mál, t.d. með því að segja sig frá málum korteri fyrir fyrirtöku og mæta ekki í dómssal. Svo tekur næsta holl tafaverjenda við og svo koll af kolli. Sami fugl varaði mig raunar við að þessi þjónusta væri dýr. Það væri þó skiljanlegt - mannorð og útskúfun kostaði náttúrlega sitt.
Veit einhver um prísinn hjá svona snillingum eða á maður kannski bara að óska eftir tilboði fyrirfram...?
Aðalmeðferð í Al-Thani frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2013 | 10:42
Eitt kjördæmi og jafn atkvæðisréttur
Skýtur hér ekki eitthvað skökku við? Þessi staða landsbyggðarinnar skildi þó ekki hafa eitthvað með kjördæmaskipanina að gera?
Eitt af því sem hefur einkennt pólitíkina undanfarna áratugi er kjördæmapot þingmanna. Þar með eru kjördæmin komin í innbyrðis samkeppni um þau gæði sem helst eru í tísku á hverjum tíma. Þar getur verið um að ræða fiskeldi, flugvelli, hafnarmannvirki, vegagerð og jarðgöng, stóriðju o.s.frv. Kjördæmapot gengur t.d. út á að "eiga" ráðherra þess málaflokks sem heitastur er. Þá aukast líkurnar á að viðkomandi fyrirbæri dúkki upp í kjördæminu skömmu fyrir næstu kosningar - og þar með að ráðherrann haldi þingsætinu eftir kosningar!
Þetta er vont kerfi. Það leiðir til slæmrar nýtingar verðmæta, það hamlar langtímaskipulagningu og það veldur ríg og togsreytu.
Um leið og ég óska hinum nýja Landsbyggðarflokki til hamingju með áfangann langar mig að stinga að flokksmönnum hugmynd að áherslumáli sem með réttu ætti að verða þeirra aðal baráttumál. Hún er sú að landið verði gert að einu kjördæmi með jöfnu atkvæðavægi kjósenda. Það er eina leiðin til að vega á móti kjördæmapoti og þar með forsenda þess að þessi margumtalaða landsbyggð nái að þrífast með þeim hætti sem vonast er til.
Framsókn með 28,5% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
29.1.2013 | 22:55
Grafarvogsbúi biðst afsökunar :(
Ég hef búið í Grafarvogi - Staðarhverfi nánar til tekið - í tólf ár. Á þessum tíma hefur margt gengið á og oftar en ekki hafa samskipti við borgaryfirvöld og tengdar stofnanir verið með stormasamara móti. Ástæðurnar hafa verið margar, en sem dæmi má nefna umdeildar vegalagningar, skipulagsmál og skólamál. Þá má geta þess að þjónusta hefur dregist mjög saman í hverfinu, hér er ekki áfengisútsala, pósthús eða hverfstöð sorpu.
Oft hefur maður það á tilfinningunni að ástæður samdráttar þjónustu í hverfinu og árekstra í skipulagsmálum séu þær að ráðamenn séu helst til bundnir við nærumhverfi sitt, þ.e. gamla miðbæinn og hafi litla þekkingu á því sem um er að vera í úthverfunum. Því ber sérstaklega að fagna því þegar borgarstjóri leggur land undir fót og kemur sér fyrir í úthverfum - Breiðholti í þessu tilfelli. Jafnframt ber að fagna því að borgarstjóri og aðrir ráðamenn haldi íbúafundi í úthverfunum, eins og þennan í kvöld, sem ég gat því miður ekki mætt á.
Ég er því að vonum afskaplega leiður yfir því að nágrannar mínir hér í Grafarvogi skuli ekki hafa tekið betur á móti borgarstjóranum en raun ber vitni. Það er sjálfsagt að deila málefnalega á borgarstjóra og það hef ég sjálfur gert, en af orðanna hljóðan var þarna eitthvað allt annað á ferðinni. Ég vil því biðja Jón Gnarr afsökunar á þessari framkomu þar sem þess er vart að vænta að dónarnir á fundinum hafi manndóm í sér til þess.
Haraldur R. Ingvason, Barðastöðum 13.
Viðbót:
Frá því að þessi færsla var skrifuð hefur verið beðist afsökunar á þeim ummælum sem vitnað hefur verið til. Það er til fyrirmyndar og því ét ég hér með ofan í mig seinustu orðin í færslunni hér að ofan. Þá verð ég að segja að mér finnst viðbrögð borgarstjóra yfirdrifin og fjarri því að vera einelti. Eftir sem áður er sú skoðun mín sé óbreitt að menn eigi að halda sig við málefnalega gagnrýni og persónulegt skítkast eigi ekki rétt á sér - þó menn séu í pólitík.
Einelti og hreint og klárt ofbeldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 31.1.2013 kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Tenglar
Áhugamálin
Ýmsar slóðir
- Íslenskar GPS ferlar - gönguleiðir Íslenskar GPS ferlar - með áherslu á gönguleiðir
- Kortavefsjá Landmælinga Hér er það sem þú finnur ekki á Google Earth eða Ja.is - almennilegar hæðarlínur!
- Vatnajökulsþjóðgarður Hellingur af upplýsingum, gönguleiðir og kortavefsjá svo eitthvað sé nefnt...
- www.safetravel.is/ Upplýsingasíða Landsbjargar. Þar er m.a. að finna sprungukort af Lang- og Snæfellsjökli
- Ganga.is Snilldarvefur með gönguleiðum um allt land
- Heimasíða Toppfara Hér er hafsjór af upplýsingum um flest sem tengist fjallamennsku. Hér er einnig að finna BÚNAÐARPRÓFANIR.
- Fjöll erlendis Hellings upplýsingar ef hugurinn leitar út fyrir landsteinanna
- Siglingablogg Flækst frá Frakklandi til Íslands - sjóleiðina
- Sportkafarafélagið Er alltaf á leiðinni útí aftur...
GRÆJUR
- Spot gervihnattasendir Tja. sjón er sögu ríkari...
- "Gear reviews" Alls konar útvistarbúnaður tekinn á beinið...