29.6.2009 | 22:56
Kominn til baka - og gott betur :-)
Ferðin vestur stóð alveg undir væntingum. Um kvöldið þann 17. júní létum við úr höfn ásamt Aríu og sigldum í einum legg rakleitt undir Látrabjarg. Veður var gott og vindur hægur þar til um 10 mílur voru í bjargið, en þá tók á móti okkur stífur norðankaldi. Varð úr að keyra á vél beint upp undir bjargið og bíða og sjá hvort vind lægði eitthvað, auk þess sem skammt var að bíða fallaskipta í Látraröst. Undir bjarginu kraumaði allt af lífi. Flottari stað til að bíða á er varla hægt að hugsa sér.
Vindurinn hélst að mestu og því vorum við heila þrjá tíma að hjakka á vél fyrir víkurnar, en þaðan var stefnan tekin á Patreksfjörð. Þar kom í ljós að dæluhjól í sjókælikerfi vélarinnar var á síðasta snúning, en svo heppilega vildi til að um borð í Aríu var hjól sem passaði. Alltaf gott þegar bilar við bryggju... þetta hefði nefnilega getað valdið töluverðu veseni!
Á Patreksfirði bættust tveir í áhöfnina og var síðan siglt yfir til Bíldudals. Ketildalirnir eru ekkert smá flottir frá þessu sjónarhorni.
Frá Bíldudal var siglt inn í Geirþjófsfjörð þar sem bátnum var lagt við bólfæri. Síðan var farið í land og gengið um slóðir Gísla Súrssonar. Hafernir og alles...
Vegna veðurs og annarra ástæðna var ákveðið að halda ekki lengra í bili og daginn eftir var aftur siglt til Patreksfjarðar, í SV skælingi að þessu sinni. Sjólagið fyrir Kópinn var ekki það besta, en það var þó hátíð miðað við Látraröstina daginn eftir. Við vorum nefnilega klukkutíma of fljótir í hana og straumur enn á móti vindi og SV undiröldu. Eftir um 20 mínútna barsmíðar vorum við þó komnir í gegn og aftur á lygnan sjó.
Nú var stefnan tekin til Ólafsvíkur og siglt í léttum vindi alla leið og komið í höfn um kvöldið. Um morguninn var svo stefnan tekin fyrir nesið og yfir Faxaflóann. Vindur var léttur lengi vel, en þó náðum við að sigla á belgsegli í um fjóra tíma. Út af Akranesi kom svo vindur sem dugði til að koma okkur í höfn um miðnætti - nánast sléttri viku eftir að lagt var af stað.
En ekki var maður nú alveg búinn að fá nóg af siglingum, því á föstudeginum (1 1/2 sólarhring síðar) var lagt í tveggja daga siglingakeppni. Skemmst er frá því að segja að við unnum hana með stæl og var í kjölfarið grínast með það við hefðum í raun verið í leynilegum æfingabúðum fyrir vestan...
Ekki leiðinlegir dagar þetta
Tenglar
Áhugamálin
Ýmsar slóðir
- Íslenskar GPS ferlar - gönguleiðir Íslenskar GPS ferlar - með áherslu á gönguleiðir
- Kortavefsjá Landmælinga Hér er það sem þú finnur ekki á Google Earth eða Ja.is - almennilegar hæðarlínur!
- Vatnajökulsþjóðgarður Hellingur af upplýsingum, gönguleiðir og kortavefsjá svo eitthvað sé nefnt...
- www.safetravel.is/ Upplýsingasíða Landsbjargar. Þar er m.a. að finna sprungukort af Lang- og Snæfellsjökli
- Ganga.is Snilldarvefur með gönguleiðum um allt land
- Heimasíða Toppfara Hér er hafsjór af upplýsingum um flest sem tengist fjallamennsku. Hér er einnig að finna BÚNAÐARPRÓFANIR.
- Fjöll erlendis Hellings upplýsingar ef hugurinn leitar út fyrir landsteinanna
- Siglingablogg Flækst frá Frakklandi til Íslands - sjóleiðina
- Sportkafarafélagið Er alltaf á leiðinni útí aftur...
GRÆJUR
- Spot gervihnattasendir Tja. sjón er sögu ríkari...
- "Gear reviews" Alls konar útvistarbúnaður tekinn á beinið...
Athugasemdir
Þetta toppar nú siglingar um suðurhöfin! :) Sástu Arnþór og co á bjargbrúninni?
Tómas G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 14:20
Flott ferðasaga, glæsilegar myndir. Tommi spyr um fugla, ég hvort þú hafir séð marglyttur?
Arnar Pálsson, 30.6.2009 kl. 16:24
Sá fáein eintök af Homo sapiens á brúninni, greindi þau ekki frekar
Af marglyttum er það að segja að talsvert var af bláglyttu og undir Látrabjargi sáust nokkrar litlar brennihveljur. Engir blálogar sáust í túrnum
Haraldur Rafn Ingvason, 1.7.2009 kl. 11:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.