Leita í fréttum mbl.is

Grafarvogsbúi biðst afsökunar :(

Ég hef búið í Grafarvogi - Staðarhverfi nánar til tekið - í tólf ár. Á þessum tíma hefur margt gengið á og oftar en ekki hafa samskipti við borgaryfirvöld og tengdar stofnanir verið með stormasamara móti. Ástæðurnar hafa verið margar, en sem dæmi má nefna umdeildar vegalagningar, skipulagsmál og skólamál. Þá má geta þess að þjónusta hefur dregist mjög saman í hverfinu, hér er ekki áfengisútsala, pósthús eða hverfstöð sorpu.

Oft hefur maður það á tilfinningunni að ástæður samdráttar þjónustu í hverfinu og árekstra í skipulagsmálum séu þær að ráðamenn séu helst til bundnir við nærumhverfi sitt, þ.e. gamla miðbæinn og hafi litla þekkingu á því sem um er að vera í úthverfunum. Því ber sérstaklega að fagna því þegar borgarstjóri leggur land undir fót og kemur sér fyrir í úthverfum - Breiðholti í þessu tilfelli. Jafnframt ber að fagna því að borgarstjóri og aðrir ráðamenn haldi íbúafundi í úthverfunum, eins og þennan í kvöld, sem ég gat því miður ekki mætt á.

Ég er því að vonum afskaplega leiður yfir því að nágrannar mínir hér í Grafarvogi skuli ekki hafa tekið betur á móti borgarstjóranum en raun ber vitni. Það er sjálfsagt að deila málefnalega á borgarstjóra og það hef ég sjálfur gert, en af orðanna hljóðan var þarna eitthvað allt annað á ferðinni. Ég vil því biðja Jón Gnarr afsökunar á þessari framkomu þar sem þess er vart að vænta að dónarnir á fundinum hafi manndóm í sér til þess.

Haraldur R. Ingvason, Barðastöðum 13.

 

Viðbót:

Frá því að þessi færsla var skrifuð hefur verið beðist afsökunar á þeim ummælum sem vitnað hefur verið til. Það er til fyrirmyndar og því ét ég hér með ofan í mig seinustu orðin í færslunni hér að ofan. Þá verð ég að segja að mér finnst viðbrögð borgarstjóra yfirdrifin og fjarri því að vera einelti. Eftir sem áður er sú skoðun mín sé óbreitt að menn eigi að halda sig við málefnalega gagnrýni og persónulegt skítkast eigi ekki rétt á sér - þó menn séu í pólitík.


mbl.is „Einelti og hreint og klárt ofbeldi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ok, hví ertu að biðjast afsökunar á gjörðum annarra? 

Ari (IP-tala skráð) 29.1.2013 kl. 23:28

2 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Blessaður Haraldur... þetta var nú óþarfi. Eða varst þú á þessum fundi?

Ég var á fundinum og þolmörk Jóns Gunnars eru greinilega mjög lág. Lægri en æskilegt er fyrir mann í svona stöðu.

Oft þarf að tala tæpitungulaust og menn verða að taka því þegar svo er gert. Ég var á þessum fundi og ég er sammála því sem þar kom fram að að það er þversögn í því að tala um íbúalýðræði þegar eyða á einhverjum aurum í smáframkvæmdir en valta svo yfir íbúa þegar búsetuforsendum þeirra er gjörbylt.

Mér þykir það ómerkilegt af manninum væla yfir þjóðina þó tekist hafi verði á á opnum fundi.

Emil Örn Kristjánsson, 29.1.2013 kl. 23:33

3 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ég hef sjálfur verið á fundum um skólamál o.fl. þar sem sótt var hart að Gnarr og meðreiðarsveinum og tekið fullan þátt í því. Enginn kveinkaði sér undan í þau skipti og tjáðu menn sig þó tæpitungulaust.

Til að fundir á borð við þennan beri árangur þurfa fundarmenn að vera bæði ákveðnir og kurteisir í málflutningi og þekkjandi mitt fólk grunar mig að einhverjir hafi aðeins misst sig...

Haraldur Rafn Ingvason, 30.1.2013 kl. 00:04

4 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Ef að Borgarstjóri er ekki sterkari en það að gagnrýni tekur hann sem einelti og ofbeldi er eitthvað mikið að hjá honum...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 30.1.2013 kl. 07:31

5 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ég get ekki séð að ummæli á borð við þau að borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar sem þarna mættu, séu hyski sem ætti að drulla sé í burtu, (svo dæmi sé tekið) sé beinlínis hægt að flokka sem gagnrýni... er það?
 
Er þetta að tala tæpitungulaust?

Er þetta ekki skítkast?

Afsökunarbeiðnin stendur!

Haraldur Rafn Ingvason, 30.1.2013 kl. 13:07

6 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Gefðu okkur smá útlistingu a skilningi þínum a hugtakinu einelti, Haraldur. Og berðu svo saman það sem sagt var a Grafarvogsfundinum og meðhöndlunina sem fyrrverandi borgarstjóri, Ólafur F fékk hjá pólitískum andstæðingum, fréttamönnum, grinistum og Aramotaskaups klikunni mánuðum saman. Erum við að tala um sama hlutinn?

Ragnhildur Kolka, 30.1.2013 kl. 17:37

7 identicon

Ragnhildur Kolka...það má líka nefna hvernig komið var fram við Davíð Oddsson,td þegar honum var bolað úr Seðlabankanum....og kommentakerfinu á DV....

Halldór Jóh. (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 18:51

8 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ja, Davið Oddsson fekk að kenna a þvi og ekki var skeytt um afdrif heiðarlegra embættismanna sem aldrei höfðu gert flugu mein. Það sem þessi ungi maður lítur framhjá, er að raunverulegt einelti hefur viðgengist her gegn fólki sem ekki er af sömu pólitísku rót og hann sjálfur.

Fornarlambs væl Jóns Gnarr a Fesinu gerir litið úr þvi sem aðrir hafa matt þola.

Ragnhildur Kolka, 30.1.2013 kl. 20:12

9 identicon

Jamm, þegar illa gengur, þá er bara að aumingjavæða sig. Það vill náttúrulega enginn vera vondur við fórnarlamb eineltis?

Eru ekki annars allir búnir að gleyma aðalatriðinu, málefnum Grafarvogs, og hvernig borgarstjórinn stendur sig?

Hilmar (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 22:11

10 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ég fæ ekki séð að skítkastið á þessum fundi flokkist sem einelti og ég veit ekki til að Grafarvogsbúar hafi elt Gnarr á röndum til að vera með leiðindi. Hins vegar er ljóst að ummæli á fundinum voru þess eðlis að undan hefur sviðið. Slík ómálefnaleg framkoma sem felur í sér persónulegt skítkast er óásættanleg að mínu mati og raunar virðist fundarmönnum sjálfum hafa ofboðið, ef marka má upptökubút af fundinum sem sýndur var í kvöld.

Nú veit ég ekki til að við RK þekkjumst, en rétt er að taka fram að ég er ómannglöggur með afbrigðum. Þrátt fyrir það hún búin að greina mig á einhverja pólitíska rót þar sem ég lít blákalt fram hjá einelti einhverra, sem eru þá væntanlega á einhverri annarri rót. Kann ég henni hinar bestu þakkir fyrir greininguna en langar svona í framhjáhlaupi að kanna hvort hún væri til í að greina mér frá niðurstöðum greiningarinnar þar sem ég virðist vera erfiður í greiningu.

Aðilar hér á blogginu eru nefnilega alls ósammmála um hvar beri að setja mig. Kommar og samfópésar kalla mig sjalla, sjallar kalla mig komma eða samfópésa, og frammarar... thja, minnist þess raunar ekki að hafa hitt neina svoleiðis hérna.

Einhverju sinni bað ég Kristinn P. á Bakkafirði að greina mig eftir einhverja snerru á blogginu hans en hann lét það vera...

Já og Davíð, það má ekki gleima aumingja Davíð. Ljótt með Davíð. Raunar sé ég mikil líkindi með Davíð og Gnarr, báðir stórskemmtilegir, afburðamenn í pólitík, umdeildir í öllum sínum störfun og álíka stórt hlutfall þjóðarinnar fer að froðufella þegar nafn þeirra er nefnt.

Haraldur Rafn Ingvason, 30.1.2013 kl. 22:13

11 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Mér finnst alls ekkert að því að maður í hans stöðu skuli vekja athygli á fremur sorglegri umræðuhefð á Íslandi.

Í staðinn fyrir að kalla hann aumingja og veimiltítu (og þannig sýna okkur öllum hvað hann á við), og segja að hann eigi bara að þola þetta, væri ekki nær að við myndum temja okkur meiri kurteisi?

Bara vegna þess að maður er reiður og pirraður, gefur manni ekki skotleyfi á fólk þótt það sinni opinberum störfum.

Manneskja er alltaf manneskja, sama hvert starfsheitið er. Gagnrýni er eitt, munnsöfnuður og nafnaköll eru annað.

Annars þykir mér ansi kjánalegt að segja að hann þoli ekki þessi ummæli. Maðurinn hefur þurft að sæta töluvert verri gagnrýni en þetta í störfum sem hann hefur gegnt áður, svo hann ætti að vera með nokkuð þykkan skráp.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 31.1.2013 kl. 16:59

12 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Nei, það er hreint ekkert að því. Varðandi upplifun á ákveðnum atvikum þá er hún að sjálfsögðu misjöfn milli manna.  Þó mér persónulega finnist engan veginn hægt að flokka þetta sem einelti þá getur gróf framkoma klárlega haft slæm áhrif á fólk - sérstaklega ef menn eru viðkvæmir fyrir.  

Mér finnst komment Svavars Knúts á snjáldursíðu borgarstjóra hitta beint í mark.

Haraldur Rafn Ingvason, 31.1.2013 kl. 17:26

13 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Hann hitti naglann á höfuðið.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 31.1.2013 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haraldur Rafn Ingvason
Haraldur Rafn Ingvason

“I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.” (Evelyn B.Hall (nei ekki Voltaire))

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband