Leita í fréttum mbl.is

Eitt kjördæmi og jafn atkvæðisréttur

Eitt hinna nýju framboða sem nú hafa komið fram, kennir sig við landsbyggðina og setur málefni hennar sérstaklega á oddinn. Lauslegur yfirlestur helstu áhersluatriða sýnir að landsbyggðinni er mikið niðri fyrir og krefst leiðréttingar á stöðu sinni, enda hafi hún sífellt farið farið halloka fyrir höfuðborgarsvæðinu. En bíðum nú við. Landið skiptist í sex kjördæmi. Þar af hefur landsbyggðin þrjú og í þeim sitja 29 af 63 þingmönnum landsins. Því sitja þar hlutfallslega fleiri þingmenn miðað við höfðatölu en á höfuðborgarsvæðinu. Þessu til viðbótar er mögulegt að sumir þingmenn Suðvesturkjördæmis skilgreini sig sem landsbyggðarmenn.

Skýtur hér ekki eitthvað skökku við? Þessi staða landsbyggðarinnar skildi þó ekki hafa eitthvað með kjördæmaskipanina að gera?

Eitt af því sem hefur einkennt pólitíkina undanfarna áratugi er kjördæmapot þingmanna. Þar með eru kjördæmin komin í innbyrðis samkeppni um þau gæði sem helst eru í tísku á hverjum tíma. Þar getur verið um að ræða fiskeldi, flugvelli, hafnarmannvirki, vegagerð og jarðgöng, stóriðju o.s.frv. Kjördæmapot gengur t.d. út á að "eiga" ráðherra þess málaflokks sem heitastur er. Þá aukast líkurnar á að viðkomandi fyrirbæri dúkki upp í kjördæminu skömmu fyrir næstu kosningar - og þar með að ráðherrann haldi þingsætinu eftir kosningar!

Þetta er vont kerfi. Það leiðir til slæmrar nýtingar verðmæta, það hamlar langtímaskipulagningu og það veldur ríg og togsreytu.  

Um leið og ég óska hinum nýja Landsbyggðarflokki til hamingju með áfangann langar mig að stinga að flokksmönnum hugmynd að áherslumáli sem með réttu ætti að verða þeirra aðal baráttumál. Hún er sú að landið verði gert að einu kjördæmi með jöfnu atkvæðavægi kjósenda. Það er eina leiðin til að vega á móti kjördæmapoti og þar með forsenda þess að þessi margumtalaða landsbyggð nái að þrífast með þeim hætti sem vonast er til.
mbl.is Framsókn með 28,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

sammála þessu

eitt atkvæði á a vera eitt atkvæði.. .allstaðar.

Sleggjan og Hvellurinn, 28.3.2013 kl. 10:45

2 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Menn vilja semsagt fá reykjavíkurmafíuna til að stjórna restinni af landinu...

Aular!

Kveðja og gleðilega Páska

Ólafur Björn Ólafsson, 28.3.2013 kl. 13:40

3 identicon

Ég lít ekki á þetta mál sem hagsmunamál einhverrar "Reykjavíkurmafíu".  Mér finnst það vera prinsípmál að mitt atkvæði vegi jafnt og annarra.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 28.3.2013 kl. 13:52

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Vel reifað, Haraldur Rafn.  Eins og vægi atkvæða er háttað í dag er líklegt að landsbyggðin hafi nær helming þingmanna.  Samt þarf til þetta "kjördæmapot" sem þú nefnir.

Mér dettur helst í hug að vandinn liggi frekar í stjórnsýslunni en kjördæmaskipuninni.  

Sjálf er ég fylgjandi jöfnu atkvæðavægi hvar í sveit sem kjósendur búa.  Misvægið virðist a.m.k. ekki hafa skilað sér til hagsbóta fyrir landsbyggðina sem heild. 

Kolbrún Hilmars, 28.3.2013 kl. 14:28

5 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Hvað mundi almenningur segja ef í Icesave atkvæðisgreiðslunni þá mundi atkvæði á austurlandi gilda tvöfalt á við Reykjavík?

Það er þannig í Alþingiskosningunum.

Sleggjan og Hvellurinn, 28.3.2013 kl. 15:12

6 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Hver er þessi Reykjavíkurmafía og hver er hún til húsa, átta mig ekki alveg á því. Siðan er nú ágætt að rifja það upp að verulegur hluti þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu er fyrrverandi landsbyggðarfólk, þar á meðal sá sem þetta skrifar.

Haraldur Rafn Ingvason, 28.3.2013 kl. 15:32

7 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Svo er það þannig að allir Reykvíkingar vilja hafa byggð allan hringin og þykja mjög vænt um landsbyggðina. Enda erum við öll sem búum í þessu landi.

Sleggjan og Hvellurinn, 28.3.2013 kl. 15:36

8 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Ég held að flestir vilji halda byggð um allt land. Til þess þarf byggðin hins vegar að vera sjálfbjarga og þar stendur hnífurinn í hagræðingar-/hagfræðikúnni. Það virkar nefnilega ekki að draga blóðið úr byggðarlögum árum og áratugum saman og henda svo í þau pakkalausnum eins og stóriðju - eða bara engu.

Haraldur Rafn Ingvason, 28.3.2013 kl. 15:54

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það er nú einhver misskilningur í þessu hjá þér Haraldur.Kjördæmapotið á undanförnum áratugum hefur gengið út á það að embættirmenn hins obinbera og stjórnsýslan hefur verið í því að pota öllu til R. Víkur.Þetta hefur verið sjálfvirkt kjördæmapot höfuðborgarsvæðisins sem stöðugt heldur áfram,þrátt fyrir að nánast öll gjaldeyrismyndun sem við lifum á, eigi sér stað á Landsbyggðinni.Eina leiðin til að stöðva þetta sjálfvirka kjördæmapot R.Víkur og höfuðborgarsvæðisins er að skipta landinu upp i fylki, þar sem hvert fylki er með stjórnarskrárbundin þingmannafjölda á sameinuðu Alþingi.Ef íbúar höfuðborgarsvæðisins myndu ekki sætta sig við þingmannafjölda Landsbyggðarinnar gætu þeir að sjálfsögðu stofnað sér ríki, borgríkið R.Vík. og yrðu þá sjálfir að afla þess gjaldeyris sem þeir þyrftu.Landsbyggðin þarf að huga að þessu strax til að stöðva kjördæmapot höfuðborgarsvæðisins í eitt skipti fyrir öll.

Sigurgeir Jónsson, 28.3.2013 kl. 21:36

10 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

þetta er mesta rugl sem ég hef nokkurntíman lesið og ég hef lesið þónokkur rugl komment hér á moggablogginu.

Sleggjan og Hvellurinn, 28.3.2013 kl. 23:16

11 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Jaaááá... þetta er vissulega skoðun...

Haraldur Rafn Ingvason, 29.3.2013 kl. 00:25

12 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Ísland eitt kjördæmi þíðir bara eitt, að á eyjunni fögru verða tvö lönd.

Sú staðreynd að nær öll opinber þjónusta er staðsett í Reykjavík segir allt um það hver stundar mest kjördæmapot hér á Íslandi.

Það hefur verið haldin ein kosning til þings þar sem Ísland var eitt kjördæmi og þá átti akureyri aðeins nokkra, einn frá húsavík en Reykjavík rest. Frá kópaskeri út austfirðina yfir að selfossi kom enginn og frá vesturlandi út vestfirðina og inn að Akureyrir ekki neinn heldur þrátt fyrir að þátttaka landsbyggðarinnar hafi verið í prósentum meiri en höfuðborgarsvæðisins. Sjónamið landsbyggðarinnar voru fótum troðin þar og ekki er hægt að sætta sig við að það verði það líka inn á Alþingi Íslendinga.

Brynjar Þór Guðmundsson, 29.3.2013 kl. 09:32

13 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sjálfur sé ég það bara í orði að Reykvíkingar vilja hafa byggð allann hringinn, en á borði þá eru dæmin sem sýna annað samanber kosningu til ákveðins þings sem Brynjar Þór Guðmundsson bendir á.

Gleðilega Páska

Ólafur Björn Ólafsson, 29.3.2013 kl. 10:32

14 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Samkvæmt umræðuhefðinni sem skapast hefur þá eru nú þegar tvö lönd á eyjunni fögru. Núverandi kerfi styður við þá skiptingu og þar fara landsbyggðarþingmenn fremstir í flokki. 

Spurningin sem allir forðast að spyrja er einfaldlega þessi: Á að halda öllu landinu í byggð eða ekki ? Þessari spurningu þarf landsbyggðin líka að svara, því þar er staðan býsna misjöfn. Og ekki nóg með það, staðan getur gjörbreystfyrir varalítið. Hver man ekki eftir panikinu þegar einhver gutti frá Rifi eignaðist allt i einu sjálft Útgerðarfélag Akureyrar.

Það varð hins vegar ekkert sérstakt panikástand þegar Guggan hætti að vera gul og fór úr landi með millilendingu á Akureyri...

Það er nefnilega ekki nóg að vera með fagurgala, byggðirnar þurfa að geta lifað. Núverandi kerfi virkar ekki fyrir landsbyggðina.

Haraldur Rafn Ingvason, 29.3.2013 kl. 12:13

15 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

það er einfaldlega mikilu meiri hagræði í því að hafa opinbera þjónustu starfandi í Reykjavík.

Það er ekki vegna þess að Reykvíkingar vilja pönkast í landsbyggðinni.

Það er einfaldlega að vera að leggja áherslu á skilvirkara stjórnsýslu. Sem er til hagsbótar fyrir allan almenning. Líka landsbyggarðinnar.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.3.2013 kl. 14:00

16 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Sæll Haraldur.

1. " Á að halda öllu landinu í byggð eða ekki ?"

Skrítin spurning sem kallar á svör sem þér þykja eflaust skrítnari... Ef við myndum nú ákveða að ekki ætti að halda öllu landinu í byggð, þá hlyti það að fylgja að landsbyggðin þyrfti ekki að greiða skatta og skyldur til Reykjavíkur. Þar sem allir vita að Reykjavík gerir miklu meira af því að þiggja en að gefa myndi nýtt landslag birtast á Íslandi því stofnanir og aðrar peningasugur landsbyggðarinnar færu fljótlega á hausinn sem leiddi af sér að fólksflótti yrði úr höfuðborginni. Nýr "jafnari" jöfnuður myndi nást með eðlilegri dreifingu fólks um landið þar sem fólk myndi setjast að þar sem hægt væri að vinna við að skapa raunveruleg verðmæti í stað ímyndaðra sem hefur lengi verið bróðurparturinn af "tekjum" höfuðborgarinnar. Stofnana-/ eftirlits-/ stjórnunar-/ og bankaiðnaðurinn í Reykjavík er kominn á það stig að mús getur vart leyst vind út í haga án þess að hafa fyrir því tilskilin leyfi og kvittanir fyrir greiðslu hverskyns gjalda og skatta.

Allt tal um kjördæmapot hefur verið einhliða af hálfu höfuðborgarbúa og eiga þeir vitaskuld eingöngu við um verkefni sem þingmenn landsbyggðarinnar hafa komið á koppinn. Minna fer fyrir umræðum um potið fyrir sunnan. Hér eru nokkur dæmi sem "allir" ættu að geta samþykkt að yrði kallað kjördæmapot ef það væri einhversstaðaðar annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu:

1. Bygging Hörpu fyrir og í "hruninu".

2. Uppbygging hjólreiðastíga og brúa fyrir milljarða að hálfu á kostnað ríkisins.

3. Bygging "Húss íslenskra fræða".

4. Bygging "Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur" (ég veit ekki hvort þetta verkefni er farið af stað ennþá.

5. Færsla flugvallarins úr Vatnsmýrinni svo hægt sé að braska með lóðir þar.

6. Bygging nýs Landsspítala.

7. Listamannalaun (tau svo nýlega hækkuð). Hvar búa þeir sem eru á þessu bótum?

Og svo framvegis......

Ég er tilbúinn að samþykkja svokallaða "jöfnun" atkvæða þegar búið verður að ganga þannig frá endum að landsmenn hafi jafnan rétt til ýmissa grundvallaratriða t.a.m. :

1. Fólk sem sent er landshorna á milli til að hitta lækni geri það ávallt á kostnað ríkisins.

2. Allir hafi jafnan rétt til eðlilegs náms óháð búsetu. Það þýðir að ekki á að vera dýrara fyrir landsbyggðarfólk að senda sín börn til náms en höfuðborgarbúa eins og er í dag.

3. Hætt verði að mismuna fólki eftir búsetu þegar kemur að því að rukka fyrir ýmsa grunnþjónustu s.s. rafmagn, síma og internetþjónustu. Í dag eru dreifbýlisbúar að greiða miklu hærra verð fyrir rafmagn á þeim forsendum að opinberum starfsmönnum hja Rarik og Orkustofnun Ríkisins "finnst" það eiga að vera þannig (og að auki er boðið upp á verri vöru en í þéttbýli og með minna afhendingaröryggi (1 fasa í stað 3 fasa, flökt á rafmagni og veðurfarsleg áhrif á línur uppi í staur). Við greiðum sama gjald fyrir miklu minni hraða internets o.s.frv

Held e.t.v. áfram síðar

Högni Elfar Gylfason, 29.3.2013 kl. 16:01

17 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Haraldur, þú ert klár í stærðfræði er það ekki, hvernig er þá hægt að tala um kjördæmapot

vifill.vesturland.is/Vifill%20RSP%201%202005.pdf  "Reykvíkingar eru 60% Íslendinga sem þiggja 75% skatttekna ríkisins en skaffa ekki nema 42%"

Hvernig er það kjördæmapot þegar 40% Íslendinga sem leggja ríkinu til 58% tekna fá aðeins 25%? Þessi eina staðreynd dugir til að skjóta allar staðhæfingar og röksemdafærslur ykkar borgarbúa í kaf. Auk þess snertir þú ekki á þeirri staðreynd að hagsmunir landsbyggðarinnar voru fótum troðnir í stjórnlagakosningunni.

 "Núverandi kerfi styður við þá skiptingu og þar fara landsbyggðarþingmenn fremstir í flokki." Vitu vera svo vænn að útskíra fyrir mér hvernig það virkar, því síðast þegar ég vissi þá var atkvæða misræmið umtalsvert minna en gengur og gerist í löndum sem við viljum bera okkur saman við sem og við þá styður skiptingu tekna ríkissjóðs það  að vægi landbyggðar sé enn meira.

Sleggja, Mig grunar að þú vitir hversu ótrúnlega vitlaus þessa færsla sé hjá þér á þeim forsendum að þú þorir ekki að bendla nafn þitt við færsluna, "það er einfaldlega miklu meiri hagræði" Er það, fyrir hvern? Það kostar meira að ferja konur í barnsnauð en að láta þær fæða í heimabyggð td. Annars er nú hægt að benda á  meint "kjördæmapot" varðandi jarðgöng td á vestjörðum og austfjörðum. Ef það væri einhver jafnaðarstefna í gangi hjá jafnaðarmönnum væri gat í gegnum öll fjöllin sem eru einhverjir faratálmarog allir hefðu jafnan samgöngurétt en svo er ekki. Ef einhver "hagræðishugsun" væri í gangi væri ekki eitt fjall eftiróborað á vestfjörðum né austfjörðum þar sem sparnaðurinn er svo gífurlegur að menn gætu ekki horft á það. Og ef það væri verið að pæla í hagræði væru menn ekki að pæla í landspítalanum í þeirri mynd sem nú á að byggja heldur væru öflugri spítalar um landið með 150 km millibili, sér í lagi þar sem sjúkrahúsrekstur er ódýrari en í Reykjavík þannig að þú sleggja getur tekið þessi rök sem þú settir og skilað þeim aftur þangað sem þau komu og reynt að koma með eitthvað af viti

Högni, nákvæmlega það sem ég hef verið að benda á

Brynjar Þór Guðmundsson, 29.3.2013 kl. 16:54

18 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Brynjar ekki vera svona heimskur.

Ég var að svara þessu með opinbera þjónustu þ.e stjórnsýslunni.

Ekki jarðgöng.

Reyndu að kynna þér málið og lesa sem ég segi áður en þú ferð að gaspra einhverja þvælu hér á blogginu.

Þú ert að gera lítið úr sjálfum þér.

Sleggjan og Hvellurinn, 29.3.2013 kl. 18:56

19 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Sleggja, ég tó ekki bara vegagerð/samgöngurekstur eða það sem þú kallar jarðgöng heldur einnig heilbrigðiskerfið. Í Raun er ekkert því til fyrirstöðu að hafa megnið af opinbera kerfinu út á landi þar sem ef við út á landi getum farið suður þá hlýtur fólkið í 101 og þar í kring að geta farið út á land og því spyr ég aftur, þetta hagræði, fyrir hvern? Ekki ríkið þar sem það kostar meira að reka fasteignir og mannskap í reykjavík en út á landi og gott dæmi um það er útlendingastofnun og landhelgisgæslan. Og ekki fyrir fólk út á landi.

"Sú staðreynd að nær öll opinber þjónusta er staðsett í Reykjavík" Þetta er það sem ég sagði orðrétt, er opinber þjónusta nú orðin stjórnsýsla? Það verður seint talið til greindar að hafa takmarkaðan lesskilning, því síðast þegar ég athugaði þá var opinber þjónusta allt frá vegagerð yfir í heilbrigðiskerfið. Frá Póstþjónustu að eftirlistiðnaðinum og allt þar á milli og stjórnapparatið(stjórnsýslan) er í raun aðeins brot af því.

Svo er náttúrulega punturinn "Reykvíkingar eru 60% Íslendinga sem þiggja 75% skatttekna ríkisins en skaffa ekki nema 42%"

Brynjar Þór Guðmundsson, 29.3.2013 kl. 20:51

20 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Hér er aldeilis fjör. Maður bregður sér aðeins frá og næst þegar maður gáir eru athugasemdirnar orðnar á annan metra og spanna hin ýmsu stig stjórnsýslu og samskipta.

Skoðum málið að loknum nætursvefni

Haraldur Rafn Ingvason, 30.3.2013 kl. 01:46

21 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Nokkrir punktar varðandi innlegg Helga.

Þetta er ekki skrítin spurning heldur spurning sem þarf að spyrja og fá svar við. Það er hins vegar ekki höfuðborgarsvæðið sem ræður hvort landsvæði fer í eyði eða ekki. Þar kemur margt til s.s. hvað gerist í nágrannasveitarfélögunum eins og ég benti á hér að ofan. núverandi kerfi hefur ekki reynst landsbyggðinni neitt sérstaklega hliðhollt, er það?

Varðandi þessi atriði sem þú nefnir þá er þetta nú slakur listi. Einkaaðilar fóru af stað með Hörpu. Borg og ríki sátu svo uppi með pakkann og ákváðu að klára hann í stað þess að rífa. Hjólastígarnir sem þú tiltekur er framkvæmd á þessu ári upp á 380 millj. Í framtíðinni hefur verið talað um allt að tvo milljarða en þar er ekkert í hendi. Þetta er gríðarlega mikilvæg samgöngubót sem eykur öryggi hinna gríðarmörgu hjólandi vegfarenda svo um munar. Í dag eru þessir stígar inni á skipulagi frá upphafi. Bæði stofnun Vigdísar og hús íslenskra fræða eru kennslu- og rannsóknarstofnanir tengdar Háskóla íslands og því á hárréttum stað. Þú byggir ekki frystihús á Sprengisandi! En af því að Háskólinn er til umræðu þá hefur útibúum hans verið að fjölga út um allt land, sem og Náttúrustofum. Nýjasta viðbótin er staða á Patreksfirði sem hefur flugalíf Látrabjargs sem sitt aðalviðfangsefni. Landspítalinn er eðli málsins samkvæmt í Reykjavík sem og allar viðbætur á honum. Flugvöllurinn er ekkert á förum. Listamannalaunum var úthlutað til listamanna á höfuðborgarsvæði og landsbyggð í sama hlutfalli og umsóknir þaðan bárust, enginn halli þar.

Get tekið undir með þér með að ekki er eðlilegt að fólk þurfi að sækja til sérfræðinga alfarið á eigin kosnað. Námsframboð á landsbyggðinni er alltaf að batna en ég get ekki tekið undir að ríkið eigi t.d. að greiða leigu fyrir námsmenn eins og skilja má af lið 2.

Ég get vel tekið undir að helstu veitur eigi að vera á sama verði um allt land. Afhendingaöryggið er svo annar handleggur sem ræðst m.a. af landfræðilegum þáttum.

Haraldur Rafn Ingvason, 30.3.2013 kl. 21:44

22 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Sæll aftur Haraldur.

Smávegis í viðbót...

Stjórnsýslan og pólitíkin hefur mjög mikið um það að segja hvort landið haldist í byggð utan stærstu þéttbýliskjarna. Stjórnsýslan og alþingi eru í Reykjavík og sífellt stærri partur af þingmönnunum er af því svæði. Þú hlýtur að geta séð fyrir þér hversu mikil byggð yrði út um landið ef við hefðum 63 x Gísli Marteinn á alþingi. Það er rétt hjá þér að núverandi kerfi hefur ekki verið neitt sérstaklega hliðhollt dreifðri byggð, en er þá ekki ráð að reyna að bæta kerfið eins og gert er hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum. Við getum t.a.m. skoðað hvað þeir gera í Noregi.

Það voru ríki og borg sem ákváðu og buðu út byggingu Hörpu þótt síðan hafi komið gamall karl sem taldi sig eiga peninga til að fjármagna verkið og upphefja sjálfan sig í leiðinni (hann er víst farinn á hausinn núna).

Varðandi hjólreiðastígana var ég ekkert að tala um að þeir væru ekki til bóta fyrir þá sem munu nota þá, en á hinn bóginn er Vegagerð ríkisins svo svelt að hún sér ekki möguleika á að halda við vegum í landinu sbr. Þverárfjallsvegur sem er nú orðinn mikið til ónýtur vegna skorts á viðhaldi. Ég tala nú ekki um alla malarvegina um allt land sem eru ekkert nema urð og grjót.

Varðandi þessa húskofa sem á að reisa eða byrjað er að reisa við Háskólann þá var ég ekki að segja að staðsetningin væri röng, en tímasetningin er fáránleg. Þú byggir ekki hús ef þú átt ekki krónu með gati til að borga fyrir það og síst af öllu ef verið er að tala um hús sem eru ekki á nokkurn hátt nauðsynleg né munu færa peninga í ríkissjóð nokkurntíman heldur aðeins auka við rekstrarkostnaðinn. Það að reisa stofu þetta og stofu hitt hér og þar á landinu er ekkert til að hreykja sér af þegar engir peningar eru til aflögu. Það væri kannski í lagi ef ekki væri búið að svelta heilbrigðiskerfið um allt land í drep og peningur væri samt í afgang. Þetta mennta-/ og menningarsnobb sem tröllríður öllu á auðvitað ekki rétt á sér fyrr en búið er að sinna öllu öðru áður. Svo held ég að stofnun einhverrar fuglastofu fyrir vestan sé heldur seint í rassinn gripið því búið er að friða refinn svo hraustlega að það eru fáir fuglar eftir til að telja.

Ég var heldur ekki að tala um staðsetningu Landsspítalans heldur þetta bull að eyða öllum þessum milljörðum í þessa risabyggingu þegar ríkissjóður er miklu meira en tómur.

Flugvöllur ekki á förum segir þú... vonandi er það rétt hjá þér, en engu að síður eru nokkrir háværir pólitíkusar og ef til vill fasteignabraskarar sem vilja færa hann á kostnað ríkisins.

Ég veit auðvitað ekki hvar þeir búa sem eru á "listamannalaunum", en grunar að þeir séu flestir á höfuðborgarsvæðinu. Væri ekki réttara að kalla þetta réttu nafni og hafa upphæðina þá sömu og hjá hinum sem fá greiddar atvinnuleysisbætur?

Ef þér finnst eðlilegt að fólk í dreifbýli sem þarf að senda börnin sín til Reykjavíkur í skóla greiði mikið hærra verð fyrir það, er þá ekki hægt að segja með sanni að þú kærir þig ekki um jafnrétti til náms?

Varðandi afhendingaröryggi rafmagns í dreifbýli, þá er það alfarið á ábyrgð stjórnmálamanna og ríkisins. Það er nefnilega þannig að ríkið innheimtir mun hærri gjöld á jarðstrengi en á loftlínur og staura ásamt því að enginn hvati er af hálfu ríkisins að ýta þessu verki áfram. Ef vilji væri til af hálfu pólitíkusa að keyra áfram það verk að koma dreifikerfinu í jörð, þá myndu þeir fella niður gjöld ríkisins á þær vörur sem þarf til verksins ásamt því að fella niður virðisaukaskattinn. Það yrði auðvitað mjög atvinnuskapandi í leiðinni. En... viljinn hefur ekki verið til staðar.

Að lokum þetta um ofangreind atriði... ég benti á þau til þess að sýna fram á ýmislegt sem hefur verið gert eða stendur til að gera á höfuðborgarsvæðinu en eru ekki kölluð sínu rétta nafni af því fólki sem hæst hrópar gegn flestum framfaramálum á landsbyggðinni.

Orðið er ...... "KJÖRDÆMAPOT"......

Högni Elfar Gylfason, 30.3.2013 kl. 23:28

23 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

sæll aftur Högni. Tek undir hvert orð í fyrstu málsgrein hjá þér, það þarf nefnilega að bæta kerfið en spurningin erum leiðirnar. Það er komin löng reynsla á kjördæmakerfið og það getur held ég enginn haldið því fram að það hafi virkað vel fyrir landsbyggðina a.m.k. um langt skeið. Ég er á því að hún sé fullreynd. Ég þekki ekki norsku leiðina sem þú nefnir en bendi á að þeir eru 14 fallt fleiri en við þó fáir séu.

Ég hef ekki grandskoðað fjármögnun háskólans á fyrirhuguðum byggingum en byggingrsjóður stendur að baki Vigdisarstofnunnar. Hvaða byggingar og stofnanir eru ganglegar er eitthvað sem alltaf er hægt að rífast um.

Vegagerðin er svelt, en hennar hlutverk er líka að sinna verkefnum í þéttbýli. Samningar sem gerðir voru við vegagerðina um stígagerð fólu í sér að nota fjármuni sem ella hefðu farið í hefðbundna vegagerð á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert pot þar.

Varandi annan pirring yfir blankheitum þá er það að koma upp stofu hér og það einmitt eitthvað til að hreykja sér af. Verið er að dreifa þekkingu, skapa störf og sporna gegn því að það þurfi að sækja allt "suður"! Síðan er það helbert kjaftæði að refirnir séu búnir að éta alla fuglana

Jafnrétti til náms er falleg hugsjón en hefur aldrei og mun aldrei verða veruleiki. Þekki það á eigin skinni. Eftir að í háskóla er komið grípur námslánakerfið þó inn og hjálpar upp á sakirnar. Þegar ég var í framhaldsskóla var í gangi sk. dreifbýlisstyrkur sem var hugsaður til að lappa aðeins upp á fjárhaginn, veit ekki hvernig þau mál standa núna.

 Takk fyrir frísklegt spjall

Haraldur Rafn Ingvason, 31.3.2013 kl. 02:38

24 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Haraldur "Samningar sem gerðir voru við vegagerðina um stígagerð fólu í sér að nota fjármuni sem ella hefðu farið í hefðbundna vegagerð á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert pot þar." Það eru settir meiri peningar í hjólastigi í Reykjavík en vegi hér á norðurlandi vestra, er það ekkert óeðlilegt þar?

Varðandi afhendingu á rafmagni er nokkuð merkilegt þar í gangi, landinu er hólfað niður og íbúum ætlað að borga fyrir flutning á rafmagni, td þarf ég að borga meira í flutning á rafmagni en fyrir sjálft rafmagnið. En flytja hvað? Ég bý á Blönduósi, veistu hvaðan ég fæ mitt rafmagn? Hugsaðu, það er ekki frá Blönduvirkjun heldur Laxárvirkjun sem er um 7 km frá blönduósi. Samt er ég að borga fyrir flutning á rafmagni frá Blönduvirkjun til Reykjavíkur og nú vilja Eyfirðingar fá eitthvað af því og veistu hver á að borga fyrir það? Ekki þú og ekki Eyfirðingar, svo mikið er víst. Blönduvirkjun var reist svo efla mætti atvinnulífið með orkunotkunar miklum iðnaði en við höfum víst aldrei séð það rafmagn, það er ekki einu sinni í boði og td stóð landsvirkjun vegi fyrir því að gagnaver yrði reyst hér norðan heiða.

 "Það er komin löng reynsla á kjördæmakerfið og það getur held ég enginn haldið því fram að það hafi virkað vel fyrir landsbyggðina a.m.k. um langt skeið." Já ég er sammál þér með það, en við erum hinsvegar ekki samála um lausn á því máli. Vandinn er í raun sá að kjördæmin eru orðin of stór og ég fæ ekki skilið hvernig vandamál of stórs kjördæmis verði leist með því að gera það enn stærra nema markmiðið sé að ganga milli bols og höfuð heima manna

Annars væri gott að fá hjá þér svar um þetta;

vifill.vesturland.is/Vifill%20RSP%201%202005.pdf  "Reykvíkingar eru 60% Íslendinga sem þiggja 75% skatttekna ríkisins en skaffa ekki nema 42%"

Brynjar Þór Guðmundsson, 31.3.2013 kl. 09:29

25 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Forgangsröðun í samgögnumálum er eitt þeirra atriða sem alltaf er deilt um. Ég er alinn upp á verfirskum malarvegum þekki þessa umræðu til langs tíma. Vegafé er úthlutað til mismunandi landshluta og verkefna. Í þessu tilviki var ákveðið að nýta úthlutað fé á þennan hátt í stað hefðbundinna nýframkvæmda eða endurbóta á gatnakerfinu.

Orkumálin eru í furðulegu limbói. Dæmið sem þú nefnir minnir helst á kerfisvisku ÁTVR sem lengi vel lét flytja bjór sem bruggaður var á norðurlandi suður í dreifingarstöð - til þess að flytja hann svo aftur á sölustaði norður í landi! Þetta eru s.s skyld fyrirbæri, gömul bákn og ríki í rikinu.

Það að hafa virkjun í nágrenninu þarf ekki að vera til neinna bóta. Þannig kostaði t.d. gríðarlega baráttu í óratíma að fá rafmagn lagt til sumra bæja í Þingvallasveit þrátt fyrir að Sogsvirkjanir væru í grenndinni. Það er líka stórundarlegt að gróðurhúsabændur skuli ekki fá almennilega hagstæða samninga um orkukaup.

Ég pældi í gegn um greinina sem þú bentir mér á (væri gaman að sjá þessi gögn uppfærð). Þar kemur fram á mynd 6 og texta með henni að megnið af hlutfalli launa í opinberri stjórnsýslu  er greitt í Reykjavík (enda eru sennilega um 90% hennar hér) og þar fara mestir fjármunir til almannatrygginga. Þetta hefur s.s. legið fyrir og þarf ekki að koma á óvart.

Þarna kemur hins vegar ekkert fram um hlutfall skattainnkomu og heildarútgjalda (sem innihalda t.d. samgögnumál ) til þessara landshluta, sem er náttúrlega það sem allir hafa áhuga á og Brynjar hér að ofan misles út úr myndinni. Ég fann þær upplýsingar ekki í fljótu bragði þrátt fyrir smá leit á vefnum. Gref þetta upp við tækifæri.

En það er eitt sem ég velti fyrir mér varðandi þennan samanburð: Það er að hugtökin Reykjavík og höfuðborgarsvæðið eru notuð sitt á hvað. Tilheyrir Reykjanes þá höfuðborgarsvæðinu (Hafnarfj., Kópav., Garðab.)? Ef svo er þá breytir það myndinni nokkuð þó það rétti hana ekki af.

Hvernig svo sem dæmið er reiknað þá hefur lengi verið halli á þessum opinbera samanburði. Flutningur opinberra starfa hefur út á land hefur því verið ítrekað á dagskrá en með arfaslökum árangri. Patentlausnin fjarvinnsla átti að bjarga þessu fyrir nokkrum árum en virkaði ekki fremur en aðrar skyndireddingar.

Lengst af hef ég verið gallharður stuðningsmaður landsbyggðar- kjördæma enda alinn upp úti á landi og var m.a. smábátasjómaður í 15 sumur. Hins vegar hef ég skipt um skoðun og tel farsælla að jafna þetta út. Eins og þú getur rétt ímyndað þér er markmið mitt ekki að ganga á milli bols og höfuðs á neinum.

Haraldur Rafn Ingvason, 31.3.2013 kl. 23:10

26 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Vestfirskum malarvegum... og fjárans langhundar eru þetta að verða hérna...

Haraldur Rafn Ingvason, 31.3.2013 kl. 23:21

27 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Sæll Haraldur.

"Jafnrétti til náms er falleg hugsjón en hefur aldrei og mun aldrei verða veruleiki."

Á meðan svo er finnst mér eðlilegt að segja: Jöfnun atkvæða er falleg hugsjón en ætti aldrei að verða að veruleika á meðan jafnrétti er ekki virt á öðrum mikilvægum sviðum mannlífsins.

"Síðan er það helbert kjaftæði að refirnir séu búnir að éta alla fuglana"

Ekki sagði ég nú að þeir væru búnir með "alla" fuglana, en eins og ALLIR sem búa í dreifbýli og hafa gert það síðustu árin vita þá hefur smáfuglum og rjúpum fækkað mikið og refum fjölgað mjög mikið. Þetta er ekki hægt að véfengja nema þá að halda því fram í leiðinni að allir bændur sem tjá sig um þessi mál séu að ljúga. Þetta er hið sorglegasta mál að horfa upp á, alveg burtséð frá því hvort tófan sé sæt og krúttleg. Ríkið rekur stofnun á vestfjörðum sem heitir Melrakkasetur og þar starfar fólk við að fylgjast með tófum. Frá þeim hefur komið sú merka skoðun að tófan eigi að verða að "einkennisdýri" Íslands því hún sé svo hógvær og dugleg að bjarga sér. Því miður er þetta fólk greinilega ekki mikið í tengingu við dýralífið í landinu og ekki haldið áhuga á verndun fugla á háu stigi.

Annars sama hér... takk fyrir góð samskipti...

Högni Elfar Gylfason, 1.4.2013 kl. 00:12

28 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Sæll haraldur, Ég sé nú ekki hvernig dreifikerfi ÁTVR og Rafmagns sé sambærilegt hvað kostnað varðar en hitt er ljóst að Húnvetningar borga fyrir að flytja raforku inn í borgarfjörðin til þess eins að Borgnesingar geti borgað fyrir að flytja hana inn á höfuðborgarsvæðið þannig að Reykvíkingar geti fengið rafmagnið á lægra verði.

"Það er líka stórundarlegt að gróðurhúsabændur skuli ekki fá almennilega hagstæða samninga um orkukaup" Því er ég alveg samála, Landsvirkjun er að mínu mati komin út á tún hvað varðar Rekstur sinn. Öll fyrirtæki eru rekin með hag eigenda að leiðarljósi, hagur Ríkisins liggur(meðal annars) í lægra atvinnuleysi og lægra verði(innlendrar) matvöru og því margt þar að.

 "Þarna kemur hins vegar ekkert fram um hlutfall skattainnkomu" Þarna kemur fram sterk vísbending um það hvernig þessum málum er háttað og væri forvitnilegt að sjá hvernig það kæmi út í dag. Annars var frétt um vegamál á stöð 2 í hást þar sem teknar voru vegframkvæmdir en í gangi eru á Íslandi og kom í ljós að meirihlut þeirra er á Reykjavíkursvæðinu þrátt fyrir að þörfin væri brýnust nær allstaðar annarstaðar. Einnig er það svolítið merkilegt að ÍAV var að landa verki sem er þreföld veglagning og viðhald vega hér,þrátt fyrir að 120 miljarðar séu eyrnamerktir vegagerð á hverju ári í gegnum m.a. vegna olíugjalds. Ég spurði eitt sinn fyrrum fjármálaráðherra hvert þessir fjármunir færu og kom eftir langt þóf "í eitthvað annað", í ljósi þess að lítið sem ekkert er gert út á landi og ekkert í samgöngumálum má gera ráð fyrir að þetta lendi Í Reykjavík.

"Það er að hugtökin Reykjavík og höfuðborgarsvæðið eru notuð sitt á hvað" Í mínum huga er Reykjavík, hafnarfjörður, kópavogur(og fleiri) og Höfuðborgarsvæðið eitt og sami hluturinn. Í mínum huga er mörk höfuðborgarsvæðisins fyrir utan hafnarfjörð, við Hvalfjarðargöngin og rétt fyrir utan nesjavallarvirkjun(?) á hellisheiði þannig að Reykjanesbær er í raun fyrir utan Höfuðborgarsvæðið.

Reyndar gæti verið hægt að höggva á hnútinn með kjördæmunum með því að hafa þingið í raun tvísetið, þ.a.s. að hafa bæði kosningar þar sem kosið yrði um 25 þingmenn og væri þar landið allt eitt kjördæmi og svo væri kosið í kjördæmum eins og var fyrir 1980 og þar væri kosið um 3 í hverju kjördæmi. Kosið yrði til 4 ára í hvorri kosningu en þó með tveggja ára millibili

Brynjar Þór Guðmundsson, 1.4.2013 kl. 10:35

29 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Já, refir eru málefni sem gjarna fær blóðið á hreifingu. Ég tók snerru um þá hérna og læt duga að vitna í hana.

Varðandi olíugjald, þá er löng hefð fyrir því siðleysi að eyrnaerktu skattfé sé stolið til annarra hluta. Seinasta dæmið var útvarpsskatturinn.

Tek undir skilgreininguna á höfuðborgarsvæðinu og raunar væri mikið hagræði að því að sameina þessa hreppa undir eitt stjórn- og skipulagsvald, en það er efni í annan pisti...

Haraldur Rafn Ingvason, 1.4.2013 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haraldur Rafn Ingvason
Haraldur Rafn Ingvason

“I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it.” (Evelyn B.Hall (nei ekki Voltaire))

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband